02.04.1981
Sameinað þing: 69. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3393 í B-deild Alþingistíðinda. (3473)

99. mál, eldsneytisgeymar varnarliðsins

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Þótt hv. þm. Geir Hallgrímsson, formaður utanrmn., sé farinn úr þingsal ætla ég samt sem áður að fagna því, að hann skuli hafa lýst því yfir hér sem formaður utanrmn. að ferðalag nefndarinnar til Keflavíkurflugvallar sé öllum frjálst að gera að umræðuefni á líkan hátt og hann gerði hér og þeirri venjulegu starfskvöð, sem er á utanrmn., einni allra nefnda Alþingis, að þar sé farið með störf sem trúnaðarmál uns formaður nefndarinnar eða utanrrh. ákveður annað, skuli nú hafa verið aflýst og það ákveðið hér úr ræðustól og hann tilkynnt það sem formaður nefndarinnar að þetta ferðalag sé undan þeirri kvöð leyst sem venjuleg störf nefndarinnar eru bundin. Skal ég ekki gagnrýna það. Það er að vísu andstætt því sem áður var búið að fjalla um í nefndinni, en merkileg og góð tíðindi að formaður nefndarinnar skuli nú hafa ákveðið annað. (Gripið fram í.) Ég ætla varla, hv. þm. Árni Gunnarsson, að jafnábyrgur stjórnmálamaður og Geir Hallgrímsson, sem gerir sér skýra grein fyrir stöðu formanns utanrmn., gefi þá yfirlýsingu, sem hann gaf hér úr ræðustól, án þess að telja sig hafa til þess heimild.

Ég lýsti því yfir hér á Alþingi veturinn 1978–1979 að nauðsynlegt væri að grípa til varnar gegn þeirri mengun sem íbúum nokkurra byggðarlaga á Suðurnesjum stafar af birgðageymum bandaríska hersins. Ég átti verulegan þátt í því að fá samþykkta hér á Alþingi till. þess efnis að gerð væri athugun og könnun á því með hvaða hætti væri hægt að stemma stigu við þeim miklu mengunarvöldum sem olíu- og birgðageymar bandaríska hersins í nágrenni Suðurnesjabyggða eru. Það er þess vegna alrangt, sem haldið hefur verið fram bæði hér á Alþingi og utan þings, að við þm. Alþb. höfum verið á móti því að gerðar væru nauðsynlegar ráðstafanir til að fyrirbyggja þá verulegu mengunarhættu sem byggðarlögunum á Suðurnesjum stafar af þessum geymum. Þeir menn, sem því halda fram, hafa einfaldlega ekki kynnt sér málflutning okkar hér á Alþingi. Það liggur alveg ljóst fyrir og hefur legið fyrir í nokkur ár, að við höfum innan þings og utan verið meðal helstu hvatamanna að því, að þessari verulegu mengunarhættu og reyndar líka öðrum, bæði þjóðfélagslegum og efnahagslegum, væri bægt frá íbúum Suðurnesja. Hitt er svo aftur á móti afdráttarlaust í okkar afstöðu, að við viljum ekki gera þær mengunarvarnir að verslunarvöru við Bandaríkjaher, að Bandaríkjaher fái í staðinn fyrir mengunarvarnir aukna aðstöðu til hernaðarumsvifa á Íslandi. Það er á þessu grundvallaratriði sem ágreiningur okkar við ýmsa aðra, m. a. flm. þessarar till., hefur byggst. Flm. þessarar till. hafa talið eðlilegt að Íslendingar gerðu þessar mengunarvarnir að verslunarvöru við bandaríska herinn og hann fengi í staðinn að stórauka eldsneytisbirgðir sínar hér. Utanrrh. hefur upplýst hér að þar sé um 2/3 aukningu á flugvélaeldsneyti að ræða og jafnvel, ef áfram yrðu leigðir þeir geymar sem leigðir hafa verið hingað til og ekkert hefur svo sem afdráttarlaust komið fram um að ekki gætu verið leigðir áfram í Hvalfirði, þá sé næstum því um 100% aukningu að ræða.

Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, sem hér hefur ekki komið skýrt fram í umr., en hefur þó komið fram annars staðar, að lagt er til að þessar mengunarvarnir séu greiddar af NATO Infrastructure Fund eða þeim sjóði Atlantshafsbandalagsins sem notaður er eingöngu til að fjármagna hernaðarframkvæmdir. Mjög skýrt og greinilega er kveðið á um það í meðferð þess sjóðs og fyrirgreiðslu hans gagnvart framkvæmdum í aðildarríkjum bandalagsins, að það sé eingöngu til þess að fjármagna þær framkvæmdir sem nýtast NATO í hernaðarlegu tilliti.

Það væri gagnlegt að fá fram hér í umr. upplýsingar um áætlaðan kostnað við þessar framkvæmdir, en þær hafa ekki komið fram hér í þingsölum áður, og þá nánari hugmyndir um hvernig að greiðslu þessa kostnaðar verði staðið hvað snertir byggingu geymanna sjálfra, að rífa upp þá geyma, sem nú eru fyrir, og byggingu þeirrar hafnar, sem lítt hefur verið gerð að umræðuefni hér. En áður en ég kem að þessu atriði vil ég víkja nánar að þeirri ákveðnu staðsetningu, sem hér er rætt um, og vekja skýra athygli á því, að það svæði í nágrenni Helguvíkur, sem lagt er til að þetta gífurlega mikla geymarými verði staðsett á, er það svæði sem í gildandi aðalskipulagi Keflavíkurkaupstaðar er ætlað sem aðalbyggingarsvæði kaupstaðarins á næstu áratugum. Það er því ljóst að það á að taka undir þessar stórfelldu eldsneytisgeymaframkvæmdir það svæði sem í gildandi aðalskipulagi Keflavíkurkaupstaðar var markað fyrir byggðaþróun einbýlishúsa og raðhúsabyggð Keflavíkuríbúa á næstu áratugum. Því hefur ekki verið svarað með neinum hætti hvaða svæði komi þá í staðinn.

Ég vil vekja athygli á því, að þótt það sé vissulega rétt sem hér hefur komið fram og frá okkur Alþb.-mönnum áður fyrr, að það svæði, sem núverandi geymar standa á, skapi verulega mengunarhættu, eru samt sem áður allverulegir annmarkar á því að það svæði nýtist vel til íbúðarhúsabyggðar í framtíðinni. Það er vegna þeirrar einföldu staðreyndar, að það er í slíkri nálægð við alþjóðaflugvöll Íslendinga og hernaðarflugvöll Bandaríkjanna að hin mikla flugumferð, sem þar er, aðeins nokkur hundruð metra frá þessu svæði, er bæði slíkur hávaðavaldur og slíkur öryggisleysisþáttur öllum íbúðarhúsum, sem þar kynnu að vera í nágrenni, að samkvæmt öllum almennum sjónarmiðum er það svæði sem tankarnir standa á nú — svo vægt sé til orða tekið — afar óheppilegt, ef ekki ónothæft, til íbúðarhúsabyggðar í framtíðinni vegna nálægðar þess við flugbrautir alþjóðaflugvallar Íslendinga og þeirra flugbrauta sem herinn notar einnig. Menn hafa rætt mikið um vandræði sem í Reykjavíkurborg stafa af nágrenni Reykjavíkurflugvallar í ýmsum hverfum borgarinnar. Þau vandræði eru miklu meiri á því svæði sem geymarnir standa á nú. Það er alveg ljóst, hvernig svo sem menn líta á afstöðuna til dvalar hersins hér á landi, það er alveg fyrir utan þessa umræðu, að þær ákvarðanir, sem hér er lagt til að verði teknar, fela í sér að Keflvíkingar fórni helsta svæði, sem í gildandi aðalskipulagi er ætlað til íbúðarhúsabyggðar, fyrir svæði sem er í slíku nágrenni við helstu flugbrautir herstöðvarinnar og flugstöðvarinnar í Keflavík að það er nánast ónothæft til íbúðarhúsabyggðar.

Það hefur hvað eftir annað verið sagt hér í umr. að heimamenn hafi mælt með þessari staðsetningu. Það er vissulega rétt, að sumir fulltrúar heimamanna hafa mælt með þessari staðsetningu. En ég er þeirrar trúar, að sú afstaða sé ekki byggð á nægilegri athugun á framtíðarþróun í skipulagsmálum á þessu svæði og kannske fyrst og fremst til komin vegna þess að mengunaróttinn af herstöðinni brennur svo á íbúum þessa svæðis að þeir séu nánast tilbúnir að taka kost sem þennan eingöngu til að losa sig undan honum. Þeir aðilar, sem leggja til að þessi þáltill. sé samþykkt vegna þess að hún er beinlínis bundin við þá till. sem liggur fyrir um staðsetningu þessara geyma, hafa að mínum dómi ekki gert sér nema grein fyrir því, hvað er verið þarna að ákveða.

Ég vil benda hv. þingheimi á það, að nýlega tóku Keflvíkingar í notkun nýjan kirkjugarð. Þm. þekkja það væntanlega að ekki er vani að velja kirkjugörðum stað mjög fjarri kaupstöðum og þorpum þessa lands. Þeir eru venjulega hafðir í hæfilegri fjarlægð frá byggð og í tengslum við væntanleg þróunarsvæði byggðarinnar. Staðsetning olíugeymanna í Helguvík er mitt á milli núverandi marka Keflavíkurkaupstaðarbyggðar og hins nýja kirkjugarðs. Í slíkri nálægð er þessi staðsetning við núverandi byggð að það er ekki nema eins og einn eða tveir kílómetrar frá núverandi húsamörkum og götumörkum byggðs hluta Keflavíkurbæjar til þeirra staða sem geymarnir eiga að rísa á. Og það sem meira er, sem ekki hefur heldur komið fram í þessum umr.: Þær leiðslur, sem eiga að liggja frá þessum geymum, eiga að liggja um framtíðarskipulags- og byggðarsvæði kaupstaðarins. Þessi lausn felur því ekki í sér það sem þó margir íbúar Keflavíkurkaupstaðar hafa óskað eftir, að þeir væru algjörlega lausir við olíukerfi hersins úr sínum byggðarlögum, heldur þvert á móti: Bæði staðsetning geymanna í Helguvík og þær miklu leiðslur, sem frá þeim eiga að liggja, ganga í gegnum byggðina sjálfa. Ég óska þess vegna að hv. alþm., jafnvel þeir sem hér koma upp og lýsa yfir að þeir styðji þessa till., — till. sem er algjörlega bundin við núverandi tillögu um staðsetningu, — gefi sér nú tíma til að kynna sér í raun og veru hvað þarna er lagt til.

Ég er þeirrar skoðunar, að staðsetning þessara stóru geyma í Helguvík leysi á engan hátt þau tengslavandræði sem íbúar Suðurnesja hafa hingað til haft af birgðastöðvum hersins, þótt eðli þeirra vandræða breytist að vísu nokkuð. Þó að sjálft eðlið breytist er eingöngu verið að færa vandann nokkuð til. Þess vegna höfum við verið reiðubúnir að ganga til athugana á því að finna aðrar lausnir á þessum efnum, sem þó væru tengdar því grundvallarviðhorfi að það væri ekki verið að auka eldsneytisbirgðarými bandaríska hersins á Íslandi.

Það er ein spurning sem þeir, sem hafa mælt með þessari till., hafa ekki svarað enn, sem enginn hefur svarað enn, og ég óska eftir að þeir svari í þessum umr., gefi skýr og glögg svör við henni:

Hvers vegna er Bandaríkjaher að óska eftir því að auka flugvélabensinbirgðir sínar á Íslandi um 60–100%? Hver er hernaðarlega þörfin á því fyrir Bandaríkin að stórauka svo flugvélabensínbirgðir sínar á Íslandi? Það er efnisatriði sem stuðningsmenn þessarar till. hafa ekki snert í umr. til þessa. Ég óska eftir því, að þeir geri það. Ég segi það í fullri alvöru og einlægni við andstæðinga mína í þessum málum, þ. e. þá sem styðja aðild Íslands að NATO og varnarsamninginn við Bandaríkin, að það hafa verið teknar hér á undanförnum árum og á greinilega að fara að taka samkvæmt þessari till. ákvarðanir sem fela það í sér að Íslendingar eða ráðamenn þeirra geri kaup við Bandaríkin. Þeir geri kaup við Bandaríkin á þann veg, að gegn því, að Bandaríkin taki þátt í að fjármagna lausn á ákveðnum vandamálum sem brenna á Íslendingum, sé þeim látin í té stóraukin hernaðaraðstaða í landinu. Þar með er hættan á árás á Ísland og hættan á því, að Íslendingar dragist inn í átök milli stórveldanna stórkostlega aukin.

Það hefur komið fram, að veturinn 1977–1978, síðasta árið í ríkisstjórnartíð Geirs Hallgrímssonar, var unnið að því að Bandaríkjamenn lofuðu að taka þátt í fjármögnun flugstöðvar á Íslandi, sem þeir höfðu þó neitað að gera í þrjú ár. Það fór allt í einu að verða auðveldara að fá þá til að taka þátt í þessum kostnaði veturinn 1977–1978, síðasta árið eða síðustu mánuðina í ríkisstjórnartíð Geirs Hallgrímssonar. Á sama tíma var gert samkomulag við Bandaríkin um að þau fái að hrinda hér í framkvæmd einhverri mestu aukningu á hernaðarumsvifum sínum hér um árabil, þ. e. byggingu sérstakra og nýrra sprengjuskýla í tengslum við Phantomþoturnar, sem eru aðalvopnaburðarþotur hersins hér, í öðru lagi að byggja hér sérstaka jarðstöð vegna gervitunglafjarskipta í hernaði, eða Satellite terminal, til þess að fullkomna enn frekar það hernaðarnet, sem Bandaríkin hafa þegar komið sér hér upp í landinu í gegnum Sosus-kerfið og aðra aðstöðu sem hér er fyrir, og í þriðja lagi með því að staðsetja Awacs-flugvélarnar hér, sem eru umfangsmestu og dýrustu hernaðartæki í flugflota Bandaríkjanna. Mikilvægi þeirra sést m. a. á því, að á s. l. mánuðum hafa Bandaríkjamenn flutt slíkar vélar til tveggja svæða: annars vegar Saudi-Arabíu vegna stríðsins milli Írans og Íraks og hins vegar til meginlands Evrópu vegna hættunnar á átökum þar. Nú er rætt um það, að á sama tíma og reynt er að leysa mengunarvandamál á Suðurnesjum sé Bandaríkjamönnum veitt aðstaða til að stórauka hér eldsneytisbirgðastöðvar sínar.

Nú er það svo, að við Íslendingar eigum ekki hernaðarsérfræðinga og við erum nokkuð fákunnandi í þessari umræðu. Samt sem áður eru menn sæmilega læsir á þau rit sem viðurkenndir sérfræðingar um þessi efni gefa út. Það hefur m. a. komið fram í nýlegri ársskýrslu friðarrannsóknastofnunar í Svíþjóð, SIPRI, sem er talin ein virtasta alþjóðlega rannsóknarstofnun á þessu sviði, að einmitt aðstaða af því tagi, sem Bandaríkjamenn fengu hér veturinn 1977–1978, og eldsneytisbirgðastöðvar af því tagi, sem nú er rætt um að þeir fái hér, séu hvorki meira né minna en líklegustu — ég endurtek: líklegustu skotmörk í þeirri tegund hernaðar sem stórveldin munu einna helst beita hvert gegn öðru. M. ö. o.: Í tengslum við lausn þeirra vandræða, sem talin eru vera á flugstöðvarþjónustu Íslendinga á Keflavíkurflugvelli, og þeirra vandræða, sem byggðum Suðurnesja stafar af mengunarhættu olíugeymanna, hefur þegar, á síðasta stjórnarári Geirs Hallgrímssonar og í þeirri till., sem hér er til umr., verið lagður grundvöllurinn að því, að Bandaríkin fái í staðinn að stórauka hernaðarlega aðstöðu sína hér og þar með stórauka árásarhættuna á landið og stórauka líkurnar á því, að Ísland dragist inn í átök milli stórveldanna á fyrstu stigum slíkra átaka.

Ég sagði það hér áðan að ég vildi mæla þessi orð í fullri alvöru og fullri einlægni við andstæðinga mína í þessu máli, þ. e. þá sem eru stuðningsmenn Atlantshafsbandalagsins og samningsins við Bandaríkin. Ég geri það vegna þess að ég vona að sá þingmeirihluti og þeir einstaklingar, sem taka ábyrgð á þessum gerðum, geri sér skýra grein fyrir því, hvað er hér verið að gera, og þeir hafi bæði gagnvart sjálfum sér og eins gagnvart íslensku þjóðinni í nútíð og framtíð, ef til þess óhugnaðar kæmi sem átök milli stórveldanna yrðu í raun, full rök fyrir því að þeir hafi í senn vitað, hvað þeir voru að gera og viljað það, sem þeir voru að gera. Niðurstaðan af þeim ákvörðunum, sem teknar voru á síðasta stjórnarári Geirs Hallgrímssonar og lagt er til í þessari þáltill. að teknar séu, er einmitt af því tagi að stórauka árásarhættuna á Íslandi. Það eru ekki aðgerðir til varnar. Það eru í eðli sínu aðgerðir sem auka líkurnar á því, að það ríki, sem ætlaði sér að ráðast á Bandaríkin, teldi óhjákvæmilegt á fyrstu stigum slíkra átaka að varpa sprengjum á þá aðstöðuþætti sem hér hefur verið komið upp. Þess vegna er ég alveg sammála hæstv. utanrrh. um að það er alveg nauðsynlegt að Íslendingar komi sér upp sérfræðingum í þessari hernaðarumræðu. Ég er alveg sammála hæstv. utanrrh. um það. Ég tel hins vegar að það eigi að vera sérfræðingar sem hafi trausta og góða menntun og fulla persónulega burði til að veita íslenskum stjórnvöldum, þingi, ríkisstjórn og þjóð sjálfstætt álit á þeim málum sem hér eru til umfjöllunar, hafa verið og verða og eru mjög örlagarík mál fyrir íslenska þjóð, bæði í nútíð, en ekki síður í framtíð, ef til átaka kæmi milli stórveldanna. Þess vegna finnst mér að þeir aðilar, sem vilja skrifa upp á að framkvæma allar þær tillögur sem hér er lagt til varðandi breytingar á eldsneytisgeymum hersins, þurfi bæði að færa rök fyrir því, hvers vegna þessi aukning sé nauðsynleg, og eins fjalla ítarlega um þá annmarka staðsetningarinnar sem ég hef hér verið að gera að umræðuefni.

Ég vil lýsa þeirri skoðun minni hér, að þótt ég sé andstæðingur dvalar bandaríska hersins hér á landi mun ég ávallt telja það skyldu mína, m. a. vegna þeirrar andstöðu, að reyna að stuðla að því, jafnvel í samvinnu við andstæðinga mína í þessu máli, að staðsetning þeirrar aðstöðu og mannvirkja, sem greinilega eru þáttur í hernaðaraðstöðu Bandaríkjanna hér á Íslandi, sé slík, að ef sprengjum yrði á það varpað í hernaði, en það er meginforsenda allrar þessarar starfsemi hér að til slíks geti komið, þá væri hættan á því að íslenskum mannslífum yrði fórnað í slíkri árás í algeru lágmarki. (ÓÞÞ: Hvar á þá að staðsetja þetta?) Ég hef heyrt, hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, ýmsar hugmyndir aðrar en þær sem hér hafa verið lagðar til um staðsetningu á geymum sem mundu leysa þann mengunarvanda sem hér hefur fyrst og fremst verið rætt um. En hins vegar er það ljóst, að ef menn ætla sér að koma upp þeirri olíuhöfn og þeirri víðtæku aðstöðu annarri sem tengd er birgðaaukningunni, sem þarna er á ferðinni, eru kannski ekki margir aðrir staðir í nágrenni Keflavíkurflugvallar sem koma til greina. Ef menn hafa aftur á móti eingöngu áhuga á að leysa mengunarvandamálið sem allir stuðningsmenn þessarar till. hafa fyrst og fremst og sumir nær eingöngu gert að sinni röksemdafærslu, eru vissulega til aðrar leiðir en sú sem hér er til umr. Ég er reiðubúinn að útskýra það, bæði við meðferð málsins í nefnd og annarri meðferð sem till. kynni að fá hér á Alþingi.

Ég vil ítreka það, sem ég sagði hér áðan, að ég vona í fullri einlægni að þeir menn, sem í nútíð og framtíð kunna að bera ábyrgð á ákvarðanatöku í þessum efnum, en eru andstæðingar mínir í grundvallaratriðum í þessu máli, beri gæfu til að staðsetja þannig þá aðstöðuaukningu og önnur mannvirki, sem Bandaríkin kunna að fá hér á landi, að hættan á að lífi hundraða og þúsunda Íslendinga yrði um leið tortímt, ef til minnstu átaka kæmi milli stórveldanna, yrði að engu gerð. Sú staðsetning, sem hér er lögð til á þessum olíugeymum, jafnvel sú sérkennilega þversögn: flutningur þeirra frá Hvalfirði, sem er ekki í eins mikilli nánd við byggð, yfir á þetta svæði hér, eykur verulega líkurnar á því, að hundruðum og jafnvel þúsundum Íslendinga yrði fórnað ef til átaka kæmi. Þessar eldsneytisbirgðastöðvar sem og aðrar eldsneytisbirgðastöðvar yrðu meðal fyrstu skotmarkanna. Er þeim yrði eytt væri um leið búið að gera flugflota Bandaríkjamanna hér nánast óvirkan.

Með því að flytja geymarýmið frá Hvalfirði í nágrenni Keflavíkurkaupstaðar er beinlínis verið að stórauka tortímingarhættu þjóðarinnar ef til átaka kemur. Það átti ég við áðan þegar ég sagði að það væri verið að breyta mengunarvanda m. a. yfir í annars konar, en miklu alvarlegri vanda. Ég skal ekkert ræða um ástæður forstjóra Olíufélagsins fyrir þeim tillögum og hugmyndum sem hann hefur lagt fram, en út frá þeim röksemdafærslum, sem ég hef hér rakið, finnst mér að menn þurfi einnig að skoða þetta atriði.

Þetta mál, hið svokallaða Helguvíkurmál, er í mínum huga miklu flóknara en eingöngu spurningin um hvernig menn leysa mengunarvarnir íbúanna á Suðurnesjum. Ef hins vegar hér eru á Alþingi þm. sem eru reiðubúnir að ganga til samstarfs við okkur Alþb.-menn um að þetta mál eigi eingöngu að fela í sér lausn þessa mengunarvanda, en ekki um leið aukningu á hernaðaraðstöðu Bandaríkjanna á Íslandi, stendur ekki á okkur að ganga til slíks samstarfs. (Gripið fram í.) Ég sagði það áðan, hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, að það væru ýmsar aðrar leiðir sem kæmu til greina í þeim efnum. Þær er erfitt að útskýra án þess að hafa nauðsynleg gögn og kort við höndina, en ég er reiðubúinn að gera það, bæði fyrir hv. þm. og samflokksmenn hans og aðra þm., ef eftir því verður leitað. (ÓÞÞ: Hvaða gögn eru það?)

Ég vil að lokum ítreka það, sem ég hef sagt í ræðu minni og mun e. t. v. gera síðar að umræðuefni þegar skýrsla hæstv. utanrrh. verður hér tekin til umr., að mér finnst alveg nauðsynlegt að íslensk stjórnvöld og íslenskir stjórnmálaflokkar geri sér skýra grein fyrir því, hvað hefur verið að gerast hér á Íslandi á undanförnum árum, eftir að þær ákvarðanir, sem ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar tók, voru framkvæmdar — ég tala nú ekki um ef fallist verður á allar þær tillögur sem hér liggja fyrir. Úr því að hv. þm. Geir Hallgrímsson, sem að vísu er fjarverandi fór að gera þessa ferð utanrmn. að umræðuefni, geri ég það einnig, og það, sem sló mig mest í þeirri ferð, var hve samnefndarmenn mínir, fyrrv. forsrh. og einnig fyrrv. utanrrh., vissu lítið um það sem fyrir augu bar.