05.11.1980
Neðri deild: 12. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í B-deild Alþingistíðinda. (348)

47. mál, niðurfelling á opinberum gjöldum barna 1980

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Þrír hv. ræðumenn, þar af einn hæstv. ráðh., þ.e. fjmrh., hv. 9. þm. Reykv., Vilmundur Gylfason, og hv. 3. þm. Austurl., Halldór Ásgrímsson, hafa allir staðið hér upp til að verja þá skattlagningu á börn sem hér er til umr. Þeir hafa hins vegar allir gripið á því, sem þeir hafa talið vera kjarna þessa máls og ég er þeim sammála um, en það er að ákvörðun um að skattleggja börn sérstaklega var tengd ákvörðun um staðgreiðslukerfi skatta. Ég er sammála þeim um það og ég vil taka sterkara til orða: Þessi ákvörðun var órjúfanlega tengd þeirri ákvörðun.

Alþ. stóð hins vegar frammi fyrir því á s.l. vetri, að ljóst var að staðgreiðslukerfi skatta mundi ekki komast á við skattlagningu þessa árs. Þess vegna var gripið til þess að breyta skattalögum og var það gert í tveimur áföngum, þ.e. í febr. á þessu ári og svo aftur í maí í vor. Þessar breytingar voru gerðar í miklum flýti. Við þm. munum t.d. vel eftir því, hvernig það gerðist að skattalögum var breytt í maí fyrr á árinu. Hæstv. fjmrh. var þá í mestu vandræðum með það mál. Hann lagði fram hverja till. á fætur annarri hér á Alþ. og dró þær jafnharðan til baka. Öll sú breyting einkenndist af miklu ráðaleysi, svo ekki sé meira sagt.

Þegar ég frétti um þessa skattseðla barna vildi ég veita hæstv. fjmrh. þá afsökun í mínum huga, að þessi ákvörðun um skattlagningu barna og að þeim ákvæðum skyldi ekki hafa verið breytt ásamt öðrum atriðum í fyrravetur hefði hreinlega verið mistök, það hefði verið gleymska, og ég skal fúslega játa við afgreiðslu þessa máls í fyrravetur kom þetta atriði ekki upp í huga minn. Ég taldi þetta mistök þegar fregn barst ekki alls fyrir löngu um að skattseðlar barna væru farnir að berast. Ég hélt þess vegna að hæstv. fjmrh. mundi fagna till. eins og hér hefur komið fram um að leiðrétta þau mistök sem hér hafa átt sér stað. En það er nú eitthvað annað. Hæstv. ráðh. flytur hér ásökunarræðu á hendur 1. flm. þessa frv. og ásakar hann fyrir að hann skuli ekki hafa tekið þetta mál upp fyrr á Alþ. og þá sérstaklega í fyrravetur.

Hæstv. fjmrh. viðurkennir líka að hér hafi verið um mistök að ræða. Hann sagði fullum fetum að það hefði verið um mistök að ræða að þessi álagning skyldi ekki fara fram fyrr og að álagningin skyldi nú fyrst eiga sér stað. Þessi álagning er ákaflega erfið, eins og hún hefur verið framkvæmd á þessu ári, fyrir þá sem lagt er á. Hér er um að ræða börn og unglinga undir 16 ára aldri. Samkv. lögum landsins á allt þetta unga fólk að vera í skólum. Hér er því fyrst og fremst um að ræða álagningu á sumartekjur þessara barna, — sumartekjur sem í mörgum tilfellum hefur þegar verið ráðstafað til kaupa á skólagögnum, til kaupa á fatnaði og öðru því sem skólabörn þurfa á að halda til skólagöngu sinnar. Þess vegna er það rétt sem hæstv. fjmrh. sagði, að það eru mistök að þessi álagning skyldi ekki hafa átt sér stað fyrr en nú. Slík mistök verður að leiðrétta. Fjmrh. hefur viðurkennt þessi mistök, en hann á að ganga lengra. Hann á að taka undir þetta frv. með flm. þess og taka á málum af manndómi og fella þá álagningu niður, sem hér hefur átt sér stað, með því að samþykkja þetta lagafrv.

Ég vek sérstaklega athygli á því, að það hlýtur að vera með vilja gert hjá hv. flm., að þetta frv. er þannig orðað að gert er ráð fyrir að álagning þessa árs verði dregin til baka. Þetta frv. gengur ekki lengra. Ástæðan er vafalaust sú, að við vitum að það þurfa að eiga sér stað margvíslegar breytingar á skattalögum á Alþ. í vetur í samræmi við reynsluna sem þegar er orðin af þeim lögum sem sett voru 1978 og svo í fyrra. Þess vegna gefst þm. gott ráðrúm í vetur til að kanna ítarlega hvort halda eigi áfram þeirri álagningarreglu á börn sem nú er í gildi. En ófært er að leggja á jafnseint og nú hefur gerst. Það eru mistök sem Alþ. verður að leiðrétta. Hæstv. fjmrh. á að taka slíku frv. fegins hendi og taka höndum saman við flm. frv. um að hér eigi sér stað leiðrétting.