06.04.1981
Efri deild: 71. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3428 í B-deild Alþingistíðinda. (3483)

283. mál, lagning sjálfvirks síma

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv til l. á þskj. 578 um lagningu sjálfvirks síma. Í grg. með þessu frv. koma fram ýmsar gagnlegar upplýsingar, m. a. að símnotendur á landinu, sem ekki hafa sjálfvirkan síma, eru u. þ. b. 3200. Einnig fylgir tafla sem upplýsir hvernig þeir skiptast á 88 sveitarfélög á landinu. Einnig fylgir með frv. áætlaður kostnaður við lagningu sjálfvirks síma í hverju sveitarfélagi og er hann aðgreindur bæði í heildarkostnað, kostnað við efni, kostnað vegna vinnulauna, vélaleigu og þess háttar og loks aðflutningsgjöld. Kemur þar fram að áætlað er að heildarkostnaðurinn verði um 135.7 millj. kr. Þessu fylgir nokkur sparnaður sem er áætlaður 8.5 millj. kr.

Með frv. þessu er í fyrsta lagi ætlað að veita lagningu sjálfvirks síma forgang í framkvæmd hjá Póst- og símamálastofnun, og má segja að það sé megintilgangur þess. Samkv. frv. er gert ráð fyrir að gera þetta á fimm árum. Þá er það mikilvægt atriði í frv., að gert er ráð fyrir því, eins og fram kemur í 2. gr., að undanþiggja búnað til lagningar og uppsetningar sjálfvirks síma samkv. þeirri áætlun, sem gera á samkv. 1. gr., aðflutningsgjöldum og söluskatti við innflutning. Með þessu móti er niðurfelldur kostnaður að upphæð 43.7 millj. kr.

Til þess að mæta því, sem eftir er, rúmlega 90 millj. kr., er jafnframt í 3 gr. heimild til lántöku allt að 20 millj. kr. á ári. Að sjálfsögðu er ekki notað meira en þörf er hverju sinni. Einnig er fram tekið að lántökuheimild þessi breytist til samræmis við breytingar á byggingarvísitölu.

Ef frv. þetta verður samþykkt er gert ráð fyrir að semja í sumar áætlun samkv. frv. og yrði hún lögð fram með tillögum stofnunarinnar fyrir meðferð fjárlagafrv. á hausti komanda.

Ég þarf út af fyrir sig ekki að fara mörgum orðum um þetta mál. Ég hygg að allir hv. þm. geri sér grein fyrir mikilvægi hins sjálfvirka síma og þeirri áherslu, sem þeir íbúar þessa lands sem ekki hafa nú slíkan síma, leggja á að fá hann. Má segja að hvaðanæva að af landinu berist kröfur um slíkt og mjög háværar. Þetta er eðlilegt þegar þess er gætt, að ýmis öryggisþjónusta, læknisþjónusta og þess háttar, hefur færst fjær íbúunum, færst á heilsugæslustöðvar sem oft liggja nokkuð langt frá og erfitt að ná til í neyðartilfellum þegar sími er lokaður eftir tiltölulega stuttan opnunartíma. Einnig færist það meira og meira í vöxt að aðföng eru pöntuð símleiðis og send.

Þannig eru ýmsar mikilvægar ástæður fyrir þeim mjög svo mikla þrýstingi sem hefur verið og er á því að fá sjálfvirkan síma. Hann kemur m. a. fram í því, að menn bjóðast til að leggja fram verulega vinnu fyrst og fremst og jafnvel lána fé ef hraða megi slíkum framkvæmdum. Það hefur og aukið á nauðsyn hins sjálfvirka síma að viðhald Pósts og síma á loftlínum hefur verið og er langt frá því að vera fullnægjandi. Fyrst og fremst stafar þetta af tvennu: í fyrsta lagi, að fjármagn Pósts og síma til viðhalds hefur verið skert verulega, og í öðru lagi, að áætlanir Pósts og síma um að koma síma í jörð hafa ekki staðist vegna takmarkaðra fjárveitinga. Eðlilega hefur því viðhaldi á loftlinum oft verið frestað og dregið þegar von hefur verið talin að koma línum í jörðu.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að flytja um þetta lengra mál. Ég vek athygli á því, að svipað frv. var lagt fram á þingi fyrir þremur árum. Er það dálítið breytt nú, en sama markmið. Ég veit að hv. þm. hafa haft tíma til að kynna sér þessi mál og þekkja þau.

Læt ég nú lokið þessari stuttu framsögu, en legg að þessari umr. lokinni til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.