06.04.1981
Efri deild: 71. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3430 í B-deild Alþingistíðinda. (3488)

288. mál, Landakaupasjóður kaupstaða og kauptúna

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um landakaupasjóð kaupstaða og kauptúna. Hér er um að ræða endurskoðun á lögunum um landakaup kaupstaða og kauptúna frá 1963, sérstaklega tekjustofnaákvæðum þeirra laga, en 20. nóv. s. l. skipaði félmrh. nefnd til að endurskoða tekjustofnaákvæði laganna. Í nefndinni voru Gunnar Eydal, Jóhann Einvarðsson og Valdimar Indriðason, en Magnús E. Guðjónsson starfaði með henni. Nefndin skilaði samhljóða áliti.

Meginbreytingin með frv. er sú að auka ráðstöfunarfé til Landakaupasjóðs kaupstaða og kauptúna. Gildandi lög veita ekki lántökuheimild, heldur er þar einungis gert ráð fyrir að ríkissjóður leggi fram árlega 10 millj. kr. sem heimilt verði að lána kaupstöðum og kauptúnum. Þetta framlag er auðvitað allsendis ófullnægjandi og frv. gerir ráð fyrir að það verði heimilt að taka lán í þessu skyni sem síðan yrði endurlánað sveitarfélögunum eftir þar til settum reglum. Kjör á útlánum skulu vera í samræmi við útlánskjör fjárfestingarlánasjóða á hverjum tíma og kjör á lánum sem sjóðurinn tekur vegna starfsemi sinnar. Síðan segir í 7. gr.: „Heimilt er ríkisstj. að taka lán vegna sjóðsins svo hann geti gegnt hlutverki sínu samkv. 1. gr.

Í 11. gr. er sett inn eignarnámsheimild í tengslum við þessi lög í samræmi við 6. gr. laga nr. 41 frá 1963. Þótti rétt að hafa þetta ákvæði í þessu frv. til þess að gæta samræmis við lög frá 1963 þrátt fyrir eignarnámsákvæði skipulagslaga.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða um efni þessa frv. Ég leyfi mér að leggja til að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. félmn.