06.04.1981
Efri deild: 71. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3431 í B-deild Alþingistíðinda. (3489)

288. mál, Landakaupasjóður kaupstaða og kauptúna

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa því yfir fyrst, að að mörgu leyti er þetta hið besta mál. Ég vil þó víkja örfáum orðum að því eða jafnvel spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort fram hafi komið í umfjöllun nefndarinnar að eðlilegt væri að ráðstöfunarfé sjóðsins nái til strjálbýlishreppa eða strjálbýlissveitarfélaga sem og kaupstaða og kauptúna. Nú vil ég ekki draga úr því, að þörf kauptúna og kaupstaða fyrir fjármagn til að standa í landakaupum er allmikil, hefur verið það og mun verða á næstu árum, en í mörgum tilfellum er ekki síður þörf sveitarfélaga í strjálbýli fyrir fjármagn til að kaupa land. Gæti hæstv. ráðh. svarað því í stuttu máli?

Í annan stað dettur mér í hug að það geti e. t. v. komið til togstreitu í sambandi við þetta frv. eða ákvörðun um það, hvort veita skuli fé úr þessum sjóði. Gert er ráð fyrir því að sjálfsögðu, að sveitarfélögin sem ji við landeiganda um verð. Nú getur svo farið að það verði samkomulag milli þessara tveggja aðila, en rn. vilji ekki samþykkja þá ráðagerð eða verðið og synji um lán. Verður þá að fara fram eignarnám til þess að lánað verði?

Ég vildi að ráðh. viki að þessu. Að öðru leyti sýnist mér þetta hið ágætasta mál, en ég hefði, eins og ég áður sagði, kosið að frv. næði til strjálbýlishreppa.