06.04.1981
Efri deild: 71. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3431 í B-deild Alþingistíðinda. (3490)

288. mál, Landakaupasjóður kaupstaða og kauptúna

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Varðandi þær fsp., sem hv. 3. þm. Vesturl. hefur hér borið fram, er það að segja í fyrsta lagi, að það er í landbrn. sérstakur sjóður sem notaður er til að styðja sveitahreppa við kaup á jörðum. Það var engin afstaða tekin til þess við meðferð þessa máls, hvort þessa sjóði ætti að sameina. Nefndin fékk ekki það hlutverk að gera slíkt og þess vegna lagði hún enga tillögu fyrir um það efni.

Mér finnst þetta vera þannig lagað mál, að það sé sjálfsagt að hv. félmn. athugi þessa hlið málsins og þessa hugmynd hv. þm. Mér finnst það ekkert fráleitt að þetta verði skoðað í samhengi, en ég legg á það nokkra áherslu að þetta mál fái afgreiðslu þannig að Landakaupasjóður kaupstaða og kauptúnaverði einhvers megnugur hið fyrsta.

Ég skildi hv. þm. þannig, að hann spyrði um álit mitt á því, hvað gerðist ef upp kæmi ágreiningur rn. annars vegar og sveitarfélags og landeigenda hins vegar. Ég lít þannig til, að í slíkum tilvikum eigi rn. að hafa samband og samráð við Samband ísl. sveitarfélaga. En einnig þetta atriði finnst mér vel koma til greina, að nefndin skoði og skjóti þá jafnvel inn ákvæði um hvernig með skuli fara ef ágreiningsefni af þessu tagi koma upp.