06.04.1981
Efri deild: 71. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3431 í B-deild Alþingistíðinda. (3491)

288. mál, Landakaupasjóður kaupstaða og kauptúna

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Mér sýnist svo sem með þessu frv. sé stefnt í rétta átt, en vildi þó við þessa umr. ekki láta hjá líða að minna á annað frv., sem er í meðförum þessarar deildar og er nú í nefnd og verður vonandi fljótlega afgreitt þaðan, sem er um breytingu á lögum um framkvæmd eignarnáms í þá veru, að þegar mat fer fram við eignarnám verði ekki tekið tillit til hins aukna verðmætis sem land hlýtur vegna skipulagsaðgerða, vegna þess að það gæti orðið dýrmætt undir byggingarlóðir eða yfirleitt vegna aðgerða sem landeigandi hefur sjálfur ekkert haft með að gera, verðmætisaukningar sem er eingöngu til komin vegna aðgerða samfélagsins og er ekki á neinn hátt á vegum eða að þakka eiganda þess lands sem þar um ræðir.

Ég held, að það sé ákaflega brýnt að það mál hljóti afgreiðslu, og lýsi jafnframt stuðningi við frv. sem hér er nú til umr.