06.04.1981
Efri deild: 72. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3436 í B-deild Alþingistíðinda. (3497)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Frsm. 2. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Mér er ljúft og skylt að taka undir orð formanns hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar um vinnubrögð í nefndinni að því er varðar undirbúning að afgreiðslu þessa máls. Það hefur að mörgu leyti verið vel að þeirri vinnu staðið. Því miður verð ég að koma að því síðar í þessari yfirgripsmiklu og ítarlegu ræðu, sem ég flyt um þetta mál í þann hóp góðmenna sem hér er, en ekki er að sama skapi mikið fjölmenni, að sama verður ekki sagt um hæstv. ríkisstj., þ. e. að hún hafi vel að þessu máli staðið. — En ég vil taka undir orð formanns fjh.- og viðskn., að það er hin mesta nauðsyn að fjh.- og viðskn. beggja deilda Alþingis skoði betur frv. til lánsfjárlaga sjálfstætt, eins og raunar hefur verið reynt að gera núna. Þrátt fyrir það hefur margt skort á að slíkt væri í rauninni hægt á eðlilegan hátt og ekki síst að svonefnd fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ríkisstj. hefur ekki legið fyrir fyrr en fyrir nokkrum dögum þrátt fyrir að hún hefði átt að liggja frammi þegar fjárlagafrv. var lagt fram, eins og lög mæla fyrir.

Í þessu frv. til lánsfjárlaga og þeirri skýrslu um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, sem fylgir frv., kemur fram á hliðstæðan hátt og í gildandi fjárlögum að núv. ríkisstj. fylgir sem fyrr ómengaðri vinstri stefnu í ríkisfjármálum, lána- og fjárfestingarmálum og öðrum þáttum efnahagsmála. Hvergi er slakað á þenslu ríkisútgjalda, skattheimtu, lántökum til hins opinbera né þrúgandi ríkisafskiptum og miðstýringu sem leitt hafa til stöðnunar þjóðarframleiðslu, óðaverðbólgu, versnandi lífskjara og hættu á atvinnuleysi.

Brbl. ríkisstj. á gamlársdag um viðnám gegn verðbólgu breyttu engu í grundvallaratriðum um þessa meginstefnu. Með skerðingu á verðbótum kaups og bóta almannatrygginga tókst að vísu að draga úr því verðbólguflóði, sem ríkisstj. sjálf átti mestan þátt í að efna til á síðari hluta árs í fyrra, og kippa til baka grunnkaupshækkunum launþega. Þannig er verðbólgu á þessu ári spáð hliðstæðri og þeirri sem spáð var í fyrra um þetta leyti, ef ríkisstj. héldi að sér höndum og hefðist ekki að í efnahagsmálum.

Næsta haust, þegar kemur að gerð nýrra kjarasamninga, verður að óbreyttri stefnu í efnahagsmálum við nákvæmlega sama vanda að glíma og í fyrrahaust, þ. e. um og yfir 50% verðbólgu, kaupmáttarrýrnun um 56% frá síðasta ársfjórðungi 1980 þrátt fyrir grunnkaupshækkun í fyrra og að öllum líkindum að auki samdrátt í atvinnulífi og atvinnuleysi. Þetta er þeim mun hörmulegra þar sem sýnt er að viðskiptakjör muni ekki versna sem neinu nemur á þessu ári í samanburði við verulega rýrnun á árunum 1979 og 1980.

Þær forsendur, sem þetta frv. til lánsfjárlaga er byggt á, eru m. a. að verðbólgan verði að meðaltali milli áranna 1980 og 1981 42%. Þessi forsenda er auðvitað gjörsamlega brostin og sama gildir um sömu verðforsendu fjárlaga. Í fyrra reyndist verðbólgan um 60% frá ársbyrjun til ársloka, og jafnvel þótt verðbólga verði um 40% á yfirstandandi ári, sem engar líkur eru þó á, verður meðaltal verðbólgu milli áranna 1980 og 1981 miklu hærra en 42%. Þetta er viðurkennt beinum orðum í skýrslu ríkisstj. um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir 1981. Þar segir svo, orðrétt með leyfi hæstv. forseta: „Þótt takist að koma verðlagshækkunum niður undir 40% á árinu 1981 verður meðalhækkun milli áranna 1980 og 1981 nokkru meiri en fjárlög ársins miðast við, 42%.“

Nær sanni mun að verðbólga milli áranna 1980 og 1981 verði að meðaltali ekki minni en 52–55%. Þetta þýðir að lántökur, einkum erlendar, verða meiri en áætlunin gerir ráð fyrir, ef halda á í við framkvæmdamátt, fjárfesting verður meiri en gert er ráð fyrir og að einhverju leyti bitnar þetta á framkvæmdum og kemur fram í niðurskurði að raungildi, svo sem nú er ljóst að verður t. d. í vegamálum. Alla þessa síðbúnu fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, sem þessu frv. er ætlað að staðfesta, þarf því að líta á með ótal fyrirvörum eins og annað sem ríkisstj. lætur frá sér fara um efnahagsmál.

Megineinkenni frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1981 eru þau sömu og lánsfjárlaga s. l. árs, en þau voru fyrstu lánsfjárlög núv. ríkisstj. Þessi megineinkenni eru að því er varðar stýringu lánsfjár og fjárfestingar sem hér segir:

1) Heildarfjárfesting er enn um eða yfir 26% af þjóðarframleiðslu þrátt fyrir áformaðan magnsamdrátt í stórvirkjunum, stóriðju- og hitaveituframkvæmdum.

2) Opinberar framkvæmdir aukast enn að magni til þriðja árið í röð og það er eini meginliður fjármunamyndunar í landinu sem þróast þannig.

3)Stórfelldur samdráttur er fyrirhugaður í fjármunamyndun atvinnuveganna, eða 12.6% að magni til, og fyrirsjáanlegur er samdráttur í íbúðabyggingum þriðja árið í röð.

4) Erlend lánsfjáröflun til opinberra framkvæmda er aukin um rúmlega 1 milljarð nýkr. (100 milljarða gkr.) , eða tæp 105%, og heildarlántaka til opinberra aðila um 85%.

5) Erlendar skuldir í árslok 1980 voru tæplega 6 milljarðar nýkr. miðað við áramótagengi. Áformað er að taka ný erlend lán um 1.5 milljarð nýkr. á árinu. Þetta þýðir 71.4% hækkun erlendra skulda að raungildi í erlendri mynt á fjórum árum.

6) Greiðslubyrði erlendra lána verður á næsta ári 15.7–16.4% af útflutningstekjum og skuldastaðan 36.6 af þjóðarframleiðslu í árslok 1981. Greiðslubyrði í prósentum af útflutningstekjum var til samanburðar árið 1977 13.7% og skuldastaðan 31.6% af þjóðarframleiðslu. — Þannig hefur sigið á ógæfuhliðina að þessu leyti um nærri 5%. Skuldastaðan hefur versnað um nærri 5% af þjóðarframleiðslu á þessu tímabili.

7) Haldið er áfram niðurskurði á framlögum ríkissjóðs af samtímaskatttekjum til framkvæmda eins og gert hefur verið síðustu ár, en lána aflað að hluta til þess að halda uppi framkvæmdum. Þetta er í raun nýtt form á hallarekstri ríkissjóðs.

Í skýrslu ríkisstj. um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1981 er samkv. lögum byggt á nýjustu spá Þjóðhagstofnunar um framvindu efnahagsmála á árinu. Ýmis gögn hafa einnig komið fram í þingnefndum um þjóðhagshorfur og ekki úr vegi að gera örstutta grein fyrir nokkrum þáttum efnahagsmála á árinu eins og þeim er spáð í framangreindum gögnum.

Fyrst vil ég þá víkja að verðbólgunni. Það vekur athygli að sáralítið er fjallað um horfur um verðbólguþróun á þessu ári í skýrslunni um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ríkisstj., sem er gagnstætt venju. Þó er viðurkennt berum orðum, eins og ég sagði áðan, að forsendur áætlunarinnar um 42% verðbreytingu á milli ára 1980 og 1981 séu lægri en gera má ráð fyrir.

Þjóðhagsstofnun gaf út spá sem m. a. fól í sér mat á verðbólguþróun á árinu 1981, dags. 5. janúar s. l., þ. e. eftir útgáfu brbl. Í þessari spá er gert ráð fyrir að um 50% verðbólga verði á árinu 1981 frá ársbyrjun. Þetta er svo til nákvæmlega eins spá og Þjóðhagsstofnun gaf út um verðlagsþróun á árinu 1980 hinn 22. apríl það ár eða skömmu eftir að núv. ríkisstj. tók við völdum. Í forsendum þeirrar spár fyrir verðþróun 1980 segir orðrétt: „Í framangreindum spám er ekki gert ráð fyrir nýjum ráðstöfunum á sviði verðlagsmála sem fram kynnu að koma á næstunni“.Verðbólguvexti var með öðrum orðum spáð um og yfir 50% á árinu 1980 ef ríkisstj. gerði hvorki gott né illt í verðbólgumálum.

Það er einkar fróðlegt að bera saman þessa spá Þjóðhagsstofnunar um verðbólgu á árinu 1980 og spána frá 5. jan. um verðbólgu á þessu ári. Sá samanburður lítur þannig út:

Hinn 1. júní 1980 átti verðbólgan að aukast um 11–11.5%. 1. júní í ár á hún að hækka um 10–11%. 1. sept. í fyrra átti verðbólgan samkv. þeirri spá að hækka um 9%. Nú á hún að hækka um 9%. 1. nóv. í fyrra átti verðbólgan að hækka um 10%. Nú á hún að hækka, samkv. nýrri spá Þjóðhagsstofnunar, um 11%.

Þessar spár eru nánast því eins. Báðar eru byggðar á óheftum framgangi víxlhækkana verðlags, búvöruverðs, fiskverðs, launa o. s. frv. og óbreyttri stefnu í efnahagsmálum. En hefur þá ekkert gerst? Á síðustu mánuðum ársins 1980 var samið um grunnkaupshækkanir sem ríkisstj. taldi ekki verðbólguhvetjandi. Ríkisstj. rauf þá stíflu sem hleypti fram miklu verðhækkunarflóði þannig að verðbólgan varð tæp 60% á árinu 1980 og stefndi í 70% á árinu 1981. Síðan hefur náðst sá „umtalsverði árangur“ að kippa þeim grunnkaupshækkunum til baka, sem samið var um í lengstu kjarasamningum sem staðið hafa á síðustu árum hér á landi, og eyða áhrifum verðhækkunarflóðs ríkisstj. með brbl. „góðu“ sem skertu verðbætur á kaup um 7% og einnig allar tegundir tryggingarbóta almannatrygginga. Niðurstaðan er samt sú, að áfram er hjakkað í sama verðbólgufarinu og í fyrra svo sem greinilega sést á framangreindum tölum um líklega þróun á árinu í samanburði við spár á s. l. ári.

Ég get upplýst það hér, að ég hef æ ofan í æ haft samband við sérfræðinga Þjóðhagsstofnunar um þá spá, sem þeir gerðu í janúar, og þeir segja að þeir haldi sig enn við þá spá og sjái ekkert sem breyti þeim niðurstöðum sem þeir komust að, m. a. að framfærsluvísitalan muni hækka um 10–11% 1. júní. Það er því mjög fróðlegt að fylgjast með þeim umræðum, sem nú fara fram um þessi mál, og heyra hvað hæstv. forsrh. sagði í Sþ. í dag um þetta efni, en þá held ég að ég fari rétt með að hann hafi fullyrt að Þjóðhagsstofnun spáði 40% verðbólgu frá ársbyrjun til ársloka á þessu ári. Það er einfaldlega ekki rétt. Eins og horfir nú spáir Þjóðhagsstofnun 50% verðbólgu frá ársbyrjun til ársloka.

Það er líka athyglisvert að fylgjast með þeim umræðum sem fram hafa farið núna á þingi Framsfl. um þessi mál. Framsfl. má eiga það, að hann leggur áherslu á það og forustumenn hans að gera þurfi eitthvað meira í viðnámi gegn verðbólgu á þessu ári en gert hefur verið til þess að hið margfræga mark um 40% náist. Framsfl. er núna kominn að þeirri niðurstöðu að vænlegast sé að grípa til þess ráðs að lækka óbeina skatta, vörugjald og söluskatt, þannig að verðbólgan verði innan við 8% hinn 1. júní n. k. Ég sagði við formann Framsfl. í dag að ég hefði ekki í annan tíma orðið eins hissa — og hef ég þó oft orðið mjög hissa eftir að ég fór að taka þátt í pólitík — og þegar hann lagði þessar tillögur fram á þingi Framsfl. nokkrum dögum eftir að gervallur Framsfl. á Alþingi hafði fellt þessar till. fyrir okkur sjálfstæðismönnum. Við fluttum brtt. í þessari hv. deild um lækkun vörugjalds og söluskatts sem hefði numið um 2% í vísitölu 1. júní. Það er nokkuð nálægt því að þá hefði vísitalan orðið 8%, miðað við það sem Þjóðhagsstofnun spáir nú, en hún spáir, eins og ég sagði, 10–11% eins og hún gerði í jan. Ég hafði samband í dag við Þjóðhagsstofnun og hún staðfesti að þessi spá væri enn í fullu gildi, eins og jafnan hefur komið fram í þeim þingnefndum þar sem þetta mál hefur borið á góma. En það þýðir 50% verðbólgu á þessu ári.

Það má kannske bæta því við til upplýsinga fyrir hv. deild og af því að hæstv. ráðherrar eru nú komnir hér, að þótt þessi margfræga framfærsluvísitala hækkaði um 8% 1. maí og 1. júní og sama K-vísitala 1. júní, þá yrði verðbólgan á þessu ári, miðað við að ekkert væri meira að gert en koma vísitölunni niður í þessi 8%, á milli 47–48% á þessu ári frá ársbyrjun til ársloka. Betur má því ef duga skal, hæstv. ráðherrar, í glímu ykkar við þessa margfrægu verðbólgu. — Og ósköp fannst mér þeir undarlegir, útreikningar hæstv. ráðh. í þessum efnum í Sþ. í dag, en hann er náttúrlega, eins og kunnugt er, þekktur fyrir að kunna miklu betur að reikna út þessa vísitölu en aðrir menn.

Þá vil ég víkja að þróun viðskiptakjara og ummælum sem menn hafa haft hér á undanförnum árum um að verðbólga hér á landi væri meira eða minna innflutt, þ. e. að innflutningsverðlag hækki svo ört að það hafi veruleg áhrif á verðbólgu hér.

Á árinu er gert ráð fyrir 1–2% lakari viðskiptakjörum en á s. l. ári. Þá versnuðu þau um 3.5% og mun meira 1979. Þessi áætlun í ár sýnist mjög varfærnisleg og ljóst er að mikil breyting hefur orðið til batnaðar að þessu leyti, einkum vegna styrkingar dollarans. Þá hefur innflutningsverð á föstu gengi ekki hækkað eins og undanfarin ár, eða sem hér segir: 1979 varð 20% hækkun innflutningsverðs á föstu gengi, 1980 varð 13% hækkun og 1981 er aðeins spáð 7–8% hækkun innflutningsverðs. — Fráleitt er með öllu að rökstyðja þá verðbólguþróun, sem hér á landi er, með því að hún sé „innflutt“ að miklu leyti. Þessi hagstæða þróun innflutningsverðlags kemur í engu fram í hjöðnun verðbólgu innanlands á þessum tíma, eins og fyrr er vikið að.

Þá vil ég víkja að kaupmætti launa og þjóðarframleiðslu.

Sú verðbólga, sem ár eftir ár er um og yfir 50%, hefur óhjákvæmilega þær afleiðingar að skekkja verðmætamat, brengla eðlilega fjármunamyndun og lama atvinnuvegina. Þetta kemur m. a. fram í minnkandi þjóðarframleiðslu á mann og versnandi lífskjörum. Aukning þjóðarframleiðslu á mann hefur farið minnkandi sem hér segir:

1977 jókst hún um 5.2%, 1978 um 3.6%, 1979 um 1.3% og 1980 um 1.3% og á þessu ári, þótt viðskiptakjör okkar rýrni mjög lítið, er henni spáð í núlli, þ. e. jafnvel frekar samdrætti í þjóðarframleiðslu á mann en hitt.

Þetta er umhugsunarvert, einkum ef það er haft í huga að botnfiskafli hefur aukist gífurlega hin síðari ár og varð sú aukning m. a. til þess á árinu 1980 að þjóðarframleiðslan óx um 1.5% meira en búist var við. Botnfiskaflinn varð einungis 470 þús. tonn 1978, en tæp 630 þús. tonn 1980, þ. e. 160 þús. tonnum meiri eða 34%. Á sama tíma óx þjóðarframleiðslan sáralítið og stendur í stað hin síðari ár samkv. spá þar um.

Kaupmáttur launa hefur farið ört minnkandi á sama tíma. Kaupmáttur kauptaxta launþega hefur rýrnað sem hér segir samkv. skýrslu forsrh. um þjóðhagsáætlun sem lögð var fyrir Alþingi í haust:

1977 jókst kaupmáttur launa — og þá er verið að tala um taxtakaup — um 11.8%, 1978 óx hann um 7.6%, 1979 rýrnaði hann um 1%,1980 er gert ráð fyrir að hann rýrni um 5%, og á þessu ári er því spáð að kaupmáttur taxtakaups á fjórða ársfjórðungi 1980 til fjórða ársfjórðungs í ár rýrni um 5–6% og að meðaltali rýrni kaupmáttur kauptaxta um 2% á þessu ári þrátt fyrir grunnkaupshækkanir á s. l. ári.

Þetta er uppskera sem einhvern tíma hefði ekki verið talin stjórnvöldum til hróss og varla ef Alþb. hefði verið í stjórnarandstöðu — eða hvað segir hæstv. ráðh. Ragnar Arnalds um það?

Samkvæmt lánsfjáráætlun fyrir árið 1981 og brtt. meiri hl. fjh.- og viðskn. við frv. er stefnt að lántökum til opinberra framkvæmda á árinu sem nema 1357 millj. nýkr. Þessi fjárhæð nam samkv. lánsfjárlögunum 1980 734.3 millj. Hækkunin nemur því tæplega 85%. Af þessari lánsfjárhæð er ætlunin að afla 338.1 millj. á innlendum lánsfjármarkaði, sem er 43.7% hækkun frá því í fyrra, og 1019.4 millj. í erlendum lánum, sem er 104.7% hækkun frá lánsfjárlögum 1980. Erlendar lántökur til opinberra framkvæmda hafa þrefaldast í krónutölu samkv. lánsfjárlögum 1981 miðað við lántökur á árinu 1979. Þær námu þá sem svarar 301 millj. nýkr.

Framkvæmdir og ýmis útgjöld hins opinbera eru í stórvaxandi mæli fjármögnuð með lánsfé, einkum erlendum lántökum. Þetta er uggvænleg stefna, einkum ef það er haft í huga að skattar hafa verið hækkaðir gífurlega að raungildi frá og með árinu 1979, auk þess sem niðurskurður ýmissa fjárframlaga ríkissjóðs, m. a. til atvinnuveganna, hefur ekki komið fram í skattalækkun, heldur þvert á móti í aukinni eyðslu ríkissjóðs á öðrum sviðum. Þessi þróun kemur einnig mjög glöggt fram í skýrslunni um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1981. Þar er að finna (á bls. 28) töflu yfir hlutfall lánsfjár í fjármunamyndun. Heildarframkvæmdir hins opinbera eru samkv. þessari heimild fjármagnaðar með lánsfé sem hér segir:

1978 eru þær fjármagnaðar með 57.1% lánsfé, 1980 62.4% lánsfé og 1981 70.1% lánsfé.

Auknar lántökur til opinberra framkvæmda eru oft rökstuddar með þörf á auknum framkvæmdum á sviði orkumála. Engum blandast hugur um að virkjun vatns- og hitaorku í stórum stíl er grundvallarskilyrði efnahagslegra framfara í landinu og aukins atvinnuöryggis og efnalegs sjálfstæðis. Því miður nær þessi skýring skammt á þreföldun lántaka erlendis til opinberra framkvæmda á tveimur árum. Magnaukning framkvæmda á sviði virkjana og hitaveitna hefur vissulega orðið nokkur á árunum 1979–1980, en á yfirstandandi ári er spáð samdrætti í framkvæmdum á þessum sviðum.

Samkv. skýrslum um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1981 breytist magn framkvæmda á sviði virkjana, stóriðju, hita- og vatnsveitna sem hér segir:

Framkvæmdir við Þjórsárvirkjanir, Kröfluvirkjun, álver og járnblendi eru taldar dragast saman að magni til 4.2% og framkvæmdir við hita- og vatnsveitur um 3.9% að magni til samkv. skýrslunni, hitaveitur nokkru meira en vatnsveitur þannig að framkvæmdir við hitaveitur dragast saman um 4.2% að magni til.

Ekki fer á milli mála að skýringanna á síauknum lántökum til opinberra framkvæmda er síður en svo einvörðungu að leita í auknum orkuframkvæmdum, heldur er ekki síður um að kenna þeirra vinstri stefnu í ríkisfjármálum að þenja eyðsluútgjöld ríkissjóðs umfram skattahækkanir. Fangaráðið verður þá m. a. að skerða framlög ríkissjóðs af skatttekjum til framkvæmda, en taka lán í staðinn. Sjónarspilið þarf að hafa sinn gang.

Mikilvæg og uggvænleg skýring á aukinni lánsfjárþörf til opinberra framkvæmda, sem hefur aukist úr 57.1% af heildarfjárfestingu árið 1979 í rúm 70% árið 1981 samkv. lánsfjáráætlun, er enn fremur sú, að ein bestu og arðbærustu fyrirtæki landsmanna — orkuvinnslufyrirtækin — eru knúin til að selja vörur sínar undir kostnaðarverði og hafa því þeim mun minna úr að spila til að standa sjálf undir eðlilegum hluta af framkvæmdakostnaði nýrra orkuvera. Dæmi um þetta er verðlagning á orku Hitaveitu Reykjavíkur og Landsvirkjunar, en þessi fyrirtæki hafa nú fyrir bragðið miklu minna fjármagn til arðbærra framkvæmda en eðlilegt er.

Sú vinstri stefna í ríkisfjármálum að auka eyðsluútgjöld ríkissjóðs umfram skattahækkanir , minnka framlög ríkissjóðs til framkvæmda, en taka heldur lán til þess að sýnast í bili og láta framtíðinni eftir að borga, kemur glöggt fram í framkvæmdum á sviði vegamála. Frá 1979 hafa bensínskattar í ríkissjóð hækkað að raungildi um 35%. Framlög af þessum skatttekjum til vegamála hafa heldur lækkað en hitt, en lántökur tvöfaldast að meðaltali 1980 og 1981 miðað við árið 1979. Nýbyggingar vega og brúa hafa þó ekki aukist að magni til ef tekið er meðaltal framkvæmda þrjú árin 1979–1981 og borið saman við meðaltal framkvæmda á ríkisstjórnarárum Geirs Hallgrímssonar.

Skólabókardæmið er því þetta: Ekkert af 35% hækkun skatta á bensín fer til vegaframkvæmda. Lán eru slegin og þyngja verður skattana eftir nokkur ár til þessa að borga lánin sem þó nægja einungis til þess að hjakka í sama farinu með magn vegaframkvæmda ef lítið er til síðustu þriggja ára. Vegaframkvæmdir eru þó arðbærasta fjárfesting næst orkumálum sem unnt er að verja til opinberu fé. Ljóst er að til slíkra framkvæmda er réttlætanlegt að taka lán, en betur væri allur almenningur settur ef sú gífurlega hækkun skatta á bensín, sem orðið hefur síðustu árin, væri til ráðstöfunar til vegaframkvæmda og afborgana af vegagerðarlánum í stað þess að þessir fjármunir fara í eyðsluhít ríkissjóðs.

Það vekur athygli að lántökur til A- og B-hluta ríkissjóðs hækka meira en heildarlántaka til opinberra framkvæmda eða um 91.8% í samanburði við 84.8% til allra opinberra þarfa, en það gefur enn til kynna að hér er verið að slá víxla á framtíðina og reka ríkissjóð með auknum lántökum og raunverulegum halla.

Í fyrra var stefnt að þreföldun á lántökum til opinberra framkvæmda á innlendum lánsfjármarkaði til þess að fá fram lækkun erlendrar lántöku á pappírnum. Þetta tókst ekki, enda var hér um algjöra óskhyggju að ræða miðað við ríkjandi aðstæður. Einkum tókst ekki að fá lífeyrissjóði til að kaupa þau verðbréf sem stefnt var að. Í ár er um raunsærri áætlun að þessu leyti að ræða, einkum ef vel tekst til um verðtryggingu innlána, sem ætti í sjálfu sér að auka sparnað í bankakerfinu þótt reynst geti örðugt við ríkjandi aðstæður fyrir atvinnureksturinn að mæta kostnaðarauka þeirrar vaxta- og verðtryggingarstefnu.

Eins og kunnugt er ákvað ríkisstj. að bankar og sparisjóðir skyldu hafa á boðstólum innlánsreikninga sem bundnir væru einungis til sex mánaða og bera fulla verðtryggingu samkv. lánskjaravísitölu og 1% vexti. Sé lítið á þessa ráðstöfun án samhengis við aðra þætti í stefnu ríkisstj. í efnahagsmálum er hún heilbrigð. Hún bætir kjör sparifjáreigenda og ætti að stuðla að aukinni sparifjármyndun. En vafasamt er að tekin hafi verið ákvörðun um meiri hávaxtastefnu í einu stökki og kemur það spánskt fyrir sjónir í öllu tali núverandi stjórnarflokka um nauðsyn lækkunar vaxta hjá atvinnuvegunum.

Atvinnuvegirnir eru í spennitreyju verðlagshafta og falskrar gengisskráningar. Við slíkar aðstæður getur slík lögboðin hávaxtastefna og áframhaldandi verðbólga, sem engin merki eru um að verði minni en 50% á þessu ári, komið mörgum fyrirtækjum í greiðsluþrot og teflt atvinnuöryggi í tvísýnu.

Fyrir skömmu var haldinn svæðisfundur kaupfélaga á Suðurlandi. Þar var samþykkt athyglisverð ályktun þar sem uggur kemur fram einmitt um þetta og „að fjölmörg verslunar- og iðnfyrirtæki í landinu séu komin í þrot“. Ályktun þessi á erindi í umræðu um efnahagsmál á Alþingi um þessar mundir, og einkum ættu stjórnarsinnar — og alveg sérstaklega framsóknarmenn — að lesa hana kvölds og morgna. Skal hún yfir höfð hér í heild, með leyfi hæstv. forseta:

„Svæðisfundur Samvinnuhreyfingarinnar á Suðurlandi, haldinn að Hvoli 21. mars 1981, fagnar þeim efnahagsráðstöfunum sem gerðar hafa verið á þessu ári til þess að draga úr verðbólgu og lækka vexti. Þó telur fundurinn þessar ráðstafanir lítils eða einskis virði nema þeim sé fylgt eftir með öflugum aðgerðum til frekari niðurfærslu verðbólgunnar og vaxtalækkun.

Fundurinn bendir á, að atvinnufyrirtækin geta ekki staðið undir þeim fjármagnskostnaði sem verðbólguvextirnir hafa í för með sér, enda eru fjölmörg verslunar- og iðnfyrirtæki í landinu algjörlega komin í þrot með rekstrarfé og rekstrargrundvöllur brostinn, og þar með er atvinnuöryggi fjölda fólks stefnt í hættu. Fundurinn skorar á ríkisstj., Alþingi og aðra, sem hlut eiga að máli, að taka höndum saman til þess að búa þessum atvinnu- og þjónustufyrirtækjum viðunandi rekstrargrundvöll.“

Ég held, eins og ég sagði áðan, að þessi ályktun eigi fullt erindi í umræður hér á hinu háa Alþingi og hæstv. ríkisstj. mætti taka hana til sérstakrar athugunar miðað við stefnu sína nú.

Samkv. skýrslunni um lánsfjáráætlun 1981 og brtt. meiri hl. fjh.- og viðskn. munu útlán fjárfestingarlánasjóða nema 1023 millj. nýkr., sem er rúmlega 59% hækkun frá því í fyrra. Fjármögnun sjóðanna er með þrennum hætti: 1) eigið fé, 2) framlög úr ríkissjóði og 3) lánsfé. Hluti lánsfjár hefur aukist mjög undanfarin ár. Hann nam 48.2% 1978, 59.7% 1979 og mun nema 67.5% 1981 eða 2/3 af útlánagetu sjóðanna. Þetta er ekki með öllu óeðlileg þróun út af fyrir sig, þar sem útlán eru í vaxandi mæli með sambærilegum kjörum og lán sem sjóðirnir taka. Á hinn bóginn hefur þetta valdið sífelldri raunvaxtahækkun fyrir atvinnuvegina sem hætt er við að geti valdið samdrætti og atvinnuleysi við þær aðstæður sem ríkja á öðrum sviðum í efnahagslífinu, eins og ég vék að áðan.

Athyglisvert er að útlánageta atvinnuvegasjóðanna eykst einungis um 37.7% frá því í fyrra og verður örugglega langt undir verðbólguvexti. Þetta undirstrikar það hrikalega skilningsleysi ríkisstj. í atvinnumálum sem kemur fram í hinum fjölbreytilegustu myndum.

Atvinnumálastefna hæstv. ríkisstj. kemur ekki síst fram í því, hverju sérfræðingar hennar spá um fjármunamyndun atvinnuveganna á yfirstandandi ári. Um það mun ég fjalla síðar í öðru samhengi, en ástæða er til að undirstrika að í gögnum Fiskveiðasjóðs, sem bárust fjh.- og viðskn., er útilokað að gera sér grein fyrir því, hvort eða hvernig ríkisstj. hugsar sér að halda í horfinu með innlendar skipasmíðar þar sem einungis er gert ráð fyrir að lána til~ þeirra skipa sem nú þegar hefur verið samið um smíði á.

Ef vikið er að húsnæðislánasjóðunum og stefnunni í húsnæðismálum kemur fram í þessu frv, að innsigluð er sú stefna í húsnæðismálum sem kom fram í fjárlagafrv. ríkisstj. Í þeirri stefnu felst raunar kúvending í húsnæðismálum. Gert er ráð fyrir að skerða stórlega útlánagetu Byggingarsjóðs ríkisins til almennra útlána og eru framlög ríkissjóðs til hans skert samkv. nýsamþykktum lögum frá Alþingi um 138 millj. nýkr. eða 13.8 milljarða gkr. Að vísu er gert ráð fyrir að auka framlög til Byggingarsjóðs verkamanna á móti, en séu þessi framlög til beggja sjóðanna lögð saman er skerðing framlaga ríkissjóðs samt sem áður 5–6 milljarðar gkr. til beggja sjóðanna.

Þessi skerðing samkv. nýsamþykktum lögum frá Alþingi, þar sem lögboðnir eru jafnframt fjölmargir nýir lánaflokkar, er ekki notuð til skattalækkunar, heldur til eyðslu ríkissjóðs á öðrum sviðum. Þessa stórfelldu skerðingu á tekjum Byggingarsjóðs á að bæta að nokkru með auknum lántökum, og er hér komið annað dæmið við hlið vegamálanna um hvernig framlög af skatttekjum ríkissjóðs til framkvæmda hafa verið skorin niður, fjármagnið notað til aukinnar eyðslu ríkissjóðs, en framkvæmdum að nokkru haldið í horfinu með auknum lántökum. Hér er í raun um að ræða að reka ríkissjóð með halla í nýju formi.

Í áætlun húsnæðismálastjórnar um útlán Byggingarsjóðs ríkisins (áætlun IV 1981) höfðu útlán, sem stofnunin áleit við fjárlagaafgreiðslu lágmarksútlán, verið skorin niður um 24 millj. nýkr. (eða 2.4 milljarða gkr.) „samkv. ákvörðun ráðuneytisins“, að sögn fulltrúa húsnæðismálastjórnar sem komu á fund fjh.- og viðskn. Samt sem áður þarf að hækka lántökur í lífeyrissjóðunum um 101% til þess að fjármagna þessa niðurskornu áætlun. Slíkur er niðurskurðurinn á fjárframlögum ríkissjóðs til almennra húsnæðismálalána.

Í grg. Húsnæðisstofnunar ríkisins segir svo orðrétt um þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Í þessari áætlun eru skuldabréfakaup lífeyrissjóðanna afgangsstærð. Á árinu 1980 keyptu þeir skuldabréf fyrir tæpar 80 millj. kr. (nýkr.) Áætluð kaup 1981 eru 161.2 millj. kr. eða hækkun um 101.5%.“

Enn fremur segir svo í sömu grg., með leyfi hæstv. forseta: „Frumlán til þeirra, er gera fokhelt í janúar/september 1981, eru áætluð um 1087 íbúðir. Sambærilegt tímabil 1980 var 1265 íbúðir (14% lækkun).“ Hér er því beinlínis gert ráð fyrir að verði 14% samdráttur í almennum íbúðabyggingum í viðbót við þann samdrátt sem varð á árinu 1980. Forráðamenn húsnæðismálastjórnar sögðu við fjh.- og viðskn.-menn að samdrátturinn yrði líklega „heldur meiri en minni“, svo orðrétt sé haft eftir þeim, en þessar áætlanir gæfu til kynna.

Við þetta er því að bæta, að forráðamenn lífeyrissjóðanna drógu mjög í efa að tækist að fá 100% meira fé úr lífeyrissjóðunum til húsnæðismála, miðað við síðasta ár, vegna þess að það væri um auknar skuldbindingar lífeyrissjóðanna að ræða samkvæmt síðustu kjarasamningum á s. l. hausti, það væri fyrirsjáanlegur samdráttur í tekjum sumra lífeyrissjóðanna og jafnvel samdráttur vegna atvinnuleysis á þessu ári.

Um byggingu verkamannabústaða er allt í óvissu á þessu ári, en fulltrúar Húsnæðisstofnunar töldu á fundi með fjh.- og viðskn. að þeim mundi ekki fjölga í ár til jafns við fækkun almennra íbúða, sem byggðar yrðu, og samdráttur fyrirsjáanlegur eins og hefði orðið í öllum áætlunum um húsbyggingar á árinu. Áætlun Húsnæðisstofnunar ríkisins nr. IV um fjárstreymi Byggingarsjóðs ríkisins fylgir nál. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. til glöggvunar fyrir hv. deildarmenn.

Í þessu frv. eru framlög ríkissjóðs til fjárfestingarsjóða skorin niður meira en nokkru sinni fyrr miðað við gildandi lög. Sú stefna er almennt ekki aðfinnsluverð þegar tekin hefur verið upp verðtrygging inn- og útlána sjóðanna, að því tilskildu að slíkur niðurskurður sé nýttur til skattalækkana. Hér er því ekki að heilsa, eins og margoft hefur verið gagnrýnt í öðru samhengi.

Haldið er áfram þeirri fráleitu og furðulegu stefnu að skera niður framlög til ýmissa sjóða sem hafa félagsleg markmið og ýmist til að styrkja ákveðna starfsemi samkv. lögum eða lána með mjög hagkvæmum kjörum. Hér má nefna Erfðafjársjóð, sem styrkja á m. a. endurhæfingarstöð fatlaðra, og Bjargráðasjóð, sem hlaupa á undir bagga vegna tjóna af ýmsu tagi.

Það er kaldhæðnislegt nú, þegar stórtjón hafa orðið af náttúruhamförum í landinu, að með þessu frv. er verið að lögfesta skerðingu á framlögum ríkissjóðs til Bjargráðasjóðs.

Til þess að freista leiðréttingar á þessu flytjum við fulltrúar Sjálfstfl. í fjh.- og viðskn. brtt. um afnám þessarar skerðingar á framlögum til Erfðafjársjóðs og Bjargráðasjóðs. Einnig flytjum við tillögu um skil launaskatts til Byggingarsjóðs ríkisins í samræmi við tillöguflutning við afgreiðslu fjárlaga.

Í því sambandi vil ég segja það, að ég teldi eðlilegra, ef fært þykir að skerða launaskatt svo mjög til þess sem hann var upphaflega ætlaður og m. a. samið við verkalýðshreyfinguna um að hann færi til, þ. e. Byggingarsjóðs ríkisins, að leggja þennan skatt niður, en eins og menn vita, sem fylgst hafa með, er þessi skattur lagður misjafnlega á atvinnugreinar. Sumar atvinnugreinar eru undanþegnar launaskatti og aðrar atvinnugreinar kvarta mjög yfir mismunun á þessu sviði. Það væri eðlilegra, ef á að hverfa frá hinu upphaflega markmiði að leggja launaskatt að langmestu leyti til húsbygginga, til Byggingarsjóðs ríkisins, ef það þykir fært að skerða framlag Byggingarsjóðs af launaskatti, að leggja launaskatt niður eða a. m. k. að jafna honum á milli atvinnugreina.

Þá flytjum við einnig brtt. við 6. gr. frv., að greinin orðist svo: Lán á árinu 1981 til annarra hitaveituframkvæmda samkvæmt ákvörðun ráðh. að fengnum tillögum Orkuráðs um lántökuaðila, alls 34 650 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt.

Hér erum við að freista þess, að ráðh. fái tillögur Orkuráðs áður en hann útdeilir þessu fjármagni til hitaveituframkvæmda. Í ákvæðum frv. er ekki tekið fram að ráðh. skuli ráðgast við einn eða annan í þessu efni. — Í þessari brtt., herra forseti, er prentvilla sem ég þarf að fá leiðrétta áður en till. kemur til atkvæða. Töluupphæðin er ekki rétt í þessari fyrstu brtt. á þskj. 606.

Þá vil ég víkja að þeim þætti fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar sem fjallar um erlend lán.

Á árinu 1980 fóru erlendar lántökur verulega fram úr áætlun. Samkvæmt lánsfjárlögum áttu þær að nema 856 millj. nýkr., en urðu 1073 millj. og fóru því 217 millj. kr. fram úr áætlun eða 25.4%, hvorki meira né minna. Ástæðan fyrir þessu er að verulegu leyti sú, að lánsfjáráætlun 1980 var stórlega vanáætluð miðað við framkvæmdaáform til þess að erlendar lántökur yrðu lægri á pappírnum. Ef afborganir eru dregnar frá var nettóaukning langra erlendra lána 697 millj. kr., sem svarar til 12% af útflutningstekjum, en 5.3% af þjóðarframleiðslu.

Á árinu 1981 er áformað að taka um 1500 millj. kr. ný erlend lán (nýkr.). Afborganir eru áætlaðar 690 millj. og nettóaukning erlendra skulda því 810 millj. kr. Hér er miðað við að brtt. meiri hl. fjh.- og viðskn. nái fram að ganga.

Nettóaukning erlendra lána til langs tíma hefur farið vaxandi undanfarin ár og var t. d. 1978 6.3% af útflutningstekjum, 1979 8.3% af útflutningstekjum og 1980 12% af útflutningstekjum. Í prósentum af þjóðarframleiðslu var nettóaukningin aðeins 2.7% 1978, en varð 5.3% 1980.

Á árinu 1981 er búist við heldur minni nettóaukningu en 1980 á báða þessa mælikvarða, en miklum mun meiri aukningu en 1978 og 1979, enda ekki öll kurl komin til grafar á árinu 1981 þar sem vænta má að þær upphæðir fari fram úr áætlun vegna rangra forsendna áætlunarinnar, eins og ég minntist á í upphafi.

Löng erlend lán námu í árslok 1980 5970 millj. nýkr. Staða erlendra lána undanfarin ár hefur farið örhratt vaxandi og kemur fram í því, að 1977 skuldaði íslenska þjóðin í löngum erlendum lánum 630 millj. dollara, en mun skulda í árslok 1981 samkvæmt þessari lánsfjáráætlun 1080 millj. dollara. Erlendar skuldir hafa því á þessu tímabili hækkað um 450 millj. dollara og er þetta 71.4% í raungildishækkun á fjórum árum. Greiðslubyrði afborgana og vaxta hefur einnig farið ört vaxandi á framangreindu tímabili.

Í nál. eru þessar tölur birtar frá 1975–1981 og áætlun gerð fyrir 1982, eftir að þau lán hafa verið tekin sem í lánsfjáráætlun eru. Það er athyglisvert að einmitt nú á síðustu mánuðum, ef svo mætti segja, þ. e. á árunum 1980 og 1981, verður stökkbreyting í greiðslubyrði erlendra lána. En það gerist einmitt á þeim tíma sem sett er inn í stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstj. ákvæði þess efnis, að greiðslubyrði af erlendum lánum skuli ekki fara fram úr 15% af útflutningstekjum þjóðarinnar. 1980 nam þessi greiðslubyrði 14.1%, en fer upp í 15.4% 1981 og samkvæmt áætlunum um greiðslubyrðina, eftir að þær lántökur hafa farið fram sem lánsfjáráætlun gerir ráð fyrir, verður greiðslubyrðin komin upp í 15.7–16.4%. Þessi stökkbreyting verður nákvæmlega á sama tíma og fyrrgreint ákvæði var sett inn í málefnasamning hæstv. ríkisstj.

Sé skuldastaða erlendra lána borin saman við þjóðarframleiðslu kemur fram hliðstæð niðurstaða. Erlendar skuldir í prósentum af þjóðarframleiðslu voru 1977 31.6%, 1978 33.7%, 1979 34.4%, 1980 35.1% og 1981 — í árslok — eru erlendar skuldir í prósentum af þjóðarframleiðslu taldar nema 36.6%.

Þessi neikvæða þróun skuldastöðu erlendra lána á árinu 1981 verður ekki skýrð með auknum orkuframkvæmdum. Eins og ég sagði áðan kemur það fram í skýrslu ríkisstj. um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, að magnsamdráttur verður í stórvirkjunum, stóriðju- og hitaveituframkvæmdum á árinu 1981. Hér er m. a. um að ræða aukna lánsfjárþörf vegna þess að framlög ríkissjóðs eru skorin niður að raungildi til framkvæmda og atvinnuvega, en lána aflað að hluta í staðinn.

Mjög mikilvæg skýring á þessari miklu aukningu erlendra skulda er fólgin í því, eins og fyrr segir, að ein stærstu og arðbærustu fyrirtæki landsins, eins og Landsvirkjun og Hitaveita Reykjavíkur, eru knúin til þess af stjórnvöldum að verðleggja vöru sína þannig að enginn afgangur er til framkvæmda og rekstrar fyrirtækjanna: Í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun Landsvirkjunar, sem fylgir með í nál. okkar, er ekki gert ráð fyrir að fyrirtækið leggi krónu af eigin fé til framkvæmda árið 1981. Þar er m. a. gert ráð fyrir að taka erlent lán til að greiða vexti á byggingartíma að upphæð 67 millj. nýkr. (eða 6.7 milljarða gkr.). Fyrir nokkru mun Landsvirkjun hafa getað fjármagnað allt að 25% af stofnkostnaði virkjana með eigin fé. Þetta mundi samsvara 117 millj. nýkr. í ár (eða 11.7 milljörðum gkr.) og þeim mun minni þörf á erlendri lántöku.

Erlendar lántökur til framkvæmda, sem spara eða afla gjaldeyris, eru eðlilegar sé þannig að rekstri viðkomandi fyrirtækis og stjórn efnahagsmála staðið að mæta megi aukinni greiðslubyrði. Því er augljóslega ekki þannig farið nú með margar þær lántökur sem áformaðar eru samkvæmt þessu frv. Í þjóðfélagi, sem byggir á óvissum afla, sveiflukenndu verði á útflutningsvöru og fleiri óvissuþáttum með gjaldeyrisöflun, verður jafnan að gæta hófs um erlendar lántökur, a. m. k. til eyðslu og óarðbærra framkvæmda, en nú eru tekin í vaxandi mæli erlend lán í því skyni.

Samkvæmt skýrslu um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, sem fylgir þessu frv., er áætlað að heildarfjárfesting dragist örlítið saman frá því í fyrra og nemi 26% af þjóðarframleiðslu, sem er ofar því marki sem svonefnd Ólafslög gera ráð fyrir. Í fyrra reyndist fjárfesting 27% af þjóðarframleiðslu, en var áætluð 26.5%. Hún jókst þá um 8%, en er talin dragast nokkuð saman árið 1981, miðað við að verðlagsforsendur frv. um 42% verðbólgu milli ára standist, sem viðurkennt er í skýrslunni að verði ekki. Því má búast við að heildarfjárfestingin verði svipuð og í fyrra þegar upp verður staðið.

Kafli lánsfjáráætlunarinnar um fjárfestingu er einkar lærdómsríkur um það, hvert lánsfjármagni hefur verið beint í þjóðfélaginu með meira eða minna miðstjórnarvaldi á þeim árum sem fylgt hefur verið vinstri stefnu í efnahagsmálum.

Á árinu 1981 er áætlað að framkvæmdir við stórar virkjanir, stóriðju og hitaveitur dragist saman, eins og ég sagði áðan, að magni til um 4%. Fjárfesting í atvinnuvegunum er áætluð dragast saman um 12.5%, en byggingar hins opinbera aukast um tæp 16% og þriðja árið í röð eru byggingar og mannvirki hins opinbera eini aðalþáttur fjárfestingaráætlunarinnar sem eykst ár frá ári.

Ef frá eru talin kaup á flutningatækjum, sem eðlilega eru mjög sveiflukennd, hefur fjármunamyndun í atvinnuvegunum farið ört minnkandi árið 1979–1981 og mestur er samdrátturinn áætlaður á árinu 1981. Sumpart er hér um eðlilega áherslubreytingu að ræða milli atvinnugreina, en samdráttur í fjármunamyndun í fiskiðnaði í fyrra og stóriðnaði allt tímabilið segir sína sögu. Engin atvinnugrein eflist að fjármunamyndun á þessu tímabili öll árin nema „annar iðnaður“, en magnaukning þar er einungis 7–11% árin 197–1980.

Athyglisvert er að gera má ráð fyrir að verulegur samdráttur verði í íbúðabyggingum þriðja árið í röð. Að vísu er gert ráð fyrir í skýrslunni sjálfri að magn framkvæmda haldist í horfinu í ár eftir 2% samdrátt 1979 og 5% samdrátt 1980, en samkvæmt ummælum fulltrúa Húsnæðisstofnunar, sem ég vitnaði til áðan, er miklu nær að búast við verulegum samdrætti á þessu sviði í ár.

Ljóst er hvert stefnir í þessum málum og að framangreint yfirlit, sem ég hef gefið um fjárfestingarstefnuna, staðfestir svo ekki verður um villst að innlendu og erlendu lánsfjármagni er í vaxandi mæli beint til hins opinbera auk hækkandi skattheimtu, atvinnuvegirnir eru meira eða minna látnir lönd og leið, stóriðnaður er ekki á dagskrá og slakað er á framkvæmdum í orkumálum. Þessi vinstri stefna í lánsfjármálum er því snar þáttur í þeirri efnahagsstefnu sem veldur samdrætti í þjóðarframleiðslu, eins og hér var rakið, erlendri skuldasöfnun, óðaverðbólgu, versnandi lífskjörum og hættu á atvinnuleysi ef fram fer sem horfir.

Herra forseti. Ég get nú farið að stytta mál mitt, en ég verð því miður að minna að lokum á þau óþinglegu vinnubrögð og raunar lögbrot sem framin hafa verið við afgreiðslu þessara lánsfjárlaga.

Í fjármálaráðherratíð Matthíasar Á. Mathiesen voru tekin upp þau vinnubrögð að gera lánsfjáráætlun og var hún að jafnaði lögð fyrir Alþingi og fjvn. til upplýsinga áður en afgreiðslu fjárlaga lauk. Í lög um stjórn efnahagsmála, sem samþykkt voru á Alþingi 7. apríl 1979, voru tekin upp viðamikil ákvæði um fjárfestingar- og lánsfjáráætlanir. Þar segir orðrétt í 14. gr.: „Ríkisstj. skal leggja fyrir Alþingi fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir eitt ár í senn.“ — Þetta las hæstv. forsrh. upp kirfilega í Sþ. í dag: „Ríkisstj. skal leggja fyrir Alþingi fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir eitt ár í senn,“ en hann sleppti seinni hluta setningarinnar: „og skulu þær fylgja fjárlagafrv.“ Spurningin er hvers vegna hæstv. ráðh. stoppaði í miðri setningu.

Þetta lögfesti vinstri stjórnin, en hún afgreiddi einu lánsfjárlög sín 16. maí 1979. Árið 1980 var frv. til lánsfjárlaga útbýtt á Alþingi 3. maí og lánsfjárlög afgreidd 19. maí. Þetta var afsakað með þingrofi haustið 1979 og óvenjulegu þinghaldi um veturinn. Í inngangsorðum fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar fyrir árið 1980 er viðurkennt að leggja skuli fyrir Alþingi fjárfestingar- og lánsfjáráætlanir fyrir eitt ár í senn og skuli þær fylgja fjárlagafrv. Síðbúið frv. að lánsfjárlögum fyrir 1980 og lánsfjáráætlun eru afsökuð þannig orðrétt í þeirri skýrslu, með leyfi hæstv. forseta: „Þingrof í okt. 1979, alþingiskosningar í des. 1979 og hin langvinna stjórnarkreppa, sem fylgdi í kjölfarið, hafa á ýmsan hátt raskað gangi þingmála. Af þessum sökum var ekki kleift að leggja fjárfestingar- og lánsfjáráætlun í heild fyrir Alþingi samtímis fjárlagafrv.“

Að þessu sinni, herra forseti, er engri slíkri afsökun til að dreifa við afgreiðslu lánsfjárlaga 1981. Í grg. fjárlagafrv. segir svo orðrétt: „Fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1981 verður lögð fram í nóvemberbyrjun á Alþingi.“ Nóvember kom og engin lánsfjáráætlun. En þar segir líka: „og verður þá hægt að meta framkvæmdir ríkisins með hliðsjón af heildarmagni framkvæmda í landinu, en miðað er við að fjárfestingar nemi rúmlega fjórðungi þjóðartekna.“

Við fjárlagaafgreiðslu fengu þingmenn í hendur bráðabirgðaskýrslu um opinberar framkvæmdir og erlendar lántökur, sem hefur breyst verulega síðan. Í henni segir, með leyfi hæstv. forseta: „Vinna við fjárfestingar- og lánsfjáráætlun í heild sinni er nú vel á veg komin og er áformað að leggja hana fyrir Alþingi að loknu jólaleyfi.“

Fjárfestingar- og lánsfjáráætlun var svo ekki lögð fram fyrr en nú um mánaðamótin mars-apríl eða skömmu fyrir páska. Þegar þessi áætlun liggur svo fyrir Alþingi hálfu ári síðar en lögboðið er, þá er hún þannig úr garði gerð að eitt rekst á annars horn svo greinilegt er að enginn hefur lesið plaggið í samhengi. Tölur í yfirliti á bls. 18 og 19 koma ekki heim og saman við aðrar upplýsingar í skýrslunni. Í fjvn. er fjallað um aðrar tölur í heildarfjáröflun til vegamála við undirbúning vegáætlunar en fram koma í þessu frv. og í lánsfjáráætlun er gert ráð fyrir nokkrum brtt., sem kynntar voru fyrst á lokafundum fjh.- og viðskn. hinn 2. apríl, sem breyta verulega fjárhæðum í aukningu erlendrar lántöku.

Þessi vinnubrögð sýna lausatök og hringl ríkisstj. í stjórn efnahagsmála og dæmafáa iðni hennar í hrossakaupum við einstaka stuðningsmenn til þess að geta lafað við völd.

Hér er að sjálfsögðu um lögbrot að ræða. Það, sem vakti fyrir mönnum þegar þau ákvæði voru sett að fjárfestingar- og lánsfjáráætlun skuli fylgja fjárlagafrv., var að sjálfsögðu að þá væri m. a. hægt, svo vitnað sé beint í skýrslu hæstv. ríkisstj. í fyrra, að „meta framkvæmdir ríkisins með hliðsjón af heildarframkvæmdum í landinu“ og jafnframt að fá heildaryfirsýn yfir allan ríkisbúskapinn og bestu upplýsingar, sem tiltækar eru, um þróun peningamála þegar fjárlög eru afgreidd. Slík vinnubrögð eru það sem koma skal.

Enn vil ég taka undir orð formanns fjh.- og viðskn. um að bæta þarf enn um vinnubrögð í fjh.- og viðskiptanefndum við meðferð lánsfjárlaga. Ég verð að segja það að lokum, að þau nýju vinnubrögð, sem hann tók upp í nefndinni eru góður áfangi, því að samvinna um allar upplýsingar hefur frá hans hálfu og nm. verið mjög góð. En því miður hefur verið að þessu máli staðið af hálfu hæstv. ríkisstj. eins og ég hef hér rakið.