06.04.1981
Efri deild: 72. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3448 í B-deild Alþingistíðinda. (3498)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir þessu nál. í fjarveru Kjartans Jóhannssonar, hv. 2. þm. Reykn., en fyrst held ég að ekki sé úr vegi að vekja athygli á því, að hv. stjórnarsinnar í þessari deild, ef undan eru skildir hæstv. forsrh. og forseti deildarinnar, sýna þessu máli ekki ýkjamikinn áhuga því að enginn þeirra hefur sést í deildinni um langa hríð hvað sem valda kann.

Það er ástæða til að taka undir þau orð, sem hv. 3. þm. Norðurl. e. viðhafði hér áðan, og þá gagnrýni, sem hann beindi að ríkisstj. fyrir vinnubrögð hennar, um það hvernig staðið er að afgreiðslu þessa máls og að lánsfjáráætlun skuli nú fyrst fram lögð, en ekki með fjárlögum. Auðvitað stangast þetta á við lög þótt svo hæstv. forsrh. hafi hentað í dag að lesa ekki þá setningu til loka sem hann vitnaði þá til. En að þessu mun ég víkja nánar síðar.

Það var annars einkar athyglisvert að hlusta á frsm. meiri hl. í þessu máli, hv. 11. þm. Reykv. Mér bregður ævinlega svolítið í brún þegar hann byrjar að hrósa hæstv. forsrh. hástöfum, en þetta er nú víst það sem tilheyrir á þeim bæ núna. Ég er ekki að segja að hæstv. forsrh. eigi þetta hrós ekki skilið, en ég er ekki alveg búinn að átta mig á því, að hv. 11. þm. Reykv., þm. Alþb., skuli helst ekki koma hér í ræðustól öðruvísi en að mæla fagurlega í garð hæstv. forsrh.

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson fór hér mörgum orðum um það og býsna sterkum að þessi lánsfjáráætlun legði grundvöllinn að veigamestu framkvæmdum í orkumálum sem um gæti í langan tíma. Þetta er auðvitað ekki rétt því að staðreyndin er sú, að núv. ríkisstj. og hæstv. núv. iðnrh. draga lappirnar í þessum málum og innan ríkisstj. virðist ekki vera nokkur eining um hvaða skref eigi að stíga næst í orkumálum eða hvort þar eigi að fara þær brautir, sem stjórnarandstaðan hefur réttilega bent á, að til þess að stíga skynsamleg skref í orkumálum þarf til að koma stóriðja af einhverju tagi.

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson talaði líka um hitaveitur og vildi þakka ríkisstj. þær framkvæmdir sem þar eru á döfinni. Þær framkvæmdir eru að sjálfsögðu ekki á neinn hátt á vegum ríkisstj. að öðru leyti en því, að hún annast þar sjálfsagða fyrirgreiðslu á lánsfé. Hitaveitur eru fyrirtæki sem eru á vegum heimamanna á hverjum stað og ríkisstj. óviðkomandi.

Almennt má e. t. v. segja að þjóðhagshorfur á árinu 1981 verði að teljast allgóðar. Miðað við nær óbreytt verð á sjávarafurðum hefur Þjóðhagsstofnun áætlað að verg þjóðarframleiðsla verði óbreytt frá fyrra ári. En nú er þess hins vegar að geta, að gerðir hafa verið samningar um skreiðarsölu sem eru 10% hærri en á fyrra ári, og samningar hafa sömuleiðis verið gerðir um saltfiskssölu, sem eru verulega miklu hærri en í fyrra. Þá er vitað að fiskmjölsverð á heimsmarkaði er ívið hærra en var að jafnaði árið 1980 og verðlagsþróun í Bandaríkjunum gefur vissulega ástæðu til að ætla að verð á frystum fiski þar í landi muni hækka innan tíðar. Þá er því enn fremur við að bæta, að verð á áli og kísiljárni er talið munu hækka þegar líður á árið. Enn kemur það til, að gengi Bandaríkjadollars hefur styrkst mjög á þessu ári, einkum fyrstu vikum ársins, og það hefur vitanlega afar jákvæð áhrif á þjóðarbúskap okkar.

Þegar allt þetta, sem ég nú hef talið, er haft í huga er það svo, að hin ytri skilyrði þjóðarbúskapar okkar hljóta að teljast nokkuð góð. Þessi góðu ytri skilyrði veita sérstaka möguleika á því að ná meiri stöðugleika í íslensku efnahagslífi án þess að rýra lífskjörin. Sér í lagi skapa þessi hagstæðu ytri skilyrði nú einstakar aðstæður til þess að draga úr verðbólgunni án almennrar kjaraskerðingar.

Það hefur verið vikið að því í þessum ræðustól fyrr í kvöld, að hæstv. forsrh. sé allra manna snjallastur við verðbólgureikninga og prósentureikninga í því sambandi. Hann og fleiri talsmenn ríkisstj. álíta nú að verðbólgan sé 35% um þessar mundir miðað við eitt ár, —að maður segi ekki á ársgrundvelli eins og flestir virðast hampa mest. Sé gengið út frá þessu og með tilliti til hinnar hagstæðu þróunar í markaðsmálum og gengis Bandaríkjadollars ætti því núna að vera lag til þess að ná verðbólguhraðanum jafnvel niður fyrir 30%, ef þær forsendur eru réttar sem hæstv. forsrh. og fleiri talsmenn ríkisstj. hafa hvað eftir annað birt landslýð í fjölmiðlum. Spurningin er bara sú hvort hæstv. ríkisstj. ber gæfu til að nýta þær einstöku aðstæður, sem nú virðast vera, til að ná verulegum árangri í verðbólgumálum, en það hlýtur að teljast innan seilingar samkv. áðurgreindum yfirlýsingum talsmanna ríkisstj. Takist það hins vegar ekki hlýtur gengisfelling óhjákvæmilega að vera á næsta leiti.

Vitaskuld er það svo, að hæstv. ríkisstj. hefur yfir að ráða þeim stjórntækjum í ríkisfjármálum, peningamálastjórn og í fjárfestingarmálum sem ráða úrslitum um hvort þetta svigrúm, sem ég hef um rætt nýtist til að draga úr verðbólgunni. Þetta er sem sagt aðeins spurning um hvort þessum stjórntækum verður beitt á réttan hátt og hvort ríkisstj. beri til þess gæfu eða sé þeim vanda vaxin.

Lánsfjárlög og lánsfjáráætlun eiga að sýna stefnu ríkisstj. í fjárfestingarmálum og peningamálum. Fyrirliggjandi lánsfjáráætlun og frv. til lánsfjárlaga einkennast fyrst og fremst af mikilli aukningu erlendra skulda, sérstakri hækkun á fjárfestingum hins opinbera, einkanlega í opinberum byggingum, eins og hv. þm. Lárus Jónsson vakti rækilega athygli á áðan, en hins vegar samdrætti í fjármunamyndun í atvinnuvegum. Af þessum gögnum verður hins vegar afar lítið ráðið um hina raunverulegu peningamálastjórn annað en það, að ætlunin sé að mjólka bankakerfið, eftir því sem unnt er, og auka erlenda skuldasöfnun til að standa undir almennum opinberum umsvifum, og þá ekki einungis í fjárfestingu, heldur einnig á sviði rekstrar á vegum ríkisins. Þetta gefur ekki vísbendingu um að ríkisstj. muni notfæra sér það svigrúm sem nú virðist óneitanlega vera fyrir hendi til þess að draga úr verðbólgunni, heldur benda þessi plögg þvert á móti til þess, að þetta tækifæri verði látið fara forgörðum.

Fátt er nauðsynlegra íslensku hagkerfi en styrk og sanngjörn peningamálastjórn. Þetta er nauðsynlegt til að ná jafnvægi í efnahagsmálum og hamla gegn verðbólgu. Mikilvægur þáttur slíkrar peningamálastjórnar er jákvæð raunávöxtun og verðtrygging sparifjár. Á þessi atriði hefur Alþfl. lagt megináherslu á undanförnum misserum. Sú stefnumörkun Alþfl. hefur þegar borið verulegan ávöxt í aukinni sparifjármyndun þrátt fyrir hringlandahátt ríkisstj. í framkvæmd stefnunnar. En furðulegast af öllu er þó þegar talsmenn hæstv. ríkisstj. fordæma stefnuna í átt til raunávöxtunar og verðtryggingar sem þeir eru sjálfir að framkvæma og hafa meira að segja staðið sjálfir að því að lögfesta. Þetta er furðulegt og slíkur málflutningur hlýtur að skapa óvissu og draga úr árangri eða stefna honum í tvísýnu, að ekki sé minnst á þann tvískinnung sem í þessu felst. Út yfir tekur þó vissulega þegar þessir sömu aðilar hrósa sér af innlánsaukningu í bönkunum, sem er árangur þeirrar stefnu sem þeir segja, svo notuð séu þeirra eigin orð, sig hafa glapist til að fylgja um sinn, en afneita nú. Þessi orð voru, ef mig ekki misminnir, viðhöfð í sjónvarpi og það var, held ég, hæstv. samgrh. sem það gerði á sínum tíma.

Hitt er aftur á móti ljóst, að framkvæmd þessarar stefnu hefur farist ríkisstj. fremur óhöndulega og er ekki í samræmi við stefnumörkun Alþfl. Þannig er komið núna, að almenningi er gert því sem næst ókleift að velja eðlilegt sparnaðarform með því að hafa reglur sífellt flóknari um bindingar og vaxtaútreikninga, og það er alveg áreiðanlegt að mjög mörgum, og þá einkanlega þeim sem síst skyldi, reynist afar erfitt að átta sig á þessum reglum. Til marks um þetta má raunar hafa það, að sérfræðingar ríkisstj. þurftu tvær heilar blaðsíður í Hagtölum mánaðarins til þess eins að útskýra skilmála á nýjasta innlánsreikningaformi ríkisstj. Alþfl. hefur á hinn bóginn flutt frv. til laga um sparnaðarform sem býður upp á verðtryggingu án fjötra flókinna bindinga. Það form, sem hér hefur verið flutt tillaga um af hálfu Alþfl., kemur með eðlilegum og einföldum hætti til móts við sparifjáreigendur og kemur í veg fyrir að þeir einir, sem kunna á kerfið, geti náð að verðtryggja sparifé sitt í raun. Enn fremur hefur Alþfl. flutt tillögur um að vextir af sparifé verði reiknaðir mánaðarlega þannig að sparifjáreigendum sé á hverjum tíma tiltæk raunveruleg sparifjáreign, en ekki eins og nú er, að vextir eru aðeins greiddir um áramót. Vilji sparifjáreigendur ná vöxtum út á miðju ári þýðir það að þeir þurfa að eyðileggja viðkomandi sparisjóðsbók. Þetta er auðvitað fáránlegt fyrirkomulag.

Að því er útlánahliðina varðar hafa mistök ríkisstj. ekki síður verið örlagarík. Lánstími hefur verið að styttast, þveröfugt við þá stefnu sem Alþfl. markaði. Alþfl. hefur ævinlega lagt á það áherslu, að veigamikill þáttur raunvaxta- og verðtryggingarstefnu væri lenging lánstíma og jöfnun greiðslubyrðar. Án þess að slíkt fylgi með er ekki um raunvaxtastefnu að ræða.

Sú stefna, sem ríkisstj. framkvæmir í þessum efnum, bitnar háskalega á mörgum alþýðuheimilum þessa lands, en þó einkanlega og sér í lagi á ungu fólki sem er að koma sér þaki yfir höfuðið. Það eru vitaskuld, þótt það kunni að þykja sterk orð, hálfvillimannlegar aðferðir að ætla ungu fólki að eignast íbúð þannig að einungis sé séð fyrir lánum til langs tíma er svara til um það bil fjórðungs af íbúðarverðinu.

Um málefni húsbyggjenda og íbúðarkaupenda hefur Alþfl. flutt frv. um stefnumörkun sem felur það í sér, að lán frá Húsnæðisstofnun og bankakerfi til langs tíma vegna íbúðaröflunar fari á þessu ári upp í 52.5% af íbúðarverði, en að meðtöldum lífeyrissjóðslánum færi hlutfall langtímalána yfir 70% af verði venjulegrar íbúðar. Þá færi þetta að verða nokkurn veginn viðráðanlegt fyrir fólk með sæmilegar meðaltekjur og jafnvel ekki það. Það væri mikil breyting, það væri bylting frá því ástandi sem nú ríkir.

Svo vík ég að erlendum lántökum og fjárfestingarstefnu. Í árslok 1980 námu löng erlend lán 5940 millj. kr., sem eru rúmlega 35% af vergri þjóðarframleiðslu. Á yfirstandandi ári er ætlunin að bæta við erlendum lánum er nema 1463 millj. kr. Að frádregnum afborgunum af eldri lánum yrðu löng erlend lán samtals 6713 millj. kr. eða 671 milljarður gkr. Samkvæmt lánsfjáráætlun svarar þetta til 36–37% af þjóðarframleiðslu, sem er hærra hlutfall en nokkru sinni fyrr. Erlendu skuldirnar munu þá svara til 29 200 kr. á hvert mannsbarn í landinu eða tæpra 3 millj. kr. gamalla á hverja 5 manna fjölskyldu. Þá verða erlendu langtímaskuldirnar þannig 146 þús. kr. eða 14.6 millj. gkr. Þetta er sá arður sem hæstv. ríkisstj. skilar komandi kynslóðum.

Þrátt fyrir þessa gífurlegu erlendu skuldasöfnun er gert ráð fyrir 12.6% samdrætti í fjárfestingu atvinnuveganna og engri aukningu í orkuframkvæmdum. Það er nú öll dýrðin sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson talaði um áðan.

Skuldasöfnunin erlendis fer þannig í að auka ýmsar aðrar opinberar framkvæmdir, einkanlega opinberar byggingar, svo og til þess að standa undir rekstri á vegum hins opinbera. Það er augljóslega uggvænleg þróun, að öll lánsfjáraukningin skuli fara í opinberar framkvæmdir. Enn uggvænlegra er þó að sívaxandi hluti sömu opinberu framkvæmda er unninn fyrir lánsfé. Þannig er stöðugt verið að samþykkja víxla sem eiga að falla til greiðslu á þá sem á eftir okkur koma. Verst af öllu er þó það, að núv. ríkisstj. hefur í mjög vaxandi mæli farið út á þá braut að taka lán erlendis til þess að mæta rekstrarútgjöldum hins opinbera. Með því er óreiðu líðandi stundar skotið á frest til greiðslu síðar. Vitaskuld eru fjárlögin líka orðin gjörsamlega marklaust plagg með þessum vinnubrögðum. Þannig eru lántökur til opinberra framkvæmda í A-hluta fjárlaganna næstum tvöfaldaðar og erlend lán til opinberra framkvæmda eru sömuleiðis tvöfölduð frá lánsfjáráætlun fyrra árs.

Ég held að það sé vissulega ástæða til að staldra hér við. Lánsfjáráætlun og fjárlögin fjalla nánast um það sama, þ. e. um fjármálabúskap ríkisins. Hæstv. ríkisstj. státar mjög af því, að á fjárlögum sé afkoma ríkissjóðs góð og fjárlög séu ekki með halla. En ef þetta dæmi væri gert upp í heild, ef tekin væru saman fjárlögin og lánsfjáráætlun, er auðvitað staðreyndin sú, að á fjárlögum er bullandi halli. Fram hjá því verður ekki komist. Þegar þannig er farið að, að fjárlög eru afgreidd fyrst og lánsfjárlög mörgum mánuðum síðar, stingur þetta ekki eins í augu og ef það væri gert samtímis, eins og lög kveða á um, en hæstv. ríkisstj. hefur kosið að fara aðra leið í þeim efnum.

Það eru mörg atriði í því, sem hér er upp talið, bæði varðandi A-hluta fjárlaga og sömuleiðis og ekki síður B-hluta fjárlaga, sem vissulega er ástæða til að gera athugasemdir við. T. d. er það óneitanlega svolítið skrýtið að lesa hér varðandi Lagmetisiðjuna Siglósíld, að fyrirtækið hafi átt, eins og segir hér — með leyfi forseta, „við rekstrarerfiðleika að etja á árunum 1979 og 1980. Því er áformað að afla fyrirtækinu 1 millj. kr. lánsfé, auk 1 millj. kr. fjárveitingar í fjárlögum, til þess að bæta rekstrarstöðu þess og auðvelda því að taka upp nýjar og arðbærari framleiðslugreinar.“ — Þetta fyrirtæki hefur verið rekið með bullandi tapi og er enn. Það hefur nú lítið heyrst um hvaða „nýjar og arðbærari framleiðslugreinar“ þar eru á döfinni. Svo er því við að bæta, að nýlega hefur þetta ágæta fyrirtæki ráðist í fjárfestingu til vélakaupa sem nemur 1 millj. nýkr. eða 100 millj. gamalla kr. til þess að framleiða sjálft dósabotna undir framleiðslu sína. Áður voru þessar dósir framleiddar suður í Kópavogi. Þess er að geta, að til munu vera í landinu a. m. k. sex sams konar vélar. Tvær þeirra gætu nánast annað öllum okkar þörfum á þessu sviði og þeirra niðurlagningarverksmiðja sem hér eru. En hins vegar er það spurning sem ekki hefur fengist svar við, en fæst væntanlega svar við einhvern tíma á síðari stigum, hvers vegna var á vegum Siglósíldar lagt í fjárfestingu, 100 millj. gamalla króna, eins og hér er talað um að afla fyrirtækinu lánsfjár til þess að kaupa vél til að búa til dósir sem í mörg ár hafa verið framleiddar hér og væri hægt að framleiða norður á Akureyri og væri raunar hægt að framleiða líka austur á fjörðum. Þegar svona er staðið að rekstri ríkisfyrirtækja vekur það óneitanlega ýmsar spurningar.

Ég skal ekki, herra forseti, gerast mjög langorður í þessum dæmum hér þó að vissulega væri ástæða til þess.

Annað dæmi er í þessari bók hæstv. forsrh., fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1981. Það er Ríkisútvarpið. „Ráðgert er“ segir hér, með leyfi forseta, „að afla 4 millj. kr. lánsfjár til þess að standa straum af kostnaði við framkvæmdir og tækjakaup Ríkisútvarpsins. Framkvæmdir og tækjakaup eru alls áformuð fyrir 15.8 millj.“ — Á vegum Ríkisútvarpsins og í vörslu Ríkisútvarpsins er sérstakur framkvæmdasjóður, sem er býsna vel fjáður og á að nota m. a. til þess að byggja hús yfir Ríkisútvarpið, eins og verið er að fara af stað með þessa dagana í þeim mæli sem ekki hefur fram hjá neinum farið, að ég hygg. Þetta vekur auðvitað spurningar. Nú er ljóst að dagskrá sjónvarps hefur verið skorin niður um 9% vegna þess að ríkisstj. hefur meinað þessari stofnun, eins og mörgum öðrum ríkisstofnunum, um eðlilegar hækkanir afnotagjalda. Fyrir dyrum stendur að skerða dagskrá útvarpsins um 14%. Það mun væntanlega leiða til þess að dagskrá útvarpsins verður í mestum mæli létt tónlist og ýmiss konar efni sem ekki þarf að greiða fyrir höfundarlaun. Þetta gerist á 50 ára afmælisári Ríkisútvarpsins og þetta gerist þrátt fyrir að hér á Alþingi hafa verið fluttar margar till. um að bæta fjárhag Ríkisútvarpsins, ýmist með því, að stofnunin endurheimti tolltekjur af sjónvarpstækum, sem hún var svipt á sínum tíma, eða með því, að henni verði veitt sérstök fjárveiting til að jafna halla s. l. tveggja ára.

Ríkisstj. á marga valkosti aðra í þessum efnum: Þann fyrsta náttúrlega að láta stofnunina njóta sannmælis að því er varðar ákvörðun afnotagjalda. Í öðru lagi mætti t. d. fella niður söluskatt af auglýsingum, en Ríkisútvarpið mun vera eini fjölmiðillinn hér á landi sem borgar söluskatt af auglýsingum og hefur ríkissjóður af því álíka tekjur og skortir nú til þess að halda dagskrá útvarpsins í horfinu.

Í þriðja lagi gæti ríkissjóður létt af Ríkisútvarpinu þeim bagga sem fylgir því að standa undir rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar að fjörutíu og eitthvað prósentum kostnaðar a. m. k., en sú upphæð nemur viðlíka tölu og nú þarf að skera niður dagskrá Ríkisútvarpsins. Ekkert af þessu hefur hæstv. ríkisstj. fengist til að gera.

En nú er það ekki svo, að hún hafi ekki sett sér að gera vel í menningarmálum. Í stjórnarsáttmálanum, sem hæstv. forsrh. er afskaplega tamt að vitna til, stendur, með leyfi forseta, á bls. 13 í lið 3, — menningar- og menntamál eru að vísu sett þar undir önnur mál og ekki kannske skipað í sérlega háan sess:

Ríkisstj. mun beita sér fyrir því, að auknar verði á kjörtímabilinu fjárveitingar til menningarmála, sem m. a. tryggi viðunandi hraða við uppbyggingu menningarstofnana, svo sem Þjóðarbókhlöðunnar.“

Ríkisútvarpið er væntanlega líka menningarstofnun samkv. þessu. En það er ekki nóg með það, heldur segir líka síðar í þessari sömu grein, með leyfi forseta:

„Opinberum fjölmiðlum verði ætlað fræðsluhlutverk, bæði í þágu skóla og fræðslu fullorðinna.“

Þetta stendur í stjórnarsáttmálanum, en á sama tíma gerist það, að dagskrá Ríkisútvarpsins, bæði í sjónvarpi og útvarpi, er stórlega skorin niður, og á sama tíma gerist það, að í stað þess að gera eitthvað raunhæft til þess að leysa fjárhagsvanda þessarar mestu menningarstofnunar þjóðarinnar ætlar ríkisstj. sér að leysa hana með lántökum og skrifa þar enn einn víxilinn á framtíðina.

Herra forseti. Það gerist nú áliðið kvölds og ég skal ekki þreyta menn með því að nefna fleiri dæmi úr þessu, þar sem eru atriði sem eiga heima í fjárlögum og fyrst og fremst í fjárlögum og eiga ekkert erindi í lánsfjáráætlun í rauninni.

Það er auðvitað ljóst af því sem hér hefur komið fram, að stefna hæstv. ríkisstj. er í grundvallaratriðum röng og þar þarf meginstefnubreyting að eiga sér stað þó að það sé sjálfsagt borin von að ætlast til þess, að sú stefnubreyting eigi sér stað sem til þarf að koma í peningamálum, lánsfjármálum og fjárfestingarmálum til þess að nýta það svigrúm sem ég vék að í upphafi máls míns, — það svigrúm sem nú hefur gefist með tilliti til bættra ytri aðstæðna, — og ná þannig verðbólgunni niður án kjaraskerðinga, eins og ætti að vera hægt ef verðbólguspádómar og prósentur hæstv. forsrh. hafa við nokkur minnstu rök að styðjast.

Auðvitað þyrfti mikið verk til þess að breyta þessari lánsfjáráætlun, til þess að koma henni í réttan farveg að mati okkar Alþfl.- manna, en engu að síður má þó sníða af henni nokkra verstu agnúana og um það höfum við flutt nokkrar brtt. sem ég mun nú víkja að, enda þótt grein væri að vísu að nokkru gerð fyrir þeim í umr. í Sþ. í dag og ég muni þess vegna vera fremur stuttorður en hitt.

Í fyrsta lagi leggjum við fram brtt. við 3. gr. þar sem lífeyrissjóðir eru eins og nú háttar skyldaðir til að kaupa skuldabréf. Í fyrsta lagi leggjum við til að þar verði um heimild að ræða, en ekki skyldu. Í öðru lagi leggjum við til að ef lífeyrissjóðirnir vilja kaupa þessi bréf verði fyrir fyrstu 20% keypt bréf af Byggingarsjóði ríkisins, þannig að hann verði látinn hafa forgang. Þriðja breytingin, sem þessi brtt. okkar hefur í för með sér, er að ríkisstj. skuli gera sérstakt samkomulag við lífeyrissjóðina um framkvæmd og tímasetningu skuldabréfakaupanna innan ársins svo og um ákvæði um lánstíma og lánskjör.

Það þarf ekki að rökstyðja þetta í mjög löngu máli. Það nægir hér að vitna til ummæla sem hæstv. núv. fjmrh. viðhafði hér 1977 þegar hann var í stjórnarandstöðu og mælti þá fyrir till. sama efnis í grundvallaratriðum og við Alþfl.- menn nú flytjum. Þá sagði hæstv, fjmrh. m. a., og mér þykir nú fyrir því, herra forseti, að hann skuli ekki geta hlýtt á þegar ég rifja upp ummæli hans frá því fyrir 4 árum — með leyfi forseta — þetta er tilvitnun í ummæli núv. fjmrh.:

„Það er hinn þáttur málsins sem er okkur fyrst og fremst þyrnir í augum, að hér er verið að taka fjármagn lífeyrissjóðanna traustataki með löggjöf og ráðstafa því á ákveðinn hátt. Þetta fjármagn og þessir sjóðir eru að nokkru leyti bein eign verkalýðshreyfingarinnar og að nokkru leyti óbein eign. Verkalýðshreyfingin fékk því framgengt, að þessir sjóðir tóku til starfa og hafa verið byggðir upp, og hún varð á sínum tíma að kosta því til að slá nokkuð af launakröfum sínum, fórna nokkru til þess að þetta spor yrði stigið. En hitt er jafnljóst, að verkalýðshreyfingin lætur sig miklu skipta hvað verður um þetta fjármagn og það er ekki eðlilegt að þetta fjármagn sé af henni tekið nema að undangengnum frjálsum samningum við þá sem raunverulega eiga þetta fjármagn og hafa ráðstöfunarrétt á því.“

Þetta, herra forseti, eru orð hæstv. núv. fjmrh. sem þá var í stjórnarandstöðu. Oft hafa menn að vísu orðið vitni að skyndilegum skoðanaskiptum, en hér hefur hæstv. fjmrh., að vísu á fjórum árum, gjörsamlega snúið við blaðinu og gerir nú það sem hann fordæmdi þá. Svona málflutningur er kannske ein meginástæða þess, hversu litla virðingu almenningur ber fyrir stjórnmálamönnum, að menn skuli leyfa sér að snúa svona gjörsamlega við blaðinu eftir því, hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, og aka þannig seglum eftir vindi.

Í öðru lagi flytjum við þá brtt., að niður falli 3. málsliður 9. gr., þ. e. að ríkissjóður veiti ekki ábyrgð á greiðslu vaxta og afborgana, eins og þar um ræðir, og lítum svo á að hér sé fyrst og fremst um fjárlagamál að ræða.

Við 16. gr. gerum við brtt., að í stað tölunnar 27 millj. 887 þús. komi 75 millj. og að í stað 43 millj. komi 90 millj. Það er algjör forsenda þess, að unnt verði að hækka lánahlutfall Byggingarsjóðs ríkisins í hinum ýmsu lánaflokkum, að heildarframlög ríkissjóðs til Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna verði ekki lækkuð frá því sem var samkv. eldri lögum. Þar að auki voru 2 prósentustig af launaskattinum af 31/2% samningsatriði við verkalýðshreyfinguna á sínum tíma og því er vandséð hvernig unnt er að breyta því eða fella það niður einhliða.

Þessi brtt. felur það í sér, að 1 prósentustig launaskattsins fari áfram til Byggingarsjóðs ríkisins og að Byggingarsjóður ríkisins fái úr ríkissjóði sem samsvarar fyrra byggingarsjóðsgjaldi af tekju- og eignarskatti og af innflutningi. En þrátt fyrir þessa brtt. vantar enn nokkuð upp á að byggingarsjóðirnir fái sameiginlega jafnmikil framlög úr ríkissjóði og eldri lög gerðu ráð fyrir.

Við 25. gr. höfum við gert brtt., þ. e. að fjmrh. verði heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að taka erlent lán á árinu 1981 fyrir jafnvirði 5 millj. kr. til að greiða eftirstöðvar við lagningu byggðalina á árinu 1980. Þetta teljum við eðlilegt.

Hins vegar er í seinni hluta þessarar brtt. okkar gert ráð fyrir því, að fjmrh. verði heimilt að taka fyrir hönd ríkissjóðs innlent lán allt að 25 millj. kr. til þess að greiða þau bráðabirgðalán vegna annarra framkvæmda á vegum ríkissjóðs 1980 sem voru tekin hjá Seðlabanka Íslands. Það stóðst ekki sú áætlun sem menn höfðu gert um öflun lánsfjár hér innanlands og því var gripið til þess að taka erlend bráðabirgðalán. Í ljósi batnandi stöðu í bankakerfinu ætti að vera unnt að taka þessi lán innanlands.

Við 27. gr. flytjum við að síðustu brtt. Hún er nánast í þá veru að 27. gr. verði óbreytt eins og hliðstæð grein var í lánsfjárlögum í fyrra, þ. e. að heimild til þeirra margháttuðu lántökuæfinga, sem gerð er nánari grein fyrir þarna í greininni varðandi Kröfluævintýrið, verði felld niður og greinin verði óbreytt eins og hún var í lánsfjárlögum 1980. Það, sem hér um ræðir og nú á að fara að færa inn í lánsfjárlög, er dæmigert fjárlagamál.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð öllu fleiri, enda orðið býsna áliðið, og læt máli mínu lokið.