05.11.1980
Neðri deild: 12. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í B-deild Alþingistíðinda. (350)

Umræður utan dagskrár

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt með því að þakka fyrir það tækifæri sem mér er gefið til að beina nokkrum fsp. til hæstv. menntmrh. utan dagskrár. Geri ég það í dag af þeirri einföldu ástæðu að ráðh. óskaði eftir að ég frestaði mátflutningi mínum í gær.

Að undanförnu hefur eitt aðalumræðuefni þjóðarinnar verið hinar rausnarlegu gjafir til menningarmála og líknarmála sem opinberum aðilum og hálfopinberum stofnunum hafa borist samkv. erfðaskrá hinna látnu heiðurshjóna Sigurliða Kristjánssonar og konu hans, Helgu Jónsdóttur. Ekki verður annað með sanni sagt en að framlag þessara heiðurshjóna geri íslensku þjóðina að betra samfélagi á skemmri tíma en annars hefði verið.

Þeir, sem þekktu Sigurliða og Helgu, vita um áhuga þeirra á velferð listamanna á hinum ýmsu sviðum. Sérstakan áhuga hafði Sigurliði á velferð ungra málara og styrkti þá með kaupum á málverkum þeirra og hvatti þá til dáða, enda góður frístundamálari sjálfur og hefði eflaust verið talinn listamaður hefði athafnamaðurinn í honum ekki verið málaranum yfirsterkari. Safnaði hann miklum fjölda málverka á þennan hátt. Kom mér því ekki á óvart, þegar erfðaskrá þessara heiðurshjóna var birt, að Listasafn ríkisins skyldi njóta góðs af. Það lýsti vel hve þau hjónin báru hag og framtíð Listasafnsins fyrir brjósti. Því var ég einn þeirra landsmanna sem urðu furðu lostnir þegar dagblöðin tóku að segja frá því, að Listasafn ríkisins hefði hafnað hluta af þeim arfi sem því var ætlað, að sögn 600 málverkum. Í Morgunblaðinu 1. nóv. birtist grein sem hljóðar svo, með leyfi forseta. Í stórri fyrirsögn segir:

„Afþakkaði nær 600 málverk úr dánarbúinu.“ Og greinin hljóðar svo: „Listasafn Íslands hefur afþakkað tæplega 600 málverk, sem hjónin Helga Jónsdóttir og Sigurliði Kristjánsson ánöfnuðu safninu í erfðaskrá.

Hins vegar hefur safnið þegið 25% af andvirði eigna dánarbús þeirra í fyrirtækinu Silli og Valdi.

Guðmundur Ingvi Sigurðsson hrl., einn þriggja skiptaforstjóra dánarbúsins, sagði í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi að Listasafnið hefði ekki talið sig hafa tök á að þiggja gjöfina. Hefðu málverkin þá gengið til lögerfingja þeirra hjóna, sem eru 11 að tölu.

Í fréttatilkynningu frá skiptaforstjórunum í gær kemur fram að í safninu voru tæplega 270 málverk eftir Sigurliða sjálfan. Stór hluti safnsins eru myndir eftir Matthías Sigfússon og aðrar myndir eru eftir ýmsa þjóðkunna málara, lifandi og látna.

Morgunblaðinu er kunnugt um að allmörg verk úr dánarbúinu eru komin í sölu hjá Klausturhólum við Laugaveg. Eru það myndir eftir Sigurliða, Matthías, Jóhannes Kjarval og ýmsa aðra.“

Nú er það svo, að í lögum um Listasafn Ístands segir í 1. gr.: „Safnið er eign íslenska ríkisins. Menntmrn. fer með yfirstjórn þess.“ — Ég mun ekki vitna frekar í þessa grein.

Í 2. gr. segir: „Aðalhlutverk listasafnsins skal vera: a. að afla svo fullkomins safns íslenskrar myndlistar sem unnt er, varðveita það og sýna.“

Ég leyfi mér að vitna í h-lið 2. gr. í lögum um Listasafn Íslands. Hann hljóðar svo: „að hafa umsjón með öllum listaverkum í eigu ríkisins, þótt þau séu geymd utan safnsins, nema þeim, sem geymd eru í Þjóðminjasafni eða falin þjóðminjaverði eða öðrum til umsjónar.“

Herra forseti. Ég leyfi mér að vitna í 7. gr. sömu laga, en þar segir:

„Forstöðumaður skal leita ákvörðunar safnráðs um eftirgreind atriði: a. kaup á listaverkum til safnsins, b. hvort veita skuli viðtöku gjöfum, er kunna að bjóðast, c. sérsýningar, er safnið kann að gangast fyrir, d. önnur mál, er forstöðumaður æskir, að safnráð fjalli um, eða mál, er minnst tveir safnráðsmenn æsk ja, að þar séu rædd og safnið varða.“

Ég tel ekki ástæðu til að vitna frekar í þessi lög. En grein birtist í Dagblaðinu mánudaginn 3. nóv. undir fyrirsögninni: „Vandamálapakki“ í gjöf allra alda.“ Síðan kemur aðalfyrirsögnin: „Listasafnið afþakkaði 600 málverk úr dánarbúi Sigurliða og Helgu. — Þar af voru 267 eftir Silla sjálfan.“ Í þessari grein, sem ég ætla að spara þingheimi og forseta að lesa alla, segir svo innan gæsalappa, og er vitnað orðrétt, að ég held, ef blaðið fer rétt með, í einn úr safnráði:

„Selma hefur verið í veikindafríi í Þýskalandi um nokkurt skeið“, sagði Hrólfur. „Það er stutt síðan hún kom heim og safnráðið hefur ekki verið kvatt saman enn þá.“

Hrólfur sagði enn fremur að safnráðið hefði fundað um gjöf Sigurliða og Helgu á sínum tíma. Hann neitaði að gefa upplýsingar um, hvort Selma hefði ákveðið upp á eindæmi að hafna gjöfinni, né heldur hvort ágreiningur væri innan safnráðs um málið.“

Ég er hér með fleiri greinar úr öðrum blöðum sem undirstrika hve stórkostlegar gjafir hafa borist opinberum aðilum, eins og segir hér, til Borgarleikhúss, til Íslensku óperunnar, til Listasafns ríkisins og til styrktar stúdentum. Þar kalla þessi blöð gjafir þeirra hjóna gjöf aldarinnar eða allra alda.

Eins og fram hefur komið í máli mínu heyrir Listasafnið — og vitna ég þar í 1. gr. laganna — undir menntmrn., sem ferð með yfirstjórnina. En það getur verið að ég ætti að beina orðum mínum og fsp. eitthvað annað vegna þess að í lögunum um Listasafn Íslands, eins og í flestum lögum sem samþykkt eru á Alþ., segir í 15. gr.: „Menntmrn. getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga.“ Það getur því verið að Íslandi sé í þessum efnum, eins og á margan annan hátt sem nú er að koma okkur í vanda, stjórnað samkvæmt heimildarákvæðum, þannig að embættismannakerfið sé hér að verki og heimilt sé að ganga fram hjá réttum aðilum, sem er safnráð, í töku ákvörðunar um að hafna eða samþykkja gjafir sem safninu berast.

Af því, sem ég hef nú sagt, vil ég leyfa mér að bera fram fjórar spurningar, sem ég hef þegar kynnt hæstv. menntmrh. eða þeim sem gegnir embætti í fjarveru menntmrh. Þær eru svo hljóðandi:

1) Hver tók ákvörðun fyrirhönd Listasafns ríkisins um að hafna þeirri gjöf sem Listasafni Íslands var ánafnað úr dánarbúi Sigurliða Kristjánssonar og Helgu Jónsdóttur?

2) Tók Listasafn Íslands við hluta af arfi eftir Sigurliða Kristjánsson og Helgu Jónsdóttur og þá, hvað var þegið og hverju var hafnað og á hvaða forsendum?

3) Er það rétt, að málverk þau, sem Listasafn ríkisins hafnaði, séu nú til sölu á hinum almenna sölumarkaði í Reykjavík?

Fjórðu spurninguna hafði hæstv. ráðh. ekki heyrt fyrr en í dag og ég ætlast ekki til að hann svari mér nú, en ég ætlast til að öllum þm. berist svar bréflega innan stutts tíma. Hún hljóðar svo: Vill hæstv. menntmrh. upplýsa hvaða listamönnum af þessum 600 var Listasafn ríkisins að hafna?

Fleiri eru spurningar mínar ekki, en ég vona að hæstv. ráðh. noti ekki þá „taktík“, sem virðist vera ofarlega hjá ríkisstj., að svara sem fæstu og þá með sem fæstum orðum líka, heldur gefi okkur greinargóð svör við þessum spurningum.