06.04.1981
Neðri deild: 71. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3460 í B-deild Alþingistíðinda. (3508)

209. mál, tollskrá

Frsm. minni hl. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst undirstrika að ég hef staðið í þeirri meiningu, að þær brtt., sem ég hef flutt, séu um breytingar á lögum sem gilda um það efni sem hér um ræðir, en ekki breytingar á heimildum sem eru í lögum. Við erum nú þannig gerðir, bæði þm. nú og þm. sem hafa verið á undan okkur, að við höfum verið að samþykkja hér lög að hálfu leyti og fela embættismönnum framhaldið. En ég ætla að gera hér tillögu um að fjmrh. sé ekki heimilt, heldur skylt að fella niður aðflutningsgjöld af gervilimum, eins og segir í brtt. sem ég flyt á þskj. 437, og mér finnst það svo sjálfsagt — ég get ekki gert að því — að ég á ekki von á einu einasta mótatkvæði, verð furðu lostinn ef það verður ekki samþykkt.

Við, sem njótum þeirrar gæfu að þurfa ekki á gervilimum að halda, eigum ekki að þurfa að eyða mörgum orðum um að styðja það fólk sem þarf á þeim að halda og verður að flytja gervilimi inn í landið vegna þess að þeir fást ekki eða eru kannske ekki nógu góðir í smíðum hér heima fyrir. Ég sé ekki nokkra ástæðu til þess að eyða orðum um það, enda var afskaplega lítið um þennan hluta af minni brtt. á þskj. 437 rætt í þingnefnd. Að vísu minntist ég á þá brtt., en ég fann að hún átti erfiðan aðgang að umræðum. Ég tók það því sem sjálfsagt að allir væru sammála um að þetta væri það mikið réttlætismál að það yrðu engar umræður um það og það yrði samþykkt.

En það furðulega gerðist í fjh.- og viðskn., að þegar fulltrúar Öryrkjabandalags og úthlutunarnefndar komu á okkar fund var nokkuð góður skilningur fyrir því að leysa eins vel og hægt væri vanda þeirra sem þurfa og eiga rétt til að fá niðurfellingu á aðflutningsgjöldum á bifreiðum. Umræðurnar fóru þó svolítið út af þeirri braut sem ég bjóst við að þær mundu haldast á, því að þær fjölluðu aðallega um þann vanda sem nm, gætu komist í ef þeir hefðu frjálsar hendur til að úthluta. Þeir vildu heldur takmarka töluna við ákveðinn bílafjölda en leysa vandamálið og afgreiða niðurfellingargjöld til allra þeirra sem vegna örorku eiga rétt á niðurfellingu. Ástæðan var sú, að það yrði of mikil vinna, of mikið álag á nefndarmennina sjálfa. Slík rök hlusta ég ekki á. Ég hlusta ekki á þau. Við eigum að leysa vanda allra þeirra sem eiga rétt, en ekki hluta þeirra sem eiga rétt.

En út úr þessum heimsóknum nefndarmanna kom þó ein breyting. Nefndarmönnum var fjölgað í sex úr fimm. Var það vegna þess að bifreiðunum var fjölgað úr 400 í 500? Ég veit það ekki. Ég sé enga ástæðu til að fjölga nm., þeir eru alveg nógu margir fimm. Þarna eru trúnaðarmenn fjmrh. og læknar sem eiga að skera úr um þörfina sem umsækjandinn hefur fyrir niðurfellingu.

Það voru önnur rök á móti því að gefa þetta frjálst á þann hátt sem ég legg til: hugsanlegt tekjutap ríkissjóðs. Á hverju tapar ríkissjóður? Það fólk, sem á rétt á niðurfellingu vegna örorku sinnar, kaupir einfaldlega ekki bíl ef það fær ekki þessa niðurfellingu. Það er ekki að taka neitt frá heilbrigðu fólki, ef að það er óttinn við frelsið í þessu máli. Það verða bara fleiri bílar fluttir inn af þeim sem eiga rétt til niðurfellingar, og þar að auki aukast tekjur ríkissjóðs, en minnka ekki.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta langt mál, en vona að hv. þdm. átti sig vel á þessu máli. Málið er einfaldlega það, að við höfum frá einum tíma til annars, frá einni kynslóð til annarrar verið í þingsölum að fjölga þeim bílum sem öryrkjar fá niðurfellingu tolla af. Það þýðir að þm. frá einum tíma til annars eru sammála um að hér sé verið að stíga skref í rétta átt og það sé verið að afgreiða gott mál í áföngum. Talan hefur hækkað, ég veit ekki hver hún var fyrst, en hún hefur hækkað smátt og smátt og jafnvel frá því að þetta mál fór út úr þingnefndinni sem slíkri. Þá var talað um 500, en þegar málið kemur svo fram núna eru bílarnir orðnir 550 til þess að ná samstöðu um málið. Við erum að afgreiða gott mál í áföngum. Af hverju ekki að afgreiða málið fyrir fullt og allt?

Ég vil benda á nokkuð sem gæti verið dálítið villandi. Hér er talað um 550 bifreiðar fyrir fólk sem er fatlað á svo háu stigi að það á erfitt með að fara ferða sinna án farartækis. — Ég er hér að vitna í brtt. meiri hl. fjh.- og viðskn. á þskj. — En í lið 2 stendur: Í stað „25“ í 3. málsgr. 1. gr. komi:40. Hér gæti fólk hugsað að það væri þá samtals að ræða um 590 bíla. Svo er ekki. Það er átt við 40 af þessum 550 sem meiri niðurfelling er leyfð á en hinum 510. Samtals eru bílarnir 550. Þessa get ég svo að menn hafi örugglega rétta tölu í kollinum.

Ég ætla nú að hjálpa til við að koma þessu máli eins hratt í gegnum þingnefndir og Alþingi og mögulegt er. Ég mun því ekki halda miklu lengri ræðu. En ég vil taka það fram, að ég er að sjálfsögðu hlynntur og mun styðja till. meiri hl. fjhn. ef mínar brtt. verða felldar. Ég tel þær spor í rétta átt, þó ég telji að þar sé ekki nærri nógu langt gengið, og því hef ég flutt hér sérnál. á þskj. 575. Ég vil — með leyfi forseta — lesa það upp og láta það nægja sem grg. fyrir minni afstöðu, en það hljóðar svo:

„Á fundum n. hafa þeir aðilar, sem komið hafa til viðtals við n., talið ógjörlegt að hafa úthlutun bifreiða til öryrkja miðaða við ótiltekinn fjölda, því það mundi gera úthlutun erfiðari í framkvæmd. Hefur meiri hl. n. því frekar fallist á að fjölga nokkuð þeim bifreiðum, sem úthluta má með eftirgjöfum á aðflutningsgjöldum, sem ég tel skref í rétta átt, þó skoðun mín sé sú, að ekki eigi að takmarka úthlutun sem þessa við ákveðna tölu farartækja, heldur á að láta þörfina ráða og leysa mál allra sem rétt hafa til niðurfellingar á aðflutningsgjöldum, en ekki einvörðungu einhverra útvalinna.

Einnig tel ég að fella eigi niður tolla og aðra skatta af gerfilimum og fleira, í stað heimildarákvæðis sem er í gildandi lögum.“

Ég vona að brtt. mínar nái eyrum hv. þdm.