06.04.1981
Neðri deild: 71. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3464 í B-deild Alþingistíðinda. (3512)

209. mál, tollskrá

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja umr. Ég vil aðeins lýsa yfir stuðningi við till. fjh.- og viðskn. um þetta mál um leið og ég legg áherslu á að þetta mál nái hér fram að ganga.

Ég vek athygli á því, að þm. hafa haft áhuga á því að leiðrétta þetta mál. Þegar þetta var tekið upp af þm. Framsfl. á þingi 1978 og aftur 1980 var það fyrst og fremst gert til þess að ná fram sjálfsagðri leiðréttingu og koma til móts við samtök öryrkja í sambandi við þessi mál.

Ég vil einnig vekja athygli á því, að samtök öryrkja hafa í öllum sínum samþykktum viljað hafa takmörkun á bifreiðafjölda við þessa úthlutun.

En það er ekki þetta sem ég ætlaði að ræða sérstaklega, heldur vil ég láta það koma hér fram að gefnu tilefni, að mér er kunnugt um að samtök fatlaðra eru einmitt nú að samræma kröfur sínar um ýmis réttindamál, sem ég vænti að þm. sjái sér fært að afgreiða í löggjöf á næsta þingi í tilefni árs fatlaðra. Ég tel ástæðu til að undirstrika að það er einmitt þetta fólk sjálft sem veit best hvar skórinn kreppir og það er mjög mikilvægt að samtök þess komi sér saman um þær kröfur sem það telur ástæðu til að leggja sérstaka áherslu á hverju sinni.

Um leið og ég lýk máli mínu vil ég taka eitt mál til meðferðar, þá nauðsyn að auka rétt þessa fólks til að fá lán hjá Tryggingastofnun ríkisins og að slík lán fáist án þess að tekjutryggingarákvæðinu sé beitt. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að einmitt þetta atriði sé skoðað sérstaklega því að ég er hræddur að í mörgum tilfellum komi tekjutryggingarákvæðið víða við og komi í veg fyrir tímamöguleika og önnur réttindi mörgu fötluðu fólki til handa. Þetta þarf að leiðrétta.