06.04.1981
Neðri deild: 71. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3467 í B-deild Alþingistíðinda. (3516)

209. mál, tollskrá

Frsm. meiri hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Þótt mér finnist menn halda hér óþarflega margar ræður og langar um þetta mál kemst ég ekki hjá því að gera hér tvær athugasemdir.

Í fyrsta lagi verð ég að segja að það þarf ekki endilega að vera af hinu slæma þó að nefnd líti á mál. Við verðum að krefjast þess að við getum í þinginu fjallað um málin af bærilegri skynsemi.

Við höfum haldið marga fundi um þetta mál. Ég hef farið sem formaður nefndarinnar á fund þeirrar nefndar, sem fjallar um þessar úthlutanir, og kynnt mér starf hennar. Það er náttúrlega ákveðinn lágmarkstími sem þarf til að fjalla um mál hér á Alþingi og menn eru oft að kvarta yfir því, en vegna þess að við höfum tekið þetta mál til nokkurrar umfjöllunar finnst mönnum aftur á móti að það hafi dregist allt of lengi. Því er ég út af fyrir sig sammála, málið hefur dregist lengi, en ég tel að nefndinni sem slíkri verði ekki þar kennt um.

Ég vil vekja athygli á því, að brtt. meiri hl. n. gengur lengra en brtt. Alberts Guðmundssonar af þeim ástæðum að við rýmkum skilgreininguna. Hann gerir það ekki. Við fjölgum úr 25 í 40 þeim bifreiðum sem er úthlutað til þeirra sem mestir eru öryrkjar. Hann gerir það ekki. Við setjum að vísu hámark við 550. Hann setur ekkert hámark. En ég tel okkar tillögu algjörlega fullnægjandi lausn, og þeir, sem gleggst þekkja til þessara mála, eru því sammála.

Varðandi síðasta liðinn, heimildina, til að fella niður gjöld af gervilimum: Ég vil ekki láta því ómótmælt, að mér virtist það koma fram í máli Alberts Guðmundssonar að við værum sumir hverjir mótfallnir slíku. Það er algjörlega rangt. Eins og kom fram í máli fjmrh. eru slíkar heimildir að sjálfsögðu alltaf notaðar. En menn verða að skilja það, að þegar sérstök heimildagrein er í lögunum verða menn annaðhvort að breyta allri heimildagreininni í skyldugrein eða hafa heimildina áfram. Ég hélt að þetta væri svo einfalt mál að það þyrfti ekki að rökræða það hér á Alþingi. Ég er bókstaflega mjög hissa á því, á sama hátt og hv. þm. Albert Guðmundsson virtist vera hissa að það yrði ekki hver einasti maður samþykkur þessari till., að það skuli þurfa að ræða svona mál hér á Alþingi.