07.04.1981
Efri deild: 73. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3469 í B-deild Alþingistíðinda. (3525)

292. mál, Þróunarsamvinnustofnun Íslands

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Eitt þeirra viðfangsefna, sem verða æ þýðingarmeiri með ári hverju á sviði alþjóðamála, er sú umræða sem fram hefur farið, aðallega á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, um samskipti ríkra þjóða og snauðra. Veigamikið atriði í því máli er sú krafa þróunarlanda, að aukin verði aðstoð til þeirra frá iðnríkjunum sem geri þeim síðan kleift að standa á eigin fótum. Fyrir u. þ. b. 11 árum var samþykkt á þingi Sameinuðu þjóðanna ályktun um að stefnt skyldi að því marki, að iðnríkin verji a. m. k. 1% af þjóðartekjum sínum til stuðnings þróunarríkjunum. Þessu marki skyldi náð eigi síðar en við lok síðasta áratugs.

Raunin hefur hins vegar orðið sú, að aðeins örfáar þjóðir hafa náð þessu marki. Frændur okkar á Norðurlöndum, þ. e. Svíar, Danir og Norðmenn, eru þar fremstir í flokki ásamt Hollendingum. Auk þess hafa nokkur olíuflutningsríki náð þessu marki á s. l. fimm árum. Framlög Íslendinga til þessara mála hafa ávallt verið af mjög skornum skammti eða 0.05%–0.06% af þjóðartekjum.

Skömmu eftir að áðurnefnd ályktun var samþykkt á þingi Sameinuðu þjóðanna samþykkti Alþingi lög um Aðstoð Íslands við þróunarlöndin. Í þeim lögum er m. a. mörkuð sú stefna, að unnið skuli að því að framlög Íslendinga nái því að vera 1% af þjóðartekjum. Aðalverkefni þessarar stofnunar er að annast tvíhliða samstarf við þróunarlöndin.

Fyrstu árin eftir að stofnuninni var komið á fót var einkum unnið að því á hennar vegum að Ísland gerðist þátttakandi í norrænu þróunarsamstarfi. Gerðist Ísland aðili að svo nefndum Oslóar-samningi Norðurlandanna um samvinnu þeirra á milli um aðstoð við þróunarlönd á miðju ári 1973.

Því takmarkaða fé, sem veitt var til þróunaraðstoðar árin 1972–1973, var að mestu varið til fiskveiðiverkefna á Indlandi. Árin 1974–1978 gekk það fé, sem veitt var til þróunaraðstoðar, nærri óskipt til þeirra samnorrænu verkefna sem Ísland gerðist aðili að á grundvelli Oslóar-samningsins. Í upphafi var um þrjú slík verkefni að ræða. Tvö svokölluð samvinnuverkefni í Kenýa og Tansaníu og landbúnaðarverkefni í Tansaníu. Síðan bættust svo við landbúnaðarverkefni í Mosambique.

Allmargir Íslendingar hafa verið ráðnir til starfa við norrænu samvinnuverkefnin í Kenýa og Tansaníu. Er þar einkum um að ræða starfsmenn íslensku samvinnufélaganna auk nokkurra sérfræðinga með viðskiptamenntun og reynslu í því að byggja upp fyrirtæki. Hafa þessar þjóðir, einkum Kenýamenn, talið samvinnufyrirkomulag henta við uppbyggingu atvinnulífsins. Er ekki annað vitað en að Íslendingar hafi getið sér góðan orðstír við störf sín á þessum vettvangi. Segja má því að það sé verulegur ávinningur fyrir Íslendingana að hafa þannig eignast talsverðan hóp manna sem góða þekkingu hefur á málefnum þróunarlandanna.

Árið 1978 var gerður fyrsti samningur Íslands um tvíhliða verkefni við Kenýastjórn. Er þar um að ræða sérstakt verkefni á sviði fiskveiða, sem kostað er að hluta af Íslendingum, og hefur íslenskur sérfræðingur verið þar frá því haustið 1978. Stofnunin hefur greitt laun hans og enn fremur veiðarfærakostnað að töluverðu leyti. Árangur í starfi þessu hefur verið jákvæður og Kenýastjórn lagði áherslu á að samningur þessi yrði framlengdur en hann rann út á s. l. ári. Eftir áratnótin 1979–80 var hafist handa um að hrinda í framkvæmd næsta tvíhliða verkefni og jafnframt því umfangsmesta sem stofnunin hefur lagt í. Er hér um að ræða fisveiðiverkefni á Cabo Verde, en á vegum aðstoðarinnar hófst undirbúningur þess sumarið 1977. Hófst verkefnið á s. l. ári og er ætlað að það standi í eitt og hálft ár. Til starfseminnar var keypt 200 lesta stálskip og eru fjórir Íslendingar starfandi við verkefnið. Við nokkra byrjunarerfiðleika var að stríða á s. l. ári, en nú eftir áramótin hefur gengið mun betur og töluvert aflast. Eins og við var að búast hefur það reynst tímafrekara en vonast var til að finna góð fiskimið við eyjarnar, en svo sem áður var sagt hefur nokkuð rofað til á því sviði á síðustu tveimur mánuðum.

Það hefur auðvitað ýmislegt skeð á þeim tíu árum sem liðin eru frá því að samþykkt var á sínum tíma frv. um aðstoð við þróunarlöndin. Því var það að stjórn þess starfs fór þess á leit við utanrrh. fyrir u. þ. b. tveimur árum að hann hlutaðist til um endurskoðun á lögunum. Hann gerði það og fól stjórn stofnunarinnar að framkvæma þá endurskoðun. Og það má segja að þetta frv., sem hér liggur fyrir og ætlað er að koma í stað og leysa af hólmi lögin frá 1970, sé samið af stjórn þessarar stofnunar.

Það eru nokkur nýmæli í þessu frv. Nú er skipt um heiti á stofnuninni og hún kölluð Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Það er ekki heppilegt heiti og væri gott ef menn gætu fundið eitthvert betra heiti.

Annað nýmælið er það, að skilgreint er miklu nánar verkefni og hlutverk stofnunarinnar en gert er í núgildandi lögum.

Þriðja nýmælið er það, að ákveðið er að skattakjör manna, sem vinna á vegum þessarar stofnunar, skuli vera hin sömu og þeirra manna sem vinna á vegum annarra alþjóðastofnana.

Fjórða nýmælið er það svo, að breytt er um fyrirkomulag á stjórn stofnunarinnar. Núna eru fimm menn í stjórn Aðstoðar Íslands við þróunarlöndin. Þeir eru allir kosnir af Alþingi og reyndar er kjörtími þeirra víst útrunninn fyrir nokkru, en þeirra tímabil hefur nú verið framlengt. Í þessu frv. er lagt til að stjórn þessarar stofnunar verði skipuð sjö mönnum, utanrrh. skipi einn, en sex séu kjörnir af Alþingi.

Þetta eru, herra forseti, held ég aðalnýmælin í þessu frv., en kannske eru einhver minni háttar nýmæli sem þar er um að tefla.

Þetta frv., þó að lögum verði, skiptir út af fyrir sig engum sköpum í þessu máli. Það, sem er aðalatriðið, er hvort Alþingi verður reiðubúið til að veita meira fé til þessa verkefnis en gert hefur verið að undanförnu. Við erum þar mjög aftarlega. Ég held að ef við t. d. ættum að komast tiljafns við Finna, sem eru heldur aftarlega í hópi, þá mundu okkar framlög þurfa sennilega að fjórfaldast eða fimmfaldast jafnvel. En það eru engin ákvæði um það í þessu frv. hvert fjárframlagið skuli vera. Það er lagt á vald fjárveitingavaldsins. Og það fer auðvitað eftir því, hvort fjárveitingavaldið sér sér fært að veita meira fé til þessarar starfsemi en verið hefur hvort verulegur árangur getur orðið af starfi Íslands á þessum vettvangi. Eilítið hefur þetta framlag verið hækkað, en það er auðséð að betur má ef duga skal ef við eigum að taka virkan þátt í þessu.

Herra forseti. Það mætti margt um þetta mál segja, en ég skal ekki tefja tíma deildarinnar með því að rekja það. Sú nefnd, sem fær málið til meðferðar, athugar það að sjálfsögðu nánar og getur þá fengið frekari upplýsingar frá ráðuneytinu eða stjórn áðurnefndrar stofnunar.

Ég leyfi mér að óska eftir að frv. verði vísað til 2. umr. og allshn.