07.04.1981
Efri deild: 73. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3474 í B-deild Alþingistíðinda. (3533)

209. mál, tollskrá

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að mæla hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum um tollskrá með síðari breytingum.

Eins og kunnugt er eru þau ákvæði í núgildandi lögum, að lækka megi eða fella niður gjöld af allt að 400 fólksbifreiðum fyrir fólk sem er fatlað á svo háu stigi að það á erfitt með að fara ferða sinna án farartækis. Í lögunum er raunar öllu nákvæmari skilgreining á þessari fötlun og þeim sjúkdómum sem þarna geta komið til greina. Lækkun þessara gjalda er bundin við ákveðna krónutölu og fjmrh. er ekki heimilt að breyta þeim fjárhæðum, sem þar eru greindar, án þess að leggja það mál fyrst fyrir Alþingi.

Þegar frv. þetta var lagt fram var gert ráð fyrir að bifreiðunum yrði fjölgað í 500 úr 400, en við meðferð málsins í Nd. hefur sú tala enn verið hækkuð í 550 og þá gert ráð fyrir því, að fleiri njóti þessa ákvæðis en fyrri skilgreining gerði ráð fyrir. Er þar fyrst og fremst um að ræða fólk sem er þannig fatlað að það getur ekki sjálft ekið bílnum, og er þá gert ráð fyrir að aðrir verði til að aka því.

Í frv. eru fjárhæðir hækkaðar allverulega og er gert ráð fyrir að lækkun gjalda af hverri bifreið megi nema allt að 12 þús. kr,., en heildarlækkun að meðtöldu innflutningsgjaldi allt að 24 þús. kr. Er hér um að ræða um 60% hækkun frá því sem áður var. Auk þess er fjmrh. heimilt að breyta þessum fjárhæðum héðan í frá til samræmis við þróun framfærsluvísitölu og vegna breytinga sem kunna að verða á aðflutningsgjöldum af bifreiðum.

Í núgildandi lögum er gert ráð fyrir að öryrki geti fengið eftirgjöf gjalda af bifreið að nýju að fimm árum liðnum. En í frv., sem hér liggur fyrir, eru þessi tímamörk lækkuð í fjögur ár. Eins er þess getið í núgildandi lögum, að öryrki, sem fær eftirgjöf samkv. 3. málsgr. laganna en þar er rætt um sérstaklega útbúnar bifreiðar sem eru dýrari en aðrar bifreiðar og fæst þá enn frekari eftirgjöf en í hinu fyrra tilviki — geti sótt um eftirgjöf að nýju að fjórum árum liðnum. Í frv. er gert ráð fyrir að þessi tímafrestur sé styttur í þrjú ár.

Frv., sem hér um ræðir, hefur tekið lítils háttar breytingum í Nd. eins og ég hef þegar gert grein fyrir. Er það fyrst og fremst að fjöldi bifreiðanna er hækkaður úr 500 í 550 og að þessar seinast töldu bifreiðar, sem ég nefndi að væru sérstaklega útbúnar, mega vera allt að 40 í staðinn fyrir 25 eins og var upphaflega í frv.

Ég vil vekja á því athygli, að 2. gr. frv. fjallar um annað og nokkuð óskylt mál. Þannig er mál með vexti, að þegar bifreiðar eru fluttar til landsins er talið óhjákvæmilegt að þær verði strax ryðvarðar. Hefur verið heimilað að þær væru ryðvarðar án þess að þær fengju tollmeðferð. Þetta þykir dálítið hæpin regla frá lagasjónarmiði, auk þess sem það hefur verið gagnrýnt, að fyrirtæki hafa ekki staðið jafnt að vígi í þessum efnum. Er því sú regla hér sett til að auðvelda það að þessi mál geti gengið fyrir sig með eðlilegum og löglegum hætti, að fyrirtæki, sem annast ryðvörn hér á landi eða aðra gilda starfsemi, geti fengið bifreiðarnar til ryðvarnar til að forða þeim frá ryðgun eða öðrum skemmdum. Frvgr. er að vísu mjög almennt orðuð. Þar er hvorki talað um ryðvörn eða bifreiðar, heldur er talað um tímabundna afhendingu vara til þess að fram geti farið á þeim nægileg aðvinnsla til að forða þeim frá rýrnun eða öðrum skemmdum. En þetta er fyrst og fremst raunhæft í sambandi við ryðvörn þó að skyld tilvik gætu hugsanlega í framtíðinni fallið undir þessa klausu.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.