07.04.1981
Efri deild: 73. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3475 í B-deild Alþingistíðinda. (3535)

289. mál, söluskattur

Flm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 590 höfum við hv. þm. Stefán Guðmundsson, Egill Jónsson og Eiður Guðnason leyft okkur að flytja frv. til l. um breyt. á lögum um söluskatt, með síðari breytingum. Þetta varðar almenna heimild varðandi niðurfellingu söluskatts hjá hinum svokölluðu húseiningaverksmiðjum eða þeim verksmiðjum sem framleiða hús af ýmsu tagi. Nú er komin í lög heimild fyrir því að fella niður söluskatt af þeirri vinnu sem er sambærileg vinnu á byggingarstað, en hún einskorðast við íbúðarhús. Við leggjum til að við 1. tölul. 7. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðist svo:

„Heimild þessi nái einnig til barnaheimila, leikskóla, félags- og safnaðarheimila og atvinnuhúsnæðis.“

Með þessu fylgir svohljóðandi grg. sem ég og vil leyfa mér að lesa, með leyfi forseta:

„Á sínum tíma flutti 1. flm. þessa frv. ásamt öðrum frv. um að öll vinna hjá húseiningaverksmiðjum samsvarandi vinnu á byggingarstað yrði undanþegin söluskatti svo sem er um aðrar húsbyggingar.

Frv. var borið fram beinlínis til þess að koma á fullu jafnrétti hjá þeim sem byggja verksmiðjuframleidd hús, samanborið við þá framkvæmdaaðila sem framkvæma allt á byggingarstað.

Þetta frv. náði ekki fram að ganga. Hins vegar flutti þáv. fjmrh. frv. sem lögfest var, en heimildin í þeim lögum einskorðast við íbúðarhús. Þetta var vissulega mikilvægur áfangi og létu flm. fyrra frv. þar við sitja. Nú hefur orðið mikil aukning á verksmiðjuframleiddum húsum almennt og allt er það til hagsbóta fyrir byggingariðnaðinn í landinu og enn frekar fyrir húsbyggjendur og þá aðra er í byggingarframkvæmdum standa.

Til að fullt jafnrétti náist þarf víðtækari heimild, almenna og altæka, eins og var í upphaflegu frv. um mál þetta. Flm. telja hins vegar að nú sé að næsta áfanga komið þó ekki verði fullu jafnrétti náð. Þar hljóta framkvæmdir, sem ríkið fjármagnar að miklu leyti, að vera í fremstu röð og því er í frv. fyrst og fremst að þeim framkvæmdum vikið (þ. e. barnaheimilum, leikskólum, félags- og safnaðarheimilum).

Miðað við ákveðna eftirspurn á verksmiðjuframleiddu húsnæði til atvinnurekstrar — iðnrekstrar einkanlega (varðandi hugsanlega iðngarða), þykir flm. rétt að láta það fylgja með enda um leið ákveðinn stuðningur við innlendan iðnað almennt.“

Nefndin skoðar það að sjálfsögðu hvort henni þyki þarna of langt gengið og hvort þessi heimild eigi eingöngu að ná til fyrstu fjögurra liðanna, sem taldir eru upp, og þessu verði sleppt.

Við viljum aðeins benda á það, að við höfum vissa löngun til að taka sumarhús hér inn í einnig, ekki vegna þess að við berum mikla umhyggju fyrir sumarbústaðaeigendum. En það er hvort tveggja, að hér er um upplagt verkefni að ræða fyrir þessar verksmiðjur, og ekki síður hitt að það er farið að bera allmikið á innflutningi á slíkum sumarhúsum. Ef við gætum fengið þau verksmiðjuframleidd hér, eins og nú er hægt, og söluskattinn af þeim numinn, þá mundum við geta verið nokkurn veginn samkeppnisfærir við þessi innfluttu hús. En það munum við ekki vera eins og málum er háttað í dag. Þetta mætti athuga í nefnd. Við leggjum ekki á þetta neina ofuráherslu.

Ég vil svo að öðru leyti gera þá grein fyrir málinu, að áður en til frv.-flutnings af þessu tagi kom höfðum við sambandi við hæstv. fjmrh. um þetta mál. Hann taldi sjálfsagt að nefnd hér í þinginu fengi þetta til skoðunar og menn í hans ráðuneyti, því að hann væri mjög hlynntur því, að þessi heimild yrði víðtækari en hún hefur verið, enda nauðsynlegt að efla einmitt þann byggingariðnað sem hér er á ferðinni, en hann hefur tvímælalaust leitt til þess, að menn hafa komist fyrr í hús sín og menn hafa komist í ódýrari hús einnig.

Að þessum orðum sögðum legg ég til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.