07.04.1981
Efri deild: 73. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3477 í B-deild Alþingistíðinda. (3537)

258. mál, ný orkuver

Egill Jónsson:

Herra forseti. Það er nú reyndar ekki af miklu tilefni sem ég þarf að kveðja mér hér hljóðs öðru sinni í þessum umr. því að þessar umr. hafa allar verið með þeim hætti, að mikils friðar virðist gæta í kringum orkumálin og langflestir ræðumenn hafa tekið það hér fram, að um þau þyrfti að verða gott samkomulag, svo stór þáttur sem þau ern í málaákvörðunum um þessar mundir.

Það hæfir ekki að þm. af Austurlandi geri hér mikinn ágreining um, og ég hygg að menn hafi kannske getað greint það í máli okkar allra, sem hér höfum talað, þm. Austurlands, að þar sé á ferðinni mikil tilhneiging til þess að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Vil ég ekki síst í þeim efnum minna á þá ræðu sem hæstv. viðskrh. flutti fyrr í þessari umr., þar sem hann í rauninni tók mjög undir okkar tillögugerð og talaði algjörlega í þeim anda sem Austfirðingar hafa gert að sínu máli og sínum till. í þessum efnum, eins og reyndar ég hef gert líka. Er það nokkurt dæmi um það, að menn vilja gjarnan eiga hér samleið eða a. m. k. leita allra leiða til þess meðan annað kemur ekki fram sem veldur því að leiðir kunna að skilja.

Það eru aðeins tvö atriði sem ég vildi gjarnan gera hér athugasemd við í ræðu hæstv. iðnrh., sem hér er nú að vísu ekki staddur. Það er í fyrsta lagi þar sem hann talar um að það hafi ekki tafið virkjanir hér á landi, að heimildir til virkjana hafi ekki verið fyrir hendi. Það má reyndar segja að svo hafi ekki verið — og af því að hæstv. ráðh. var að ganga hér inn í deildina er rétt að ég endurtaki það sem ég var að segja. Það var að ráðh. hafi talið í sinni ræðu að það hafi ekki tafið fyrir virkjunum hér á landi, að ekki hafi verið lagaheimildir fyrir hendi. Þetta er trúlega alveg rétt. Og það getur vel verið að ef um það er að ræða, að tregða sé frá hendi hæstv. ráðh. í þeim efnum, þá megi skýra það með einu litlu máltæki: Brennt barn forðast eldinn. Sú var tíðin að þessi hæstv. ráðh. notaði sér heimildir til virkjunar á Austurlandi, sem reyndar var svo kippt til baka af öðrum ráðh. rétt á eftir.

En annað mál er það, að það lærist líka af slíku, og ég óttast ekki að því fylgi nein slys þótt heimildir séu fyrir hendi. Og grundvöllur samstöðu í þessum málum er virkilega sá, að þar verði tekið stórt fyrir og fundin verkefni sem gera kleift að takast á við þessi viðfangsefni.

Annað atriði, sem ráðh. er búinn að tala mikið um tvívegis í þessari umr., er stóriðjuþátturinn. Það er vissulega eðlilegt að um hann sé talað, ekki síst í sambandi við Austurlandsvirkjun. Og það er ekki alveg laust við það, að í máli ráðh. gæti þar nokkurs tvískinnungs. Hæstv. iðnrh. talar um að það sé út af fyrir sig ekki óeðlilegt og hann sé því jafnvel hlynntur, að stofnað sé til stóriðju á Austurlandi, og þá er það að sjálfsögðu til þess að mæta m. a. óskum Austfirðinga þar um. Síðan kemur framhaldið og þá kveður jafnan við annan tón. Þá er talað um allra handa hættur sem fylgja þessari stóriðju, m. a. hlutdeild útlendinga í þessum rekstri og annað þar fram eftir götunum. Það sem skiptir að sjálfsögðu máli í þessum efnum, er að tekið sé til hendinni. Það kunna að verða á vegi okkar í þeim efnum ýmsir erfiðleikar og vafalaust skeður eitthvað þar í samningaumleitunum sem við hér á þessu landi getum ekki fellt okkur við. M. a. hlýtur að koma þar mjög sterklega til athugunar eignaraðild að þessum fyrirtækjum. Þetta skýrist í samningaviðræðum. Það hefur enginn verið að setja það fram sem skilyrði fyrir því, að stóriðja verði stofnsett hér á landi, að útlendingar ættu þar meiri hluta í. Það er sem sagt alveg hægt að taka ákvarðanir um samninga án tillits til þessa. Hér er að sjálfsögðu um það að ræða, að ráðh. er í nokkrum vanda í sínum stjórnmálaflokki, og er ekkert um það að segja hér frekar.

Það var mikið eftir því kallað af hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni, að við segðum til um hagkvæmni stóriðju við Reyðarfjörð og hvaða hlutdeild hún gæti þannig átt í virkjun á Austurlandi. Ég minni á það í þessu sambandi, að þm. Sjálfstfl., 19 að tölu, hafa lagt fram till. um stóriðjumál í Sþ. og þar er tilgreint hvaða verkefni það eru sem við leggjum áherslu á að verði tekin upp í sambandi við viðræður um orkufrekan iðnað. Við höfum lagt það til fyrr á þessu þingi, að þar verði tekið myndarlega til hendinni, og það situr síst á þm. Alþb. að vera með ákúrur í okkar garð þar um. Ég hef ekki orðið var við að það kæmu fram till. hér á Alþingi frá Alþb. í þeim málaflokki.

Eins og ég tilgreindi hefur líka þar fyrir utan verið unnið að þessum athugunum og menn hafa að vísu ekki allir verið jafnhrifnir af því. Ég minni á það, sem ég gat um áðan, þá vinnu sem byggðarlögin við Reyðarfjörð kostuðu til að unnin yrði. Ég minni á það sem gert var af stóriðjunefnd, og okkur þm. Austurl. og kannske fleirum hefur borist skýrsla frá iðnrn. um ákveðna tegund af stóriðju við Reyðarfjörð.

Í máli hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar kom fram ein ákaflega mikilvæg og sönn ábending. Hann sagði frá því, sem menn geta trúlega fallist á, að samningur um stóriðju, samningsgerð um stóriðju tekur að sjálfsögðu sinn tíma, hún tekur kannske ár, hún tekur kannske eitt og hálft ár, hún tekur kannske tvö ár. Það er nokkuð svipaður tími og þarf til þess að hanna Fljótsdalsvirkjun og bjóða hana út. Og einmitt á þessu vil ég vekja sérstaka athygli, að ef eftir því verður beðið að fyrir liggi samningar um sölu á orku frá Fljótsdalsvirkjun, ef það er virkilega skilningur manna að ganga eigi frá þeim samningum áður en ákvörðun verður tekin, þá getur orðið dráttur á þessari virkjun. Við höfum skýrt það hér, bæði ég og hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson, hvað við eigum við. Og það er einfaldlega það, að hafist verði handa um það tvennt: að hanna virkjun í Fljótsdal og leita eftir stóriðjukosti og hefja samninga við tiltekna aðila þar um. Þetta er eina leiðin sem fyrir hendi er til að flýta þessari virkjun, ef hún á ekki að vera í sérstakri samkeppni við aðra virkjunarkosti hér á landi. En á það vil ég leggja áherslu, að það er ekki stefna Sjálfstfl. (Gripið fram í: Hvað er ekki stefna Sjálfstfl.?) Það er að það sé stríð á milli manna um virkjunarkosti hér á landi.

Það hefur verið bent á þrjár leiðir um virkjunartilhögun og virkjunarhraða. Þeirri fyrstu, sem ég ætla að nefna, fylgja að sjálfsögðu ekki miklar meiningar. Þó hefur verið imprað á þeirri leið í þessum umr. Hún er sú að skrúfað yrði fyrir þá stóriðju sem nú er hér á landi og orkan notuð til annarra þarfa hér innanlands. Þetta þýddi það, að við þyrftum ekkert að virkja fram til næstu aldamóta. Við hefðum þannig tvo áratugi til þess að rífast um næstu virkjun. Þennan kost geri ég nú ekki ráð fyrir að neinn maður aðhyllist.

Önnur leiðin er sú að virkja fyrir hinn hefðbundna markað hér innanlands, þ. e. að í virkjunaráformum okkar á næstu árum verði ekki orkusala til stóriðjuframkvæmda. Þetta gildir að þær virkjanir, sem við erum sérstaklega að ræða um í okkar frv. um ný orkuver, þ. e. í Fljótsdal, við Blöndu og svo á Þjórsársvæðinu, mundu duga líklega fram í 10 fyrstu ár næstu aldar. Ef sú stefna verður valin verður að sjálfsögðu að meta það, á hvaða virkjunum á að byrja. Og það er alveg augljóst, að um það hljóta menn að hafa ærið skiptar skoðanir og þar er ekki hægt að taka ákvarðanir, sem menn verða almennt ánægðir með, bara út frá einhverjum tilteknum hagkvæmnisjónarmiðum sem, eins og við vitum, geta alltaf orkað tvímælis.

Þetta er leiðin án stóriðju, þetta er stefna líka, þetta er stefna út af fyrir sig, og einmitt um þennan þátt hefur frsm. áður fjallað og óþarft að endurtaka það. En það hefur kannske ekki komið nógu skýrt fram hjá okkur fyrr, sem þó allir vita, að þetta er leið átaka, þetta er leið þar sem ekki verður komist fram hjá því að átök verði um virkjunarröð.

Þriðji kosturinn er svo sá að taka þessa orku til notkunar á miklu skemmri tíma og selja hana til orkufreks iðnaðar. Það er sú stefna sem felst í okkar frv. um nýjar virkjanir og er líka í samræmi við þáltill. okkar um iðjumál.

Þegar menn athuga þetta með þessum hætti, þá er alveg ljóst að afstaða okkar byggist á tilteknum markmiðum í orku- og iðjumálum. Hún byggist á því, að þær virkjanir, sem við hér tilgreinum, komi til nota fyrir þjóðina á næsta áratug og að tekið verði til hendinni þegar í stað við að fá notið þeirrar miklu orku sem allra fyrst. Og það er af þessari ástæðu sem við leggjum til að virkjanirnar raðist af sjálfu sér.

Ég veit að við höfum ekki alveg sömu skoðun á þessum málum, ég og hæstv. iðnrh., og það er alls ekki nein þörf á því að gera úr þessu mikið mál. Ég veit að við munum, þm. Austurl., hér eftir sem hingað til fylgjast að í þessu máli, svo lengi sem fært þykir og svo lengi sem við náum árangri fyrir okkar kjördæmi. Við höfum hins vegar valið þann kostinn fram að þessu, og það hefur ekki síst hæstv. iðnrh. gert, að leitast við að halda þessum málum á þeim kili, að um þau gæti kannske síðar orðið samstaða hér innan Alþingis. Væri vissulega vel ef svo yrði.

Ég endurtek svo það, sem ég hef sagt hér áður og hefur komið hér fram í máli manna, og ég vek athygli á að þessi umr. hefur ekki verið neitt í þeim dúr, að menn hafi verið að reyna að ná sér niðri á einum eða öðrum manni sem hér á hlut að máli. Þetta hefur ekki verið eldhúsdagsumræða. Og ég skoða það sem góðan fyrirboða um að hér verði reynt að ná fram langstærstu málum þjóðarinnar, sem nú er um fjallað, á þeim grundvelli að til heilla megi verða.