07.04.1981
Efri deild: 73. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3479 í B-deild Alþingistíðinda. (3538)

258. mál, ný orkuver

Flm. (Þorv. Garðar Kristlánsson):

Herra forseti. Það eru nú búnar að vera mjög miklar umræður um þetta frv. sem hér er á dagskrá, og það er ekki nema að vonum. Ég skal reyna að takmarka mjög mál mitt og vekja ekki upp neinar nýjar deilur eða ágreiningsefni sem ekki hafa verið rædd áður, í þeirri von að okkur takist von bráðar að ljúka þessum umr. og að liðinn verði tími umræðna og nú fari í hönd tími framkvæmda í virkjunarmálunum.

Hæstv. félmrh. ræddi töluvert í síðustu ræðu sinni um stóriðjumálin. Ég sagði áður í umr. að við hæstv. ráðh. værum sammála um það, við værum báðir stóriðjumenn í þeim skilningi, að við vildum báðir stóriðju. Hæstv. ráðh. sagði í síðustu ræðu sinni að hann útilokaði ekki samvinnu við útlendinga í vissum mæli. Ég held að við getum verið sammála um þetta, ég útiloka ekki samvinnu við útlendinga í vissum mæli. Þessi mál eru þess eðlis, að hvort sem það er hæstv. ráðh. eða ég eða einhverjir aðrir hljótum við að meta þetta og vega eftir aðstæðum hverju sinni. En við megum ekki hugsa of mikið um þetta og umfram allt ekki vera hræddir við útlendinga í þessu sambandi. Því að hættan er sú, að ef við gerumst of varasamir, þá gerum við lítið eða ekki neitt.

Hæstv. ráðh. sagði að það væri táknrænt fyrir áherslubreytingar í þessum málum, að hann hefði lagt niður hina svokölluðu stóriðjunefnd. (Iðnrh.: Viðræðunefnd um orkufrekan iðnað.) Já, viðræðunefnd um orkufrekan iðnað. Því miður kann það að vera rétt, að þetta sé tákn um áherslubreytingu, en það er að mínu viti til hins lakara, því að við vitum hvað miklu minni þróttur hefur verið í þessum málum upp á síðkastið heldur en áður var og má ekki við svo búið standa.

Hv. 11. þm. Reykv. kom víða við í sinni síðustu ræðu í þessum umr. Það er ekki nokkur leið fyrir mig að fara að rekja það allt hér. Hann kom inn á það sem hann hafði áður haldið fram, að það mundi ekkert verða af Fljótsdalsvirkjun í næstu framtíð, skilst manni, og að ég hefði platað mína samflokksmenn, hv. 11. landsk. þm. og hv. þm. Austurl. Sverri Hermannsson, og eins og lá í orðunum að ég ætti þá sök á afstöðu Austfirðinga almennt í þessum efnum. En hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson var nú kominn að þeirri niðurstöðu, að ég mundi sennilega ekki eiga sök á þessu. En ef svo er, þá er sjálfsagt að hans mati enn þá meiri sök þeirra sem hafa látið glepjast að hans mati í þessum efnum, og þar með eru taldir tveir þm. Alþb. á Austfjörðum sem ekki stóðu gegn þessum hugmyndum, sem við hér ræðum á Austfjarðafundunum, og hér hefur áður verið drepið á.

Hv. 11. þm. Reykv. sagði að hann væri mér sammála, en ekki hæstv. iðnrh., um það, að tryggja ætti stóriðjumarkaðinn fyrir raforkuna áður en farið væri að virkja, en ekki eftir á.

Hv. 11. þm. Reykv. þusaði mikið um það, að framkvæmdum væri ekki raðað. Sjálfur kom hann ekki með neinar till. um röðun framkvæmda. Það sýnir best að þótt hann mæli á þann veg sem hann gerir, þá sér hann sem skynsamur maður að það er eðlileg leið sem farið er í þessum efnum og frv. gerir ráð fyrir og ég hef margoft lýst hér í umr.

Hv. 11. þm. Reykv. talaði um að það ætti að ná samstöðu milli stjórnmálaflokkanna á landinu í afstöðunni til stóriðjunnar. Hann talaði um að það væri þörf á svokallaðri þjóðarsátt og það þyrfti að ganga fram í stóriðjumálunum líkt því sem við hefðum gengið fram í landhelgismálinu, staðið þar saman um að að helga landhelgina fyrir okkur Íslendinga eina. Ég get tekið undir margt af því, sem hv. þm. sagði í þessu efni, og þann anda, sem mér virtist vera yfir þessum þankagangi hans.

Ég held að við hljótum að vera allir sammála um það, að það sem við gerum, gerum við fyrst og fremst til hagsbóta fyrir Ísland og Íslendinga, og um það ætti að geta verið samvinna.

En við hljótum að gera okkur grein fyrir því, að það fer eftir atvikum hvaða aðferðir við notum til að ná þessum árangri. Við getum t. d. ekki flutt rafmagnið út í fragtskipum eða fiskiskipum okkar og selt það þannig, eins og við seljum fiskafurðir. Við getum ekki hagnýtt orkulindirnar til útflutnings nema breyta orkunni í framleiðsluvöru. Það er þetta sem við verðum að hafa í huga. Við verðum að útvega fjármagn til þess að gera þetta mögulegt, og við þurfum að haga málum þannig að okkar áhætta verði sem minnst. En hvað sem við gerum og hvernig sem við snúum okkur í þessum efnum í hverju tilviki, þá er það aðeins eitt leiðarljós sem við hljótum að hafa. Við gerum ekkert annað en það sem við teljum að geti þjónað íslenskum hagsmunum. Annað væri óhæfa undir hvaða kringumstæðum sem væri.

Ef við getum verið sammála um þetta, þá vænti ég þess, að það geti orðið meiri kraftur í undirbúningi stóriðjumála en verið hefur að undanförnu og að við einbeitum okkur að framkvæmdum í þessum efnum, því að verkefnin kalla sannarlega að.