05.11.1980
Neðri deild: 12. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í B-deild Alþingistíðinda. (354)

Umræður utan dagskrár

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég þakka hv. 3. þm. Reykv. fyrir að hafa vakið athygli á þessu máli. Ég álít að í því felist mikil lágkúra hjá Listasafni Íslands að þiggja annars vegar u.þ.b. 1 milljarð að gjöf, en hafna því hins vegar að sýna gestum Listasafnsins síðar meir sýnishorn af þeim málverkum sem gefandinn hefur haft fyrir tómstundaiðju að mála. Ég hef af því sannar spurnir, að hann hafi verið mjög athyglisverður tómstundamálari, og get satt að segja ekki skilið þessa afstöðu listráðsins eða hvað það er kallað og harma hana. Ég þakka þess vegna hv. 3. þm. Reykv. fyrir að hafa vakið athygli á þessu máli og vonast til þess að svör við fsp. hans berist fyrr en síðar og undanbragðalaust verði gefin fullnægjandi skýring á því, hvað hér hefur gerst. — En í þessu sambandi vil ég einnig spyrja hæstv. forseta, hvernig sé um listaverkakaup Alþingis, hverjir stjórni þeim og hvernig þeim sé háttað.