07.04.1981
Neðri deild: 73. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3498 í B-deild Alþingistíðinda. (3545)

290. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Fyrir um það bil ári, þegar gildandi skattalög voru til meðferðar hér á Alþingi hét hæstv. fjmrh. því að hafa fullt samráð við stjórnarandstöðuna og gefa henni kost á því að fylgjast með hvernig álagningin kæmi út í reynd. Þetta hefur hæstv. ráðh. gert. Hann gaf bæði Alþfl. og Sjálfstfl. kost á að tilnefna menn til setu í nefnd til þess að fylgjast með niðurstöðum álagningarinnar og hefur lagt sig fram um að gefa þeim, sem þar sátu, mjög greinagóðar upplýsingar um þessi mál. Vil ég sérstaklega taka fram að ég færi honum þakkir fyrir. Slíkt greiðir fyrir því, að menn geti afgreitt það frv. til l. sem hér er lagt fram á þessu þingi, því að án þess að vinnubrögðum hefði verið hagað með þessum hætti væri tómt mál um það að tala, að hægt væri að afgreiða jafnflókið mál eins og hér um ræðir á svo stuttum tíma sem eftir lifir af starfstíma þingsins. Þó held ég að það sé alveg vonlaust að gera sér hugmyndir um að hægt sé að afgreiða þetta frv. fyrir páska, vegna þess að ég reikna með því, að við stjórnarandstæðingar höfum hug á að flytja sjálfir ýmsar tillögur til breytinga á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, fyrst á annað borð er búið að opna þau lög, og við þurfum til þess allnokkuð meiri tíma en þá örfáu starfsdaga þingsins sem eftir eru fram að páskafríi. En ég ítreka að vegna samstarfsins sem hæstv. fjmrh. hefur haft við stjórnarandstöðuna í sambandi við þetta mál verður auðveldara fyrir Alþingi að afgreiða frv. sem hér hefur verið lagt fram, og fyrir þetta samstarf vil ég færa hæstv. fjmrh. þakkir.

Á þeim stutta tíma, sem eftir er fram að því að gert verður hlé á fundum deildarinnar, vinnst ekki tími til að fara mjög rækilega ofan í saumana á því frv. sem hér er lagt fram, enda yrði það nokkuð langt mál. Það vinnst ekki heldur mikill tími til þess að deila við hæstv. fjmrh. um hvort skattar séu nú hærri eða lægri en þeir hafa verið. Ég ætla í því sambandi að láta mér nægja að vitna til áætlana Þjóðhagsstofnunar um skattbyrði á Íslandi á umliðnum árum, en þar kemur fram að það er sama hvernig menn reikna skattbyrðina, hvort þeir reikna skattbyrðina í prósentum af tekjum fyrra árs, þ. e. þess árs tekjum sem skattar eru á lagðir, eða þeir reikna skattana í prósentum af tekjum greiðsluárs, þ. e. hve greiðslubyrðin er þung af sköttum sem lagðir voru á tekjurnar í fyrra, — það er alveg sama hvor viðmiðunin er notuð, skattbyrðin hefur aldrei verið þyngri en hún er nú. Þjóðhagsstofnun áætlar þannig að álagðir skattar miðað við tekjur fyrra árs verði 22.6% á árinu 1981 og greiðslubyrðin, þ. e. álagðir skattar í hlutfalli af áætluðum tekjum í ár, verði 15.1%, og hvorugt þessara hlutfalla hefur áður verið hærra. Þessi hlutföll, bæði greiðslubyrðin og skattbyrðin, hafa farið vaxandi með hverju árinu sem liðið hefur.

Það er mjög athyglisvert að skoða feril skattbyrðarinnar, — ég er með upplýsingar um hana allar götur aftur til 1964, — vegna þess að segja má að hún risi eða falli í réttu hlutfalli við veru Alþb. í ríkisstj. Þegar Alþb. sest í ríkisstj. tekur ferill skattbyrðarinnar stórt stökk upp á við. Þegar hins vegar Alþb. er utan stjórnar leitar skattbyrðin heldur niður. Nú vitum við það allir Íslendingar hverjir það eru sem borga skatt. Það er fyrst og fremst hinn almenni launamaður sem það gerir. Þetta viðurkenna allir að undanteknum einum stjórnmálaflokki í þessu landi. Það er nokkuð lærdómsríkt, að ávallt þegar þessi eini stjórnmálaflokkur kemst til valda skuli þessi skattbyrði, skattútgjöld hins almenna launamanns, taka stórt stökk upp á við.

Frv. því, sem hér er um rætt, má skipta í þrennt. Sumar greinar þess lúta að lítilvægum leiðréttingum sem komið hefur í ljós við fyrstu reynslu hinna nýju skattalaga að þarf að gera, ýmist leiðrétta misræmi á milli einstakra greina í gildandi skattalögum eða skerpa merkingar annarra greina. Dæmi um slíkar greinar eru t. d. 2. gr. þessa frv. sem fjallar um lítilvæga breytingu, þar sem ákveðið er hvernig skuli farið með útreikning söluhagnaðar fasteignar sem stendur á leigulóð, sömuleiðis 3. gr., 5. gr., 6. gr., 7. gr., 9. gr., 10, gr., 17. gr., 18. gr. og 19. gr. Þetta eru allt saman tiltölulega einfaldar greinar sem lúta að mjög óverulegum lagfæringum eða skerpingum á ýmsum meiningum í núgildandi skattalögum, og er út af fyrir sig færibandaafgreiðsla hér á Alþingi og eingöngu gerð í framhaldi af reynslu sem menn höfðu orðið áskynja eftir að hafa lagt á samkv. nýju skattalögunum í fyrsta skipti.

Annar þáttur þessa frv. fjallar um nokkrar lagfæringar sem verið er að gera á gildandi skattalögum, sem sumar eru smávægilegar, en aðrar nokkru stærri. Sem dæmi um þessar lagfæringar, sem verið er að gera og eru vissulega jákvæðar, vil ég nefna 4. gr., þar sem í síðari mgr. er lagt til að niður verði felldar reglur um sérstaka skattlagningu á eignarauka sem stafar af vinnu utan venjulegs vinnutíma við byggingu íbúðarhúsnæðis. Nú er vitað að fjölmargir Íslendingar koma sér upp þaki yfir höfuðið með því að vinna ótæpilega utan venjulegs vinnutíma við eigin framkvæmdir. Með þessari breytingu, sem hér er verið að gera, er verið að fella niður reglur um sérstaka skattlagningu á eignarauka sem stafar af slíkri vinnu, og er það vissulega jákvætt og í rétta átt.

Önnur slík grein, sem horfir fram á við er 11. gr. frv. þar sem lagt er til að tekin verði upp heimild til frádráttar á helmingi greiddrar húsaleigu vegna leigu á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Hér er um nýmæli að ræða í skattlagningu, sem vissulega ætti að geta orðið til bóta ef framkvæmdin verður eins og ætlast er til. Hins vegar er vissulega hætta á því, að í reyndinni þýði þessi ákvæði í skattalögum aðeins hækkaða húsaleigu til leigjenda sem því nemur. Það er opinbert leyndarmál og öllum kunnugt, að þess eru dæmi, að fólk, sem leigir íbúðir, þurfi að sæta þeim kostum að mega ekki láta uppi við skattyfirvöld hversu háa húsaleigu það er látið greiða íbúðareigandanum. Með því að veita heimild til frádráttar á helmingi greiddrar húsaleigu er líklegt að sú breyting verði á, að leigjendur telji fram raunverulegar húsaleigugreiðslur sínar, sem kæmu þá til skatts hjá leigusala. Hins vegar er hætt við því, ef þetta breytir mjög verulegu um skattalega aðstöðu leigusalans, að hann svari því, — þrátt fyrir verðstöðvunarákvæði sem í lögum eru, og raunar í tvennum lögum, — að hann svari því einfaldlega með hækkaðri húsaleigu sem þessu nemur. En það verður þá að koma í ljós ef svo verður.

Þá er einnig ákvæði í 14. gr. sem e. t. v. ættu að geta orðið til nokkurrar lagfæringar, en gildandi skattalög hafa farið mjög illa með þá menn á Íslandi sem þannig er háttað um að þeir skulda verulega, en skuldirnar eru á mjög lágum vöxtum þannig að frádráttur vegna fjármagnskostnaðar verður lítill. Hér er um að ræða t. d. þann hóp manna sem hefur keypt sér atvinnutæki, bíl eða lítinn bát, skuldar mjög verulegar upphæðir í bílnum eða bátnum, en þessar skuldir eru á mjög lágum vöxtum. Þessir menn hafa farið mjög illa út úr skattlagningunni á s. l. ári og margir þeirra borgað miklum mun hærri skatta en samsvara sannanlegum tekjum þeirra á árinu. Það er ekki mjög stór hópur manna sem skattayfirvöld vita að þannig hefur verið ástatt um, 5 eða 10 menn eða eitthvað um það bil, en vegna þess að uppskátt varð um erfiðleika þeirra tóku skattyfirvöld þann kost að leggja til að þessi breyting í 14. gr. yrði gerð til að koma til móts við þessa einstaklinga. Hins vegar er mér ekki fyllilega ljóst og það hefur raunar ekki komið fram enn, því að það er nýmæli í þessari grein, sem ekki hefur verið rætt áður í n. sem hæstv. fjmrh. lét fjalla um undirbúning þessara skattalaga, hvernig það ákvæði 14. gr. vinnur með þessu, að lækka fyrningarhlutfallið úr 50% í 40%. Mér er nær að halda að eftir þá breytingu standi þessir tilteknu einstaklingar, sem átti að leiðrétta kjörin fyrir með breytingunni í 14. gr., raunverulega í sömu sporum. En það á eftir að sjást og verður spurt um það sérstaklega við meðferð málsins.

Vissulega er líka leiðrétting fólgin í 24. gr., þar sem kveðið er á um nýjan tekjuskattsstiga sem hæstv. fjmrh. skýrði í ræðu sinni áðan. Með þessum tekjuskattsstiga er nokkuð komið til móts við sjónarmið okkar Alþfl. manna í sambandi við tillögur um tekjuskattsstiga sem við fluttum fyrir einu ári. Hins vegar munum við að sjálfsögðu, þar sem búið er að opna þetta mál einu sinni enn, undirbúa tillöguflutning um nýjan tekjuskattsstiga í samræmi við margyfirlýsta stefnu Alþfl. varðandi tekjuskattsálagningu á einstaklinga, sem næði því marki að lækka tekjuskattinn, lækka beinu skattana, svo að hagurinn, sem launþegar fengju af þeirri skattalækkun, samsvaraði því margumrædda 1.5% af launum sem hæstv. ríkisstj. hefur rætt um. Til þess þarf að gera allverulega meiri breytingar í tekjuskattslækkunarátt heldur en hæstv. ríkisstj. hefur gert, vegna þess að þegar saman er skoðuð skattvísitalan, sem hæstv. ríkisstj. ákvað í fjárlagafrv. sínu, og gildandi tekjuskattsstigi, þá þurfa menn, miðað við áætlun Þjóðhagsstofnunar um hvað þessi tvö atriði gefa í tekjur, að byrja á því að lækka beinu skattana um 11 milljarða kr. til þess að ná sama skattbyrðarhlutfalli og í fyrra. Þetta er sem sé nokkurs konar startgjald sem menn þurfa að borga áður en hægt er að fara að tala um skattalækkun. Þá þurfa menn miðað við skattbyrðina í fyrra fyrst að lækka áætlun beinna skatta, miðað við óbreytta skattvísitölu og óóreyttan skattstiga, um 11 milljarða gkr. Og þá fyrst, þegar menn hafa lækkað áætlun um skatttekjur hins opinbera um þessa 11 milljarða gkr., geta menn farið að tala um að lækka skattbyrði frá því sem hún var á s. l. ári, en það er auðvitað það sem menn verða að miða við. Og ef menn ætla sér síðan að ná því marki, sem hæstv. ríkisstj. hefur talað um, að lækka skattbyrðina sem nemur 1.5% í kaupi, þá þurfa menn að bæta við þetta startgjald — þessa 11 milljarða — 12–13 milljörðum í viðbót, þannig að ef á að ná takmarki ríkisstj., sem hún hefur heitið verkalýðshreyfingunni, að lækka skattana sem nemi 1.5% í kaupi miðað við skattbyrðina eins og hún var í fyrra, þá þurfa menn að lækka beina skatta alls um 22–24 milljarða eða eitthvað þar á milli. Samkv. orðum ríkisstj. sjálfrar nema lækkanir hennar á beinum sköttum aðeins um það bil hálfri þessari upphæð eða um það bil 0.8% í kaupi, og vantar þá talsvert á að við það loforð sé staðið sem hæstv. ríkisstj. gaf verkalýðshreyfingunni nú um áramótin. Við Alþfl. menn munum leitast við í meðferð málsins í nefnd að vinna að því, að sú breyting verði gerð m. a. á tekjuskattsstiganum, til viðbótar við þær breytingar sem hæstv. ríkisstj. leggur fram í þessu frv., að við þetta fyrirheit verði staðið.

Einnig eru ákvæðin í 25. gr. um að hækka grunntölu persónuafsláttar vissulega jákvæð og ber að skoða þá grein vandlega. Ég reikna með því, að þm. Alþfl. muni einnig, eins og við gerðum í fyrra, flytja sérstaka brtt. um það fáist hugmyndir þeirra ekki samþykktar eða tillit til þeirra tekið við meðferð málsins í nefnd.

Þetta eru, herra forseti, í örfáum orðum nokkur atriði sem vissulega eru jákvæð í þessu frv. En það er aðeins ein meiri háttar stefnubreyting sem í frv. felst og hún er ekki svo lítil. Það er ekki ómerkilegt að sú stefnubreyting skuli koma fram frá fjmrh. Alþb. Það er sú stefnubreyting, það fráhvarf frá einu helsta einkenni gildandi skattalaga, að fella niður 59. gr. sem gerir það að verkum, að í fyrsta skipti hefur verið hægt að leggja skatta á menn, sem hafa tekjur af eigin atvinnurekstri, líkt og aðra íslenska launþega. Og það er alveg furðulegt, að það skuli vera fjmrh. Alþb. sem sér þann helstan meinbug á gildandi tekjuskattskerfi að þetta ákvæði þurfi að afnema. Í eitt ár hefur verið í gildi ákvæði í skattalögum um það, að þegar litið er á framtöl manna, sem hafa tekjur af eigin atvinnurekstri, manna eins og tannlækna, manna eins og lögfræðinga, manna eins og bænda og fjölmargra annarra sem hafa tekjur af eigin atvinnurekstri og hafa sloppið skattlausir ár eftir ár. eins og allir landsmenn vita, um margra, margra ára skeið, — í eitt einasta ár hefur verið í gildi í skattalögum ákvæði um að það bæri að líta á þessa menn eins og þeir væru launþegar og áætla þeim tekjur eins og þeir mundu hafa haft, ef þeir gegndu sambærilegu starfi hjá öðrum, og skattleggja þá síðan samkv. því. M. ö. o.: þetta ár, árið 1980, sem nýliðið er, er fyrsta árið sem þessir aðilar hafa þurft að borga opinber gjöld til ríkisins eins og launþegar í sambærilegum störfum. Og aðeins eftir eins árs reynslu af þessu ákvæði kemur Alþb. hér á Alþingi fram með kröfu um að ein eðlisbreyting verði gerð á gildandi tekjuskattslögum. Og hver er sú eðlisbreyting? Jú, hún er sú, að þetta ákvæði verði fellt niður og þessir aðilar verði gerðir skattlausir eins og þeir voru áður. Þetta er orðið helsta baráttumál Alþb., þetta er eina meginefni gildandi skattalaga sem þeir telja ástæðu til að gera breytingar við. Og ég verð að segja það eins og er, þó að hæstv. fjmrh. sé vikinn héðan af fundi, að næstum því á hverjum einasta fundi, sem við áttum í þessari nefnd sem með hæstv. ráðh. vann að endurskoðun skattálagningarinnar, svo til hverjum einasta fundi sem haldinn var í þessari nefnd komst ekkert annað að hjá ráðh. en það eitt að fella þessa grein niður. Hvers vegna? Jú, vegna þess að einn hópur hafði mótmælt. Og hvaða hópur var það? Það voru bændur. Það eru komin harkaleg mótmæli frá einum hópi af þessum aðilum, þ. e. bændum. Og það er dálítið broslegt að lesa rökstuðning hæstv. ráðh. fyrir því, að þetta ákvæði skuli nú fellt niður úr tekjuskattslögum.

Herra forseti. Ég veit ekki hvort nokkur ástæða er til að halda áfram fundarhöldum öllu lengur vegna þess að það er enginn ráðh. viðstaddur, þ. á m. ekki sá sem þetta mál flytur, enginn úr hans flokki, ekki formaður þeirrar nefndar, sem þetta mál á að fá til meðferðar, og enginn úr hans flokki. Ég fæ ekki séð að nokkur ástæða sé fyrir hæstv. forseta til að halda fundarhaldi áfram við slíkar aðstæður. Ég fer fram á það við hæstv. forseta, að hann geri ráðstafanir til þess að hæstv. fjmrh., sem flytur þetta mál, sé a. m. k. viðstaddur 1. umr. (Forseti: Já, ég fellst á það, að við frestum þessari umr. nú til kl. hálfsex. Þá er boðaður fundur á nýjan leik og ég mun gera ráðstafanir til þess að hlutaðeigendur fylgi máli sínu betur eftir og verði viðstaddir.) — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Þetta er nú orðinn hreinn skrípaleikur. Það var gert samkomulag að beiðni hæstv. ríkisstj. um að afgreiða frá Alþingi fyrir páskaleyfi frv. til lánsfjárlaga sem hefði átt að vera í 3. umr. í Ed. nú rétt áðan og átti síðan að koma til okkar hér á morgun. Að kröfu formanns þingflokks Alþb., eins þess manns sem stóð að þessu samkomulagi, var 3. umr. í Ed. frestað og guð má vita hvenær hún verður haldin og allar líkur á því að ríkisstj. hafi þar með sjálf brotið það samkomulag sem hún beitti sér fyrir við afgreiðslu á þessu nauðsynlega máli. Við umr. áðan vakti ég athygli hæstv. forseta á því, að hvorki hæstv. fjmrh., sem flytur þetta mál og var að biðja um í ræðu sinni að það yrði afgreitt fyrir páska, né nokkur annar ráðh. væri viðstaddur. Þeir eru allir fjarverandi enn. Ég fer fram á það við hæstv. forseta, að þessum fíflaskap verði nú hætt og fundi deildarinnar slitið og boðaður fundur aftur á eðlilegum fundartíma á morgun, þegar hæstv. ráðherrar þessarar hæstv. ríkisstj. mega vera að því að mæta. (Forseti: Ég get ekki fallist á þessa beiðni og beitum þolinmæði enn og sjáum til hvort ekki rætist úr.) Þá fer ég þess á leit við hæstv. forseta, að fundi verði frestað í 15 mínútur. — [Fundarhlé]

Herra forseti. Allt er þegar þrennt er. Þetta er nú þriðja tilraunin sem ég geri til þess að fá hæstv. fjmrh. til að vera við þegar rætt er mál sem hann flytur sjálfur og flutti framsöguræðu um fyrir örfáum klukkustundum og leggur áherslu á að fáist afgreitt frá Alþingi á þeim fáu klukkustundum, liggur mér við að segja, sem eftir eru af eðlilegum starfstíma Alþingis fyrir páska. En það er auðséð að hæstv. ráðh. hefur unað sér vel í veislu Seðlabankans áðan. Það er út af fyrir sig ekkert mál þó hann geri það, hæstv. ráðh., en kannske getur þessi ársfundur Seðlabankans orðið hæstv. ráðh. nokkuð minnistæður því að þar var flutt ákaflega athyglisvert erindi af formanni bankastjórnar Seðlabankans, dr. Jóhannesi Nordal bankastjóra, sem var slík úttekt á stefnu og starfsemi Alþb. og þeirra ára sem Alþb. hefur verið í ríkisstj., að annan eins áfellisdóm hef ég ekki heyrt upp kveðinn um langa hríð eins og í þeirri ræðu fólst. Ég vona að þessi framlenging á dvöl hæstv. ráðh. á seðlabankafundinum hafi orðið til þess að festa honum orð seðlabankastjóra enn betur í minni og verð ég nú að segja eins og er, að ekki var það rishá ríkisstj. sem sat undir orðræðum seðlabankastjóra fyrir nokkrum mínútum. (Gripið fram í: Eru framhaldsumræður um þetta mál?) Ekki var það nú rishá ríkisstj., hæstv. forseti, og ekki var nú sérstaklega hýrt upplitið á oddvita þeirrar ríkisstj., hæstv. forsrh., sem virðist enn þá una sér í seðlabankaveislunni þrátt fyrir allt. (Gripið fram í.) Herra forseti. Ég heyri það, að hæstv. fjmrh. er ákaflega óþreyjufullur eftir að fá orðið fyrst hann gefur sér tíma til þess að mæta hér og ekkert við því að segja. Hann getur fengið það þegar ég hef lokið máli mínu hér á eftir. Ég er sannfærður um að hæstv. forseti mun fúslega veita hæstv. fjmrh. leyfi til þess að koma í ræðustól þegar röðin kemur að honum.

Ég gat þess hér áðan, hversu mikið ósamræmi er í málflutningi þeirra hv. stjórnarsinna. Þeir leita allra manna frekast eftir því, að Alþingi og stjórnarandstaðan geri við þá samkomulag um afgreiðslu mála hér úr þinginu svo til athugunarlaust eða athugunarlítið. Eitt af þeim málum, sem samkomulag var gert um við okkur stjórnarandstæðinga að afgreiða fyrir páska samkv. beiðni hæstv. ríkisstj., var einmitt til 3. umr. í Ed. rétt áðan og átti að afgreiða úr þeirri deild í dag, hefði verið afgreitt nú samkv. þessu samkomulagi, og átti að koma hingað til þessarar hv. deildar á morgun. Þá skeður það skyndilega, að samkv. kröfu formanns þingflokks Alþb. er 3. umr. hætt, henni slegið á frest og hún verður ekki tekin upp aftur fyrr en guð má vita hvenær og enginn veit um frekari afdrif málsins. Og þó svo að hæstv. fjmrh. hafi í ræðu sinni áðan lagt á það þunga áherslu, að menn fengjust nú til að afgreiða þetta mál hans fyrir páska, þá þarf að gera þrjár tilraunir til þess að fá hann til að vera viðstaddan þegar byrjað er að ræða þetta frv. hans þangað til það fer að skila árangri.

Herra forseti. Ég hafði í ræðu minni fjallað um þá tvo af þremur þáttum frv. sem minna máli skipta, í fyrsta lagi þann þátt, sem eru almennar leiðréttingar og skerpingar á ýmsum áhersluatriðum í gildandi skattalögum, og í öðru lagi þau atriði frv. sem vissulega horfa til framfara, horfa til heilla og eru verulegar breytingar sem gera á á gildandi skattalögum til úrbóta. Í þeirri upptalningu gleymdi ég einu ákvæði, sem er hækkun á frádrætti sem heimilaður er einstæðum foreldrum. Vil ég í því sambandi minna á að miklar umr. urðu hér á Alþingi í fyrra um þetta leyti árs við afgreiðslu á hliðstæðu frv. þá vegna skattalegrar stöðu einstæðra foreldra. Við Alþfl.-menn héldum því þá mjög stíft fram, að við fengjum ekki betur séð en skattaleg aðstaða einstæðra foreldra mundi versna mjög ef lagt yrði á samkv. óbreyttum lögum. Við fluttum þá á Alþingi brtt. við gildandi skattalög til þess að koma í veg fyrir að þetta gerðist. Hæstv. fjmrh. og ríkisstj. öll undir hans forustu neituðu því harðlega í þeim umr., að þetta gæti skeð, og beittu sér gegn framgangi þessara till. okkar og fengu þær felldar í krafti þingmeirihluta síns. Síðan gerðist það, að það, sem við þóttumst sjá fyrir fyrir einu ári gagnvart einstæðum foreldrum, gekk nákvæmlega eftir í skattlagningunni, þannig að hæstv. fjmrh. sér þá leið eina færa að leggja nú til — einu ári síðar — hliðstæðar till. til að bæta skattalega stöðu einstæðra foreldra eins og við Alþfl.-menn gerðum fyrir einu ári. Er það út af fyrir sig þakkarvert að hæstv. fjmrh. skuli þó láta sér segjast í ljósi reynslunnar.

En meginatriðið í þessu frv., sem ég var kominn að í ræðu minni hér áðan, það eina atriði þar sem verið er að breyta mjög verulega stefnu frá gildandi skattalögum, er varðandi 59. gr. sem samkv. frv. á að fella úr gildandi skattalögum. Þessi 59. gr. var, eins og ég var áður búinn að minnast á, til þess gerð og til þess leidd í lög að þeir aðilar, sem hafa tekjur af eigin atvinnurekstri, menn eins og t. d. tannlæknar, sem vinna á eigin stofu, arkitektar og verkfræðingar, sem vinna við eigin fyrirtæki, bændur og aðrir slíkir borguðu skatta líkt eins og þeir væru launþegar í hliðstæðum störfum hjá öðrum. Það er alkunna, sem engum Íslendingi þarf að þykja tíðindi, að ýmsar af þessum stéttum hafa á umliðnum árum sloppið við að borga sambærilega skatta og almennt launafólk í hliðstæðum störfum þarf að greiða. Margir af þessum mönnum hafa ár eftir ár borið svonefnd „vinnukonuútsvör“ eða jafnvel enga skatta þó svo að bæði guð og menn hafi vitað það og mátt marka það af lífsháttum þeirra að þeir lifðu eins og kóngar.

Í skattalögunum, sem komu fyrst til framkvæmda á s. l. ári, var ein merkilegasta breyting sem í þeim fólst frá fyrri reglum sú, að þessir menn skyldu þannig meðhöndlaðir við skattlagningu að þeir yrðu settir jafnfætis venjulegu launafólki sem stundaði hliðstæð störf, m. ö. o. skattstjórum yrði gert skylt að áætla tekjur á þessa menn líkt og ætla mætti að þeir hefðu af því að stunda sambærileg störf í annarra þágu en sjálfra sín. Þetta var að áliti okkar Alþfl.-manna eitthvert merkasta ákvæðið í þeim lögum sem samþykkt voru hér á Alþingi 1978 og fyrst komu til framkvæmda á s. l. ári. Og hvað hafði þetta lagaákvæði í för með sér? Það hafði í för með sér að margir af þessum mönnum, sem borið höfðu vinnukonuútsvörin ár eftir ár og áratug eftir áratug og getað veitt sér margfalt á við venjulegt launafólk, fóru í fyrsta skipti á árinu í fyrra að borga skatta sem voru eitthvað sambærilegir því sem venjulegur launamaður hefur þurft að standa skil á til ríkisins. Og eina stefnumarkandi atriðið í þessu frv., sem fyrrv. formaður Alþb. flytur á fyrsta heila ári fjmrh.-tíðar sinnar, er að þetta ákvæði verði fellt úr lögum og þessir menn verði aftur settir skattalega eins og meðan þeir báru vinnukonuútsvörin. Það er hæstv. fjmrh. Ragnar Arnalds og flokkur hans sem gefur þessum mönnum vinnukonuútsvörin aftur. Það er ekki verið að einfalda skattalögin fyrir venjulegt verkafólk. Nei, það er verið að sjá til þess að tannlæknarnir, arkitektarnir, verkfræðingarnir og bændurnir fá að vera skattlausir á árinu 1981 eins og þeir voru skattlausir á árunum fyrir 1980. Þeir, sem báru vinnukonuútsvörin, fá að bera þau aftur. Það er helsta baráttumál núv. hæstv, fjmrh. og stærsta fráhvarfið og eina fráhvarfið frá gildandi skattalögum sem hann beitir sér fyrir með flutningi þessa frv.

Ég sagði áðan að ég þakkaði hæstv. ráðh. fyrir hversu vel og grandgæfilega hann leyfði okkur stjórnarandstæðingum að fylgjast með niðurstöðum álagningarinnar á s. l. ári og undirbúningi þeirra breytinga sem hér liggja fyrir. En ég sagði líka, að það var varla á einum einasta fundi, sem við mættum á, sem eina og helsta áhugamál hæstv. ráðh. var ekki að fella niður þessa grein, — eina og helsta áhugamál hæstv. ráðh., það sem var efst á dagskrá allra fundanna, var hvernig mætti koma þessum aðilum til hjálpar, hvernig mætti létta sköttunum aftur af mönnunum með vinnukonuútsvörin. Þetta var það sem hæstv. fjmrh. hafði mestar áhyggjur af, talaði mest um og er eina breytingin sem hann gerir í þessu frv. Og það er mjög athyglisvert að sjá hvernig þessi breyting er rökstudd í grg., sem fylgir frv., og í aths. með frv. Þetta er ákaflega lærdómsríkt og sýnir hvernig eitt rekur sig á annars horn í rökstuðningi hæstv. ráðh. Hann segir um ástæðuna fyrir því, að 59. gr. er felld úr gildi og mennirnir með vinnukonuútsvörin eru látnir hafa vinnukonuútsvörin aftur: „Viðmiðunarlaunin hafa ýmist þótt of lág . . . eða . . . of há“.

Það er ríkisskattstjóri sem ákveður viðmiðunarlaunin, það er ekki gert með lögum. Hann hefur aðeins heimild til þess að ákveða viðmiðunarlaunin og skattstjórinn síðan skyldu til þess að framfylgja þeim viðmiðunum við álagningu. Hæstv. ráðh. væri innan handar að láta gera breytingu á viðmiðunarlaununum sem er framkvæmdaratriði og undirmaður hans á að sjá um og hann gæti mætavel haft áhrif á hvernig yrðu ákveðin. Ef honum finnst viðmiðunarlaunin vera ákveðin of lág á lækna, arkitekta og verkfræðinga getur hann beitt áhrifum sínum til þess að fá þau hækkuð. En hann gerir það ekki. Nei, ekki aldeilis, heldur fellir hann úr gildi heimildina til ríkisskattstjóra um að ákveða þessi viðmiðunarlaun. Hann fellir niður skyldu skattyfirvalda til að leggja á arkitekta, tannlækna, verkfræðinga og bændur líkt og sambærilega launahópa. Og rökstuðningurinn er sá, að viðmiðunarlaunin, sem Alþingi ákveður ekki, heldur ríkisskattstjóri, hafi ýmist verið of há eða of lág. Ég get nú ekki fundið rökstuðning þar sem öllu meira rekur sig hvað á annars horn heldur en þetta.

Og hvar skyldu nú viðmiðunarlaunin hafa þótt of lág og hvar skyldu þau hafa þótt of há? Hæstv. ráðh. tekur fram að viðmiðunarlaunin hafi þótt of lág hjá ýmsum stéttum háskólamanna, en of há hjá kvæntum bændum. Og það er mergurinn málsins. Mergurinn málsins er nefnilega sá, að það voru ekki háskólamennirnir, það voru ekki samtök arkitekta, samtök tannlækna, samtök lögfræðinga eða annarra slíkra stétta sem aðallega mótmæltu ákvæðunum í 59. gr., heldur bændur. Það komst ekki annað að í huga hæstv. ráðh. heldur en bændur, ekki nokkur skapaður hlutur, ekkert annað. Og hann segir í grg. sinni að bændum hafi þótt viðmiðunarlaunin ákveðin of há hjá þeim þeirra sem voru giftir.

Nú skulum við fara yfir forsögu málsins. Eins og menn vita er 59. gr. um að ríkisskattstjóri skuli ákveða þeim aðilum, sem hafa tekjur af eigin atvinnurekstri, laun svipað því sem ætla mætti að þeir fengju fyrir hliðstæð störf ef þeir sinntu þeim hjá öðrum, og síðan að skattyfirvöldum um allt land, skattstjórum í hverju skattumdæmi bæri að nota þessi viðmiðunarlaun við álagningu sem reiknaðar tekjur þessara manna. M. ö. o.: ríkisskattstjóri átti að ákveða hver þessi viðmiðunarlaun væru. Hann gerði það fyrir allar þessar stéttir. Ein atvinnustétt rak upp ramakvein þegar þessi viðmiðunarlaun voru ákveðin. Hvaða stétt var það? Það var bændastéttin. Hvað gerði hæstv. fjmrh.? Hann veitti bændastéttinni einni sérstaka heimild til þess að hafa samráð við ríkisskattstjóra um þessa ákvörðun og semja við ríkisskattstjóra um hverjar þessar viðmiðunartekjur skyldu vera sem ætti að áætla á bændurna. (Fjmrh.: Hvenær gerði ég það?) Það má kannske ekki beinlínis segja að hann hafi heimilað þeim að semja við ríkisskattstjóra um þetta. En alla vega heimilaði hæstv. ráðh. bændasamtökunum að hafa áhrif á þá ákvörðun sem ríkisskattstjóri tók. Og ákvörðunin, sem ríkisskattstjóri tók fyrst varðandi þessa einu atvinnustétt, var endurskoðuð og viðmiðunartekjurnar stórlega lækkaðar hjá þessari einu stétt manna og ekki þá annað vitað en menn væru sæmilega sáttir við þetta, enda eina atvinnustéttin sem fékk að hafa sjálf áhrif á hvaða viðmiðunartekjur yrðu ákvarðaðar henni til handa. En því var nú ekki aldeilis að heilsa. Þegar álagningin hafði farið fram bárust mótmæli, að mig minnir frá rúmlega 2000 framteljendum í bændastétt, vegna allt of hárrar álagningar, þó svo búið væri að lækka stórlega viðmiðunartekjurnar, sem miðað hafði verið við, og þó svo að skattstjórum í hverju umdæmi bæri skylda samkv. lagagr. til að taka tillit til allra ytri aðstæðna, svo sem veikinda, svo sem árferðis, svo sem fækkunar bústofns, svo sem ýmissa áfalla sem yfir þessa menn kynnu að hafa dunið, og annað slíkt og ekki annað vitað en að þeir hafi gert það.

Það er ósköp eðlilegt að menn, sem ekki hafa borið skatta, mótmæli því þegar þeir fara allt í einu að bera skatta. Það þykir engum skrýtið. En þá vilja menn fá að vita hvað er á bak við mótmælin annað en það almenna mannlega eðli að vilja helst sleppa við að greiða skatta ef menn mögulega geta. Auðvitað eru allir Íslendingar þannig af guði gerðir að þeir vilja helst sleppa við að borga skatta ef þeir mögulega geta. Það þykir því engum skrýtið þó að maður, sem hefur ekki borgað skatt, en er látinn fara að borga hann, mótmæli slíku.

En hvaða rök önnur voru þá á bak við þetta en hið almenna mannlega eðli að vilja helst vera skattlausir ef menn mögulega geta? Ég lagði fyrir hæstv. fjmrh. snemma í haust spurningar um þetta. Ég spurði hæstv. fjmrh. á sérstöku þskj. sem lagt var fram að mig minnir í endaðan okt.:

1. Hverjar voru skattgreiðslur bænda s. l. 4–5 ár? Hverjar voru skattgreiðslur viðmiðunarstéttanna svokallaðra — sem bændur nota sem viðmiðun til þess að ákvarða laun sín eftir — þ. e. iðnaðarmanna, verkamanna og sjómanna á sama tíma?

2. Hverjar urðu skattgreiðslur í ár eftir þessum nýju lögum og hverjar urðu skattgreiðslur bænda þessara svokölluðu viðmiðunarstétta eftir sömu lagasetningu?

3. Hver var fjárfesting í landbúnaði á nákvæmlega þessum árum?

Þessar spurningar lagði ég fyrir hæstv. fjmrh. á sérstöku þskj., eins og ég segi, að mig minnir í lok okt. frekar en í byrjun nóv., vegna þess að svör við þessum spurningum eru eðlilegar forsendur þess, að Alþingi, löggjafarvaldið, sem ákveður þessa 59. gr., fáist til endurskoðunar. Það hafa engin svör komið enn þá. Ætti þó að vera tiltölulega einfalt verk að finna út á meira en hálfu ári hverjar voru skattgreiðslur sjómanna, verkamanna, iðnaðarmanna og bænda á umliðnum árum, hvernig nýju skattalögin hafa breytt þessu og hverjar hafa verið fjárfestingar í landbúnaði á sama tíma. Ef skattgreiðslur bænda, svo ég taki dæmi, hafa verið óvenjulega litlar á þessum árum — nú veit ég ekkert um það — samanborið við skattgreiðslur viðmiðunarstétta, en fjárfesting í landbúnaði mikil — (Fjmrh.: Þm. hefur ekki alltaf verið viðstaddur.) — hvaðan í veröldinni eru þá þeir peningar komnir? (Fjmrh.: Svarið er löngu tilbúið.) Ja, hæstv. ráðh. veit mætavel og þarf ekkert að grípa fram í til þess að ég hef marggengið eftir því við hæstv. ráðh. héðan úr ræðustól að svar yrði gefið og ég hef ekki verið fjarverandi á þingfundum í allan vetur nema s. l. 10 daga þegar ég var fjarverandi í opinberum erindum. Hæstv. fjmrh. hefur því haft nægan tíma til að svara þessari fsp. og sé svarið löngu tilbúið fæ ég ekki skilið hvað hefur valdið því, að hæstv. ráðh. hefur dregið svo lengi að flytja það. En látum það nú vera.

Hæstv. fjmrh. skipaði sérstaka nefnd til þess að skoða skattalega stöðu einstæðra foreldra annars vegar og bænda hins vegar. Þetta voru tvær nefndir. Þær skiluðu skýrslum til hæstv. ráðh. sem við í skattanefndinni, sem ég ræddi um áðan, fengum m. a. afrit af.

Endurskoðunin á högum einstæðra foreldra leiddi í ljós, eins og við Alþfl.-menn sýndum fram á í okkar málflutningi og tillöguflutningi fyrir ári, að hin nýju skattalög voru til stórkostlegar íþyngingar í skattamálum fyrir einstæða foreldra. Í framhaldi af því flytur nú hæstv. fjmrh. brtt. í frv. þessu um að hækka frádrátt einstæðra foreldra við skattlagningu.

En það var samdóma álit mitt, fyrrv. ríkisskattstjóra, sem er nú í fríi, en er enn þá ríkisskattstjóri eftir því sem ég best veit, tekjudeildar fjmrn. og ég leyfi mér næstum því að segja aðstoðarmanns hæstv. fjmrh., að endurskoðun umræddrar nefndar á skattlagningu bænda hefði alls ekki leitt í ljós neina nauðsyn á því að breyta 59. gr. þeirra vegna. Þetta kom glögglega fram á fundunum sem við sátum í þessari umræddu nefnd. Að mati þessara aðila hafði ekkert það fram komið og engin rök sem mæltu með því, að 59. gr. yrði breytt í ljós reynslunnar varðandi álagninguna gagnvart bændum, — engin. Ég spurði tvívegis ríkisskattstjóra sérstaklega hvort hann gæti kveðið upp úr um þetta, hvort hann teldi þau rök, sem fram hefðu komið, þess eðlis að þau réttlættu breytinguna. Í bæði skiptin sagði hann nei. Og mér er kunnugt um að þó svo hæstv. fjmrh. hafði á Alþingi haft forustu fyrir því að berja þá breytingu í gegn, þá nýtur það sjónarmið ekki alhliða stuðnings í hans flokki og sætir meira að segja andstöðu hjá ýmsum af hans nánustu samverkamönnum. Það er heldur ekkert skrýtið vegna þess að þrátt fyrir þessi ákvæði kemur í ljós við athugun á álagningunni s. l. ár að þriðji hver framteljandi í bændastétt greiðir engan tekjuskatt, — engan, ekki krónu. Og þá er aðeins rætt um þá framteljendur í bændastétt sem hafa aðalatvinnu af búskap, ekki þá sem hafa búskapinn sér til dægrastyttingar eða til viðbótar lifibrauði frá öðrum störfum. Þrátt fyrir ákvæði 59. gr., sem kvartað er svo mjög yfir, greiddi þriðji hver framteljandi í bændastétt ekki eina krónu með gati í tekjuskatt á árinu 1980, ekki eina krónu, og slíkt hlutfall er miklu hærra en á sér stað hjá öðrum sambærilegum stéttum, arkitektum, verkfræðingum, lögfræðingum eða öðrum stéttum sem verða að sitja undir 59. gr. Hjá engum þeirra kemst þetta hlutfall skattleysingja í námunda við þetta hlutfall hjá bændastéttinni.

Ég hefði gaman af því að sjá þetta skattleysishlutfall t. d. hjá verkamönnum í Dagsbrún. Ég hefði gaman af að sjá hvort verkamennirnir á eyrinni slyppu þannig frá skattlagningu s. l. árs að þriðji hver verkamaður hér á eyrinni yrði skattlaus að tekjuskatti. Það er ekki leiðrétting sem hann hefur neinn áhuga á að kalla fram.

Til þess að sýna fram á hvílíkan tvískinnung er hægt að viðhafa í þessum málum, þar sem verið er að reikna mönnum laun út og suður og lífsafkomu, vil ég aðeins geta þess, að það er tekið hér sérstaklega fram að viðmiðunarlaunin hafi þótt of há hjá kvæntum bændum. Það er rétt út af fyrir sig, að ef bóndi sem t. d. býr á venjulegu meðalbúi, giftir sig hækka þær viðmiðunartekjur sem skattstjóri leggur á og notar til grundvallar álagningunni vegna þess að kominn er aukastarfskraftur að búinu án þess að búið hafi stækkað. Og það koma fram hjá þeim fulltrúum Stéttarsambandsins sem við ræddum við, að þeir kröfðust þess að konan yrði í þessu sambandi ekki metin til launaframlags, vinna hennar yrði ekki metin til launa.

Samkv. gömlu skattalögunum fengu þessir sömu menn 50% frádrátt vegna vinnu kvenna. Þegar til umræðu voru lögin um fæðingarorlof, sem afgreidd voru í fyrra héðan frá Alþingi, bar svo við að erindrekar frá þessu sama stéttarsambandi komu á fund félmn. í báðum deildum og þar sögðu þeir tvennt um þetta fæðingarorlof. Í fyrsta lagi: það mátti ekki kosta landbúnaðinn neitt að eiginkonur bænda öðluðust rétt til fæðingarorlofs. Í öðru lagi: vinna bændakvenna í búskapnum er svo mikið að þær eiga kröfu á að fá fæðingarorlof að 66%. M. ö. o.: það ber að líta á vinnu eiginkvenna bænda sem 66% vinnu við búskap. Þetta var þegar fæðingarorlofið var á dagskrá. Þegar skattamálin eru hins vegar á dagskrá er krafan sú, að ekki beri að líta svo á að eiginkonur bænda komi nálægt búskap og beri því ekki að reikna þeim neinar tekjur við hann. M. ö. o.: þegar fæðingarorlof er á dagskrá ber að reikna vinnuframlag eiginkvenna bænda sem samsvarar 66% af heils dags vinnu manneskju við búrekstur. Eiginkonur bænda eiga að fá fæðingarorlof sem samsvarar því að þær vinni 66% af heils dags starfi við rekstur búsins. Þegar skattamálin eru á ferðinni ber ekki að líta á að eiginkona bónda leggi fram svo mikið sem eina klukkustund í vinnuframlag til búsins.

Auðvitað má líta þessi mál kvæntra eða ókvæntra bænda frá öðru sjónarhorni, sem sé því, að ekki sé verið að íþyngja bónda á meðalbúi fyrir að kvænast og auka þar með skatta hans, heldur að ívilna einyrkjanum, að eðlileg skattgreiðsla af búinu sé sú vinna sem er inni í verðlagsgrundvelli landbúnaðarins, metið vinnuframlag eiginmanns og eiginkonu, og sé það einyrki, sem stendur að slíkum búrekstri, sé honum ívilnað í sköttum, bú hans þurfi að skila lægri skattgreiðslu en bú sem nýtur þess vinnuafls sem gengið er út frá í verðlagsgrundvelli landbúnaðarins.

Auðvitað gengur það ekki til lengdar að hægt sé að færa til vinnuliðinn við búreksturinn bara eftir því hvers konar mál eru á dagskrá hverju sinni, þegar verðákvörðun er á dagskrá skuli vera hægt að gera kröfu um að menn vinni kannske tvöfalda vinnu við búreksturinn og verðið á búvörunni verði síðan metið með hliðsjón af því að bóndinn og hans fólk verði að leggja nótt við dag í vinnu við búið, þegar komi að skattamálum verði hins vegar að ganga út frá því að bóndinn vinni ekki nema 8 stundir á dag fimm daga vikunnar og konan ekki neitt og þess vegna beri ekki að áætla þeim neina skattgreiðslu fyrir þetta, svo þegar kemur að fæðingarorlofi er öllu snúið við aftur. Auðvitað verða menn að koma sér niður á hvaða viðmiðun menn ætla að nota í þessu sambandi, en ekki að hræra með þessa viðmiðun fram og til baka eftir því hvaða mál eru á dagskrá hverju sinni. En þetta veit ég, herra forseti, að er næstum því tabúmál hér í þingsölum. Hér eiga menn að sitja og standa eins og hagsmuna- og þrýstihóparnir í þjóðfélaginu vilja í það og það sinnið. Og dæmigert um þetta er að Alþb., sem gefur út Þjóðviljann, málgagn verkalýðshreyfingar, sósíalisma og þjóðfrelsis, ef ég man rétt, skuli berjast fyrir því, að ekki verði áætluð laun á lögfræðinga, tannlækna og arkitekta til jafns við menn, sem stunda sambærileg störf hjá öðrum, og að þessir aðilar, aðilar sem hafa tekjur af einkarekstri, skuli aftur geta fengið vinnukonuútsvör. Hvers vegna? Ekki vegna þess að Alþb. beri svona mikla virðingu fyrir eða bindi svona mikið ástfóstur við þessa aðila, — væntanlega ekki, það hefur þá mikið breyst, — heldur vegna þess að hæstv. fjmrh. er í framboði í kjördæmi úti á landi, þar sem bændur eru verulegur hópur kjósenda, og kjósendur hans í bændastétt heimta að þessari byrði sé af þeim létt, að tveir framteljendur af hverjum þremur þurfi að borga tekjuskatt til ríkisins, sá þriðji sleppi.

Þetta er einkar athyglisvert fyrir ýmsa kjósendur Alþb., sérstaklega í þéttbýlinu. Mér er nær að halda að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson þurfi jafnvel að bregða sér bæjarleið til Stykkishólms þegar þetta mál verður afgreitt. A. m. k. kæmi mér mjög á óvart ef hann væri sammála hæstv. fjmrh. um afnám þessa ákvæðis um að gefa atvinnurekendum vinnukonuútsvörin aftur með þeim hætti sem hér á að gera.

Herra forseti. Það þarf ekki að taka fram að við Alþfl.- menn erum alfarið andvígir því, að þessi breyting verði gerð á tekjuskattslögunum, að 59. gr. verði felld niður og þeir, sem hafa tekjur af eigin atvinnurekstri, verði skattalega settir eins og þeir voru áður fyrr, geti tekið til við að borga sín vinnukonuútsvör aftur. Hitt skal ég fúslega viðurkenna og vera fyrstur til að viðurkenna, að á þessari framkvæmd á liðnu ári, þessu eina ári sem hún hefur verið viðhöfð, urðu mjög alvarlegir vankantar, bæði vegna þess, að það fór eftir skattumdæmum hvernig skattstjórar beittu þessu ákvæði, þannig að menn voru ekki jafnsettir fyrir lögum án tillits til þess hvar þeir bjuggu í landinu hvað þetta varðaði, og enn fremur vegna hins, að það varð líka innan sömu skattumdæma nokkur misbrestur á þessari framkvæmd, og í þriðja lagi vegna þess, að segja má að hvorki Alþingi, ríkisstj. né skattyfirvöld, ríkisskattstjóri og skattstjórar, hafi gert nóg til þess að upplýsa menn um hvaða rétt þeir áttu í þessu sambandi, né heldur gert leiðréttingar á framtölum manna þeim í hag ef þeir áttu kröfu til þess, að slíkar leiðréttingar yrðu gerðar. Þetta mál allt saman var auðvitað þess eðlis, að hæstv. fjmrh. — sem yfirmaður framkvæmdavaldsins hvað þennan málaflokk varðar — hefði átt að beita sér fyrir því, að úr þessum framkvæmdamisbrestum yrði bætt. Til þess hefur hann fullt vald og fulla getu. Í þeim skattumdæmum t. d. þar sem það hefur gerst, að mönnum hefur verið mismunað og menn hafa ekki fengið sinn rétt vegna þess að þeir vissu ekki hvernig þeir áttu að ganga frá framtali sínu til þess að þeir fengju notið þess hags í skattalögum sem þeim ber, þar var auðvitað hægur vandinn af hálfu hæstv. fjmrh. og starfsmanna hans hjá ríkisskattstjóra og skattstofunum að yfirfara þessi framtöl og gera þar leiðréttingar á og benda mönnum síðan á hvernig þeir hefðu mátt fá sínum leiðréttingum framgengt. Þetta hefði verið hægt að gera og hefði átt að gera af hálfu ríkisskattstjóra þegar hann varð var við að misbrestur var á framkvæmdinni bæði milli einstakra skattumdæma og eins innan skattumdæmanna. Þó svo það sé skoðun ríkisskattstjóra, að þau mál séu alfarið í höndum skattstjóranna sjálfra og hann eigi ekki að koma nálægt þeim málum fyrr en skattstjórar eru búnir að fella sinn úrskurð — og þá ef þeir, sem úrskurðurinn er felldur yfir, kæra hann — þá held ég að þetta sé samt sem áður miklu réttari og eðlilegri leið til þess að bæta úr framkvæmdamisbrestum heldur en að fella heimildina niður eins og hæstv. fjmrh. leggur til að gert verði.

Ég vil enn ítreka og leggja áherslu á að það er ekki fyrr en nú fyrir skömmu að mótmæli fóru að berast frá öðrum atvinnustéttum en þeirri sem ég hef gert aðallega að umræðuefni hér. Og það var þá fyrst þegar það fór að kvisast, að e. t. v. stæði til að fella úr gildi 59. gr. sem þessi mótmæli fóru að berast og þá frá verslunareigendum hér í Reykjavík. Ég hef a. m, k. erindi upp á það í skrifstofu minni. Það er einkennandi fyrir hið nýja hlutverk Alþb., að það skuli vera helsta baráttumál þess flokks núna að fella úr gildandi skattalögum það ákvæði sem skyldar skattstjóra til þess að leggja skatt á menn, sem stunda eigin atvinnurekstur, út frá þeim viðhorfum, að þeir þægju fyrir vinnuframlag sitt laun sem samsvöruðu því sem þeir mundu fá ef þeir gengju að sambærilegum störfum hjá öðrum.