07.04.1981
Neðri deild: 73. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3519 í B-deild Alþingistíðinda. (3547)

290. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. 7. landsk. þm. tókst að særa mig hér upp í ræðustól gegn vilja mínum. Það er ákaflega athyglisvert, að í öllum þessum langa lestri hans rak hver fullyrðingin aðra. Ég skal bara taka eina.

Hann fullyrti, að hækkun kauptaxta hefði verið 53% á árinu 1980, og bar fyrir sig Björn Björnsson, starfsmann Kjararannsóknarnefndar. Það hefði verið nægur tími til að hringja út um allan heim undir ræðu hv. þm. Ég sló létt á símann til Björns Björnssonar og spurði hvað hann segði um þetta. Hann sagði mér að Halldór Blöndal hefði komið til sín og skýrt sér frá því, að þetta væri 153. Hann sagði að Kjararannsóknarnefnd hefði komist að þeirri niðurstöðu, að aukningin þarna væri 51%. En hvernig stendur á þessum 53, hafði Halldór Blöndal sagt. Björn sagði honum að það gæti verið af ýmsum orsökum, t. d. launaskriði eða einhverjum bónus eða öðru þess háttar. (FrS: Magni.) Magni, já. (FrS: Þetta er ekki miðað við kauptaxta.) En hvaðan koma þessir 153, sagði ég. Ja, ekki frá mér, sagði starfsmaður Kjararannsóknarnefndar, þeir koma frá Halldóri Blöndal. Ég gaf engar fullyrðingar út um það. Þessi gagnvandaði og gagnmerki sómamaður, Björn Björnsson, sem ég held að hafi allra traust í sínu starfi, segist aldrei hafa gefið þessa yfirlýsingu, hins vegar hafi hv. þm. Halldór Blöndal gefið þessa yfirlýsingu við sig. Mér virðist annað hjá þessum hv. þm. vera í stíl við þessar fullyrðingar.

Ég teygi ekki lopann hér. Hv. þm. talar aðeins um skattvísitölu 145 sem eðlilegri hefði verið 151. Það er rétt. Það var gert ráð fyrir þessu einmitt í þessu samkomulagi. Það voru ýmsir frádráttarliðir lækkaðir, sennilega um 7 milljarða, einmitt til þess að ná þessum mismun. Og síðan var lækkun um 9 milljarða. Þarna eru fjölmargir frádráttarliðir sem eru hækkaðir. Hv. þm. gat um ungt fólk. Einn frádráttarliðurinn, sem hækkaður var, voru einmitt vextir, vaxtaupphæð sem var frádráttarhæf hjá ungu fólki eða fólki sem er að byggja. Þannig voru fjölmörg atriði sem við töldum koma þarna á móti. Um þetta voru sammála Ásmundur Stefánsson, sem fáir væna um vanþekkingu í þessum efnum, Björn Þórhallsson, sem gæti tekið hv. þm. á stutt námskeið — og reyndar langt — í skattafræðum, og Jón Helgason. En þess ber að geta, að ranglega hefur verið sagt að þarna væri stefna Jóns Helgasonar í skattamálum. Vitanlega er það ekki. Vitanlega ber að upplýsa það sem rétt er. Jón Helgason er formaður verkalýðsfélagsins á Akureyri. Hann er með allt aðra stefnu, mun meiri skattalækkanir. Það, sem Jón Helgason og aðrir nefndarmenn voru að dæma um, var hvort þetta 1.5% skilaði sér eða skilaði sér ekki. Ég get þessa nú að gefnu tilefni því að lýst hefur verið yfir af ábyrgum mönnum í fjölmiðlum og víðar að þarna birtist stefna einhverra ákveðinna Alþfl.-manna í skattamálum. Það er rangt. Það er aðeins dómur um þetta eina atriði.

Nú má vel vera að þessi tala, 153, geti verið rétt. Hún er fundin hjá Þjóðhagsstofnun og er þá miðuð við — að vísu eru það rösklega 152 — en fjölgun gjaldenda er einhver svo að það er álitið að hækkun kauptaxta sé sem næst 51%. Hins vegar er afar athyglisvert að það kemur fram í tekjuúrtaki, að tekjur hafa hækkað nokkuð vegna þess að greiðsla úr lífeyrissjóðum hefur aukist. Það út af fyrir sig þarf ekki að fléttast hér inn í skattalöggjöf. En það sýnir hins vegar að þessi hækkun á greiðslu úr lífeyrissjóðum — þarna er ekki tekin hækkun á greiðslu úr sjúkrasjóðum — hefur þó skilað sér til þess fólks sem við viljum bera mikið fyrir brjósti, aldraðra og öryrkja. En þetta kemur fram sem hækkun ráðstöfunartekna, ekki hækkun kauptaxta.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Það væri ástæða til að svara hv. ræðumanni mjög ítarlega. Ég vil aðeins benda á að hann vitnaði sterklegast til eins manns, Björns Björnssonar starfsmanns Kjararannsóknarnefndar. Meira að segja í því fór hann rangt með. Hvað um hitt?