07.04.1981
Neðri deild: 73. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3521 í B-deild Alþingistíðinda. (3548)

290. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Klukkan er orðin hálfátta og ég geri ráð fyrir því, að hæstv. forseti sé mér sammála um að eðlilegt sé að fresta fundi og gefa mönnum svigrúm til þess að snæða. Ég vil fara fram á það, þar sem mjög er liðið á kvöldmatartíma, að fundi sé frestað til þess að mönnum gefist tækifæri til að snæða. Ég held að það sá óhjákvæmilegt. (Forseti: Ég hafði tekið ákvörðun um það og tilkynnt öllum hlutaðeigandi hér, starfsmönnum þings, að það mundi ekki verða kvöldfundur. Ég get því ekki orðið við þessari beiðni. En hv. þm. er á mælendaskrá í þessu máli og orðið er hans.)

Herra forseti. Ég fer fram á að gert verði hlé á þessari umr. Í fyrsta lagi vil ég vekja athygli hæstv. forseta á því, að ég beindi mjög skýrri fsp. til hæstv. fjmrh. um það, á hverju tekjuáætlunin væri reist þegar talað væri um að skattbyrðin léttist um 1.5%.

Í öðru lagi hafði ég hér ummæli eftir Birni Björnssyni hjá Kjararannsóknarnefnd og ég óska eftir því, áður en þessari umr. lýkur, að mér verði gefinn kostur á því að hafa samband við hann til þess að fá úr því skorið hvort um misskilning hafi verið að ræða. Ég vænti þess, að forseti meini mér það ekki. (Forseti: Ég skal gefa hv. þm. færi á því í aths. um fundarsköp, en með öðrum hætti utan dagskrár í upphafi fundar á morgun þegar þetta mál kæmi til atkv. til 2. umr. og svo til nefndar, til þess sérstaklega — með vísun til þessa atriðis þá — að bera af sér sakir eða koma fram leiðréttingum ef hann hefur þær í höndum. Það skal ég gera utan dagskrár eða með þeim hætti sem hann sættir sig við.)

Ég vil svo benda á að formaður Verkamannasambands Íslands, sem hér talaði áðan, gerði ekki grein fyrir því, þó að hann væri um það spurður, með hvaða hætti hann og fleiri, sem ræddu við ríkisstj. fyrir hönd launþega, hefðu staðið að því máli. Hann fékkst ekki einu sinni til að lýsa því, hver væri skoðun sín á því, hvort með þessum frv. tveim, lækkuninni á sjúkratryggingargjaldinu og því frv. sem hér liggur fyrir, væri fullnægt því ákvæði að kaupmáttur launafólks hækkaði um 1.5% miðað við s. l. ár. Ég vek athygli á þessu og líka því, hversu hógvær þessi maður var í sambandi við þessar umr. allar, sá maður sem stóð fyrir útflutningsverkfallinu á sínum tíma.

Að öðru leyti skal ég — vegna þeirrar miklu virðingar sem ég ber fyrir forseta deildarinnar — verða við því, sem hann segir, og hlíta því, að ég fái í upphafi fundar í fyrramálið að gera grein fyrir þessu máli.