07.04.1981
Neðri deild: 73. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3523 í B-deild Alþingistíðinda. (3551)

270. mál, dagvistarheimili fyrir börn

Flm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ágætu hv. þdm. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum nr. 112 frá 1976, um byggingu og rekstur dagvistarheimila fyrir börn. Frv. mitt felur það í sér, að aftan við 1. gr. komi ný mgr. sem fjallar um að gerð verði námsskrá á vegum menntmrn. er kveði nánar á um markmið og leiðir í uppeldisstarfi á dagvistarheimilum. Skal haft samráð við þá aðila sem að uppeldis- og skólamálum vinna.

Með gerbreyttum þjóðfélagsháttum á síðustu áratugum fer sá hópur í sífellu stækkandi sem elur aldur sinn fyrstu æviárin á dagvistarheimilum. Dagvistarheimili, leikskólar og skóladagheimili eru orðin sterkur þáttur í lífi þúsunda íslenskra barna, ekki síst hin tvö fyrst nefndu, þar sem mikill meiri hluti foreldra vinnur utan heimilis. Dagvistarheimilin hafa því að verulegu marki tekið að sér þann uppeldisþátt sem heimilin leystu áður. Sem dæmi má geta þess, að af 7880 börnum, sem voru undir 6 ára aldri í Reykjavík 1. des. 1979, eru 3244 þeirra á dagvistarheimilum í borginni, auk 220 barna sem dveljast á skóladagheimilum, eða 41.2% reykvískra barna undir 6 ára aldri. Og þó vantar mikið á að hægt sé að fullnægja þeirri þörf sem fyrir dagvistarstofnanir er.

Starfsmenn og forstöðumenn dagvistarheimila og aðrir þeir, er annast fósturstörf, skulu hafa lokið námi frá Fósturskóla Íslands. Eins og kunnugt er hefur verið mikill skortur á sérmenntuðu fólki til þessara starfa, enda hér um bæði vandasamt og illa launað starf að ræða. Þó hefur í æ meira mæli verið rætt um að sú ábyrgð, sem lögð er á herðar þessu fólki, vegi þyngra en flest annað þegar að starfskjörum þess kemur. Telja fóstrur t. d. að mjög skorti á um stefnumið í uppeldisstarfi sem þeim er ætlað að leysa. Starfsmenn hvers heimilis reyna að móta sér vinnuáætlun, en engin slík stefnumótun hefur verið unnin í heild. Það er því hiklaust löngu komið að því að gerð sé námsskrá fyrir dagvistarheimili sem starfsmenn geti haft að leiðarljósi.

Á vegum Norðurlandaráðs hefur nú um nokkurra ára skeið verið starfandi hópur sem hefur verið að móta stefnu í málefnum dagvistarheimila. Þar er fulltrúi Íslands Svandís Skúladóttir, starfsmaður menntmrn. Niðurstöður þeirrar vinnu munu ekki liggja fyrir að sinni, enda á sá hópur mikið starf óleyst. Hópurinn hefur snúið sér að ákveðnum þáttum í starfi dagvistarstofnana og gefin hafa verið út rit þegar niðurstöður hafa legið fyrir. En ástæðulaust sýnist fyrir okkur Íslendinga að bíða eftir þeim niðurstöðum. Við skyldum ætla að við værum menn til þess að móta okkar uppeldisstefnu sjálf, og mætti hugsa sér að hún yrði tillag Íslendinganna í þessum starfshópi til hins norræna samstarfs.

Stjórnarnefnd dagvistarheimila Reykjavíkurborgar beitti sér fyrir því, að settur var á laggirnar starfshópur til að gera tillögur um innra starf á dagvistarheimilum. Félagsmálaráð Reykjavíkurborgar samþykkti síðan hinn 18. okt. 1979 að skipa nefnd er það verk skyldi vinna. Í þeirri nefnd voru Þorbjörn Broddason lektor, sem var formaður nefndarinnar, en aðrir í henni voru Arna Jónsdóttir fóstra, Ingibjörg K. Jónsdóttir fóstra, Elín Torfadóttir fóstra og Bessí Jóhannsdóttir kennari. Þessi nefnd skilaði ítarlegum tillögum sem þegar hafa hlotið afgreiðslu í borgarstjórn Reykjavíkur. Er hér um að ræða verk sem unnið er að á þessu sviði í fyrsta sinn á Íslandi. Í grg. starfshópsins segir m. a., með leyfi forseta:

„Dagvistarheimili eru ríkjandi þáttur í þjóðfélagsmynd ofanverðrar 20. aldar. Þau eru ekki og munu ekki verða fullkomin frekar en önnur mannanna verk. Á hinn bóginn er skylt að gera þeim a. m. k. jafnhátt undir höfði og öðrum skipulags- og varnarúrræðum velferðarþjóðfélagsins.

Fyrr á tímum var það algengt neyðarúrræði fátækra foreldra að láta börn sín frá sér í hendur vandalausra. Á okkar dögum eru skilyrði til þess að njóta góðs af umönnun vandalausra á þann hátt að líf allra aðila málsins verði auðugra en ella. Í þeim anda er eftirfarandi greinargerð skrifuð.“

Í skýrslunni eru gerðar tillögur um ýmsa þætti starfs á dagvistarstofnunum, svo sem menntun starfsfólks, samvinnu þess og foreldrastarf, blöndun aldurshópa, fjölda barna á deildum, sveigjanlegan starfstíma, tengsl dagvistarheimila og skóla, skóladagheimili, gjaldskrá og umhverfi. Hér er tvímælalaust um brautryðjendastarf að ræða sem á eftir að reynast giftudrjúgt við rekstur þessara heimila.

Eitt af því, sem nefndin lagði mikla áherslu á, er einmitt að menntmrn. útbúi í samráði við dagvistarheimilin námsskrá „sem þau gætu haft til hliðsjónar“, eins og segir í skýrslunni. Menntmrn. hefur unnið mikið og farsælt starf að uppeldisskilyrðum barna á grunnskólaaldri. En við skyldum ekki gleyma því, að ekki er þýðingarminna að unnið sé vel að málefnum barna undir grunnskólaaldri. Ég held að varla geti talist vafi á að mikil nauðsyn sé á slíkri námsskrá til handleiðslu fyrir þá sem annast uppeldi yngstu barnanna. Að þeim málum verður að vinna eins vel og kostur er og vanræksla þar getur haft hörmulegar afleiðingar. Það er engum ljósara en starfsfólki dagvistarheimila og því finnur það þunga ábyrgð hvíla á herðum sér. Og það er hiklaust skylda yfirvalda menntamála, sem fara með málefni dagvistarheimila, að koma þarna til liðs.

Nýlega fór Fóstrufélag Íslands fram á fjárstyrk til þess að gefa út eins konar handbók, sem vera mætti til leiðbeiningar fyrir starfsfólk dagvistarstofnana, og helstu röksemdir félagsins voru einmitt þær, að sárlega vantaði slíka handleiðslu. Mér þótti því ástæða til að grípa fremur inn í hér á hinu háa Alþingi Íslendinga og fá það bundið í lög um byggingu og rekstur dagvistarheimila að slík námsskrá yrði gerð. Það hlýtur að vera verkefni þess ráðuneytis, sem fer með mál dagvistarstofnana, að beita sér fyrir slíku verki. Og ég er ekki í vafa um að þeim tilmælum verður vel tekið. Ég treysti því, að hv. þm. deildarinnar veiti þessu máli brautargengi. Ég hygg, að fylgst verði mjög vandlega með því af hálfu þeirra sem að þessum málum vinna og leyfi mér að vísa þessu máli til hv. menntmn. deildarinnar.