08.04.1981
Efri deild: 74. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3528 í B-deild Alþingistíðinda. (3562)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Vegna fsp. hv. þm. Lárusar Jónssonar er það rétt sem kom fram hjá honum, og ég vil staðfesta það hér, að hér er um það að ræða að ganga frá ófrágengnum skuldum Tryggingastofnunar ríkisins við nokkra sjóði sem stofnunin hefur fengið lán hjá. Eins og öllum fjvn.-mönnum er vafalaust kunnugt hefur það tíðkast um langt árabil að Tryggingastofnun ríkisins hefur fengið lán hjá nokkrum þeim sjóðum sem verið hafa í vörslu stofnunarinnar, en þessi lántaka hefur ekki átt sér stað með formlegum hætti. Það þykir við hæfi að ganga betur frá þessum málum en gert hefur verið og því er þessu hagað með þessum sérkennilega hætti. Það er sem sagt um að ræða lántöku sem í raun hækkar ekki heildarlántöku ríkisins vegna þess að það er eingöngu verið að ganga frá lánum sem þegar hafa verið tekin. Tryggingastofnunin hefur að vísu greitt vexti af þessum lánum sem tekin hafa verið hjá ýmsum sjóðum, en eftir að verðbólga varð svo mikil sem raun ber vitni eru vextir farnir að skipta meira máli og er því nauðsynlegt að ganga betur frá þessum málum þannig að viðkomandi sjóðir njóti þeirra vaxtakjara sem þeir gætu best hlotið með því að ávaxta þetta fé t. d. í Seðlabankanum. Ég vil sem sagt leggja áherslu á að það er nánast formsatriði sem þarna er á ferðinni, en raunverulega engin ný lántaka.

Hv. þm. Lárus Jónsson flytur ásamt hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni brtt. á þskj. 614 þess efnis, að ríkisstj. sé heimilt að taka lán að upphæð allt að 20 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt sem verja skuli til greiðslu kostnaðar við byggingu nýrrar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli samkv. nánari ákvörðun utanrrh. Ég vil segja það um þessa till., að þetta mál var nokkuð rætt við gerð lánsfjáráætlunar, en niðurstaðan varð sú hjá ríkisstj., að ekki þótti rétt að taka inn á þessu stigi málsins fjármagn til undirbúnings eða byrjunarframkvæmda vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli.

Um þessa framkvæmd gegnir sérstöku máli, eins og flestum hv, þm. er kunnugt. Hennar er getið sérstaklega í stjórnarsáttmála og þar er skýrt tekið fram að framkvæmdir verði ekki hafnar við flugstöð nema til komi samþykki allra stjórnaraðila. Nú er það svo, að ég hef ekki orðið var við mjög mikinn áhuga á þessari flugstöð almennt, nema hjá þeim sem hafa séða sér leik á borði að gera úr þessu eitthvert pólitískt númer. Mér sýnist að flestir þeir, sem um þetta mál hafa rætt, geri sér grein fyrir að ýmislegt er ófrágengið í sambandi við undirbúning þessa máls og ýmis atriði þess þarf að athuga nánar. En því er ekki að leyna, að einn stjórnaraðili, Alþb., hefur sérstaklega sett sig upp á móti því, að út í þessa framkvæmd yrði farið á þeim grundvelli sem um hefur verið talað. Þar ber margt til, en þó auðvitað sér í lagi það, hvernig fjármögnun þessara byggingar er háttað og hvernig fjáröflun til hennar er hugsuð.

Við Alþb.-menn teljum ekki rétt að fjármögnun þessarar væntanlegu framkvæmdar, sem hlyti fyrr eða síðar að verða, — þetta er mannvirki sem fyrr eða síðar hlýtur að rísa, stórt eða lítið, í einhverri mynd, — sé vafið með beinum eða óbeinum hætti inn í hernaðarframkvæmdir Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli ellegar að afnot Íslendinga af þessari byggingu verði með sérstökum hætti takmörkuð þannig að hún sé einn daginn til afnota fyrir hugsanlega flugfarþega, en annan daginn hernaðarmannvirki ef Bandaríkjamönnum sýnist það henta eða þurfa. Við teljum að þessi bygging eigi að vera íslensk framkvæmd á vegum Íslendinga sjálfra og að endurskoða þurfi fyrri áætlanir um fjármögnun þessarar framkvæmdar.

Hins vegar hef ég orðið var við það, að miklu fleiri en við Alþb.-menn telja að þessi byggingaráform þurfi nánari athugunar við. Ég verð var við að menn úr öllum stjórnmálaflokkum telja að menn þurfi að hugsa sitt ráð tvisvar áður en út í þessa byggingarframkvæmd er farið á þeim grunni sem áformað hefur verið. Sú hlið málsins snýst ekki um hvort menn eru andvígir dvöl bandaríska herliðsins í landinu eða ekki. Hún snýst ekki um hvort menn vilja tengja þessa framkvæmd fjáröflun frá bandaríska ríkinu eða ekki. Hún snýst einfaldlega um það, hvort tími sé til kominn að láta þessa byggingu rísa, hversu stór þessi bygging eigi að vera og hversu mikið eigi í hana að leggja.

Eins og kunnugt er er millilandaflug yfir Atlantshafið með viðkomu á Íslandi meiri vafa undirorpið um þessar mundir en nokkru sinni fyrr. Enginn veit hvort Flugleiðir treysta sér til að halda áfram Atlantshafsflugi sínu, hvort það á eftir að vaxa á næstu árum, eins og sumir gera sér vonir um, eða hvort það á eftir að leggjast algerlega niður. Auðvitað segir það sig sjálft og þarf ekki að hugsa um það lengi, að til þess að geta metið með réttum hætti eðlilega stærð þessarar flugstöðvar verða menn að vita eitthvað um framtíðaráform Flugleiða í þessum efnum. En þau liggja einfaldlega alls ekki fyrir og munu ekki liggja fyrir fyrr en á n. k. sumri.

Ég tel að áður en ákvörðun er tekin um byggingu þessa mannvirkis sé sjálfsagt að þessi byggingaráform séu lögð fyrir flugráð til umsagnar og fyrir liggi jákvætt svar frá flugráði um nauðsyn þessarar framkvæmdar. Flugráð hefur lagt á það þunga áherslu við alþm. á undanförnum árum að hraðar yrði farið í uppbyggingu flugvalla víðs vegar um land. Það hefur bent á að öryggismálum flugvalla væri þannig háttað að mjög mikil hætta væri á alvarlegum slysum vegna þess, hversu fátæklega flugvellir víðs vegar um land eru búnir, fyrir svo utan hitt, að flugvellir hér á landi eru yfirleitt ekki lagðir varanlegu slitlagi þannig að flugvélar eiga oft og tíðum á hættu að sökkva niður í fen, ef votviðrasamt hefur verið á vordögum, og flugvellir lokast oft dögum saman af þessari ástæðu. Því ber brýna nauðsyn til að leggja varanlegt slitlag á alla helstu flugvelli landsins. Raunar er það átakanlegt að millilandaflugvélar skuli ekki geta lent nema á þremur flugvöllum hér á landi án þess að eiga á hættu að vélarnar stórskemmist, þ. e. Keflavíkurflugvelli, Reykjavíkurflugvelli og Akureyrarflugvelli. Aðrir vellir eru ekki lagðir varanlegu slitlagi. (LJ: Er ekki ráðh. búinn að vera bæði samgrh. og fjmrh. í tæp tvö ár?) Jú, ég hef bæði verið samgrh. og fjmrh. og haft þungar áhyggjur af þessum málum. Ég þekki mjög vel til, hvernig ástandið í þessum málum er, og hef reynt að gera mitt besta til að þoka þessum málum fram á leið. Ég veit að ef hv. þm. kynnir sér fjárveitingar til þessara mála á undanförnum 3–4 árum sér hann að það hefur þó heldur þokast upp á við en hitt. Ég beitti mér m. a. fyrir því, að flugvallagjald rynni alfarið til uppbyggingar flugvalla víðs vegar um land, sem það gerir nú. Það er fyrst og fremst af þeirri ástæðu sem nú rennur meira fé til þessara mála en áður var. En sem sagt: Þörfin er feikileg.

Hins vegar er ljóst að við Íslendingar getum ekki gert allt í einu. Við verðum að takmarka framkvæmdir hér á landi, m. a. vegna þess að við viljum ekki steypa okkur í of miklar erlendar skuldir með framkvæmdum sem við getum ekki fjármagnað af eigin fé. Þess vegna höfum við reynt að takmarka fjárfestingar- og lánsfjáráætlun eins og við höfum mögulega getað og við höfum ekki treyst á okkur til að taka allt það fé til láns í vegaframkvæmdir, í flugvallaframkvæmdir eða hafnaframkvæmdir sem við gjarnan hefðum viljað taka vegna þess að menn hafa verið sammála um að eitthvert hóf yrði að hafa á erlendum lántökum. En það er greinilegt, að þeir menn úr Alþfl. og Sjálfstfl., sem mest hafa býsnast yfir því að erlendar lántökur séu úr hófi fram á þessu ári, hugsa ekki mikið um þá hlið málsins og hafa ekki miklar áhyggjur af skuldastöðu landsins út á við þegar þetta óskabarn, flugstöðin, er annars vegar. Þá munar ekki mikið um þó að bætt sé við svo sem 20–25 milljörðum ofan á þá skuldasúpu sem fyrir er, ef það má verða til þess að hægt sé að koma þessum óskadraum þeirra fram með þeim sérkennilega hætti að vefja það inn í hernaðarframkvæmdir á Keflavíkurflugvelli.

Ég legg sem sagt áherslu á að þetta mál þarfnast nánari athugunar. Ég held að það sé sjálfsagt að ítarleg umsögn um þetta mál fáist frá flugráði þar sem nauðsyn þessarar framkvæmdar er borin saman við aðrar framkvæmdir í flugvallamálum hér á landi. Mér er kunnugt um að flugráð hefur um þetta fjallað. Ég hef ekki séð umsögn þess og veit ekki hvort hún var ítarleg eða í stuttu máli, en það er hins vegar haft eftir einum meðlimi flugráðs í einu dagblaðanna í gær, Albert Guðmundssyni, að það sé skoðun flugráðs, að ef það mætti ráða yrðu aðrar framkvæmdir í flugmálum látnar hafa forgang. Mig grunar að nákvæmlega þessi sama sé afstaða flugmálstjóra, að hann telji ekki að hér sé um brýnastar framkvæmdir að ræða í flugmálum á Íslandi.

Ég vek líka athygli á því, að þessi framkvæmd hefur ekki gengið til Samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir. Samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir hefur fjallað um allar meiri háttar framkvæmdir hér á landi og hefur reynt að meta hvort vel eða illa væri staðið að framkvæmdum og hvort líklegt væri að fjárfestingin væri viðunandi arðbær og hvort væri of í lagt eða van í lagt, hvort stærð á herbergjum og salarkynnum væri með eðlilegum hætti og hvort um væri að ræða óhóflegan íburð eða ekki. Vissulega leikur á því grunur að fyrstu áætlanir um flugstöð hér á landi hafi verið með því marki brenndar, að það hafi verið um allmikinn íburð að ræða. Ég hef ekki séð seinustu áætlanir í þessum efnum. Ég hef ekki séð þær teikningar eða þau plön, sem þarna er um að ræða, og get því ekki um það dæmt, hvort þarna hefur orðið veruleg breyting. En auðvitað segir það sig sjálft, að um þessa framkvæmd hlýtur að verða fjallað af Samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir eins og fjallað hefur verið um aðrar framkvæmdir. Ég tel að þó að það hafi nokkuð verið gagnrýnt að bygging útvarpshúss hafi tafist í meðförum Samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir megi þó nefndin eiga það, að hún fór mjög rækilega yfir þær framkvæmdaáætlanir. Það er áreiðanlegt, að með þeirri „krítísku“ yfirferð, sem átti sér stað í nefndinni, voru sniðnir af því húsi ýmsir vankantar sem hefðu kostað skattborgara landsins og útvarpsnotendur óhæfilega mikla fjármuni. (Gripið fram í: Og eru þó enn fleiri eftir.) Og eru þó sennilega enn fleiri eftir, segir einn af útvarpsráðsmönnum, og dreg ég það ekkert í efa.

Hv. þm. Lárus Jónsson lét þess getið áðan, að það væri þó einn kostur við þessa flugstöðvarbyggingu sem ekki þyrfti að draga í efa og ætti að taka af skarið um að í þessa byggingu ætti að ráðast, og það væri að hún væri arðbær. Ég held að ég hafi skrifað það rétt upp eftir honum, að þessi stöð væri einkar arðbær og skilaði því fjármagni til baka sem í hana væri lagt. Það er svo sem von að hv. þm. haldi þessu fram úr því að hann er búinn að kynna sér þetta mál svo vel og hefur m. a. lesið Tímann daglega, eins og mönnum ber að sjálfsögðu að gera, en í fyrirsögn í Tímanum á sunnudaginn var er einmitt aðaláherslan lögð á að samkv. rekstraráætlunum um þessa framkvæmd sé þetta mannvirki seta muni skila ríkissjóði og skattgreiðendum talsverðum arði. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að eyða tíma hv. Alþingis í að fjalla um þennan þátt málsins, svo villandi sem frá þessum þætti málsins hefur verið greint, því að það er greinilegt að það eru fleiri en hv. þm. Lárus Jónsson sem vaða í villu og svíma um raunverulega rekstrarafkomu þessarar byggingar.

16. des. s. l. mun byggingarnefnd flugstöðvar hafa óskað eftir því við fjárlaga- og hagsýslustofnun að gerð yrði áætlun um rekstur ráðgerðrar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli. Ég vil taka það fram hér, að ég vissi ekki um þessa beiðni og raunar vissi ég ekki um, að þetta verk væri til vinnslu í fjárlaga- og hagsýslustofnun, og hafði raunar ekki hugmynd um þessa áætlunargerð fyrr en ég las Tímann á sunnudaginn var. En núna fyrir hádegið barst mér í hendur skýrsla sem unnin var fyrir utanrrn., og þar kemur glöggt fram hvernig rekstur þessarar stofnunar er áætlaður. Auðvitað er það um þennan rekstur eins og allan annan rekstur, að hann er byggður á ákveðnum forsendum. Ég geri og ráð fyrir að þeir, sem tóku að sér þetta verk, hafi haft samráð við utanrrn. um þær forsendur sem áætlunargerðin er byggð á.

Þegar rekstraráætlunin er gerð er miðað við að lendingargjöld á Keflavíkurflugvelli og tekjur af þeim renni til flugstöðvarinnar. Það er rétt að upplýsa það hér, að fram að þessu hafa lendingargjöld runnið í ríkissjóð. Ríkissjóður mundi því verða af þeim tekjum sem þar um ræðir, en þessi gjöld hafa að sjálfsögðu staðið undir þeirri margvíslegu þjónustu sem Keflavíkurflugvöllur veitir, m. a. kostnaði við rekstur flugumferðarstjórnar þar. Það er því ljóst að væri lendingargjaldið alfarið tekið til að kosta rekstur flugstöðvarinnar mundi ríkissjóður missa samsvarandi tekjur úr sínum kassa og það kæmi þá fram í halla á ríkissjóði sem því næmi.

Í öðru lagi er reiknað með því í þessari áætlun, að svokallaður flugvallaskattur, sem inn kemur á Keflavíkurvelli, renni allur til rekstrar flugstöðvarinnar. Nú rennur allur flugvallaskattur, sem inn kemur á Keflavíkurflugvelli, til byggingar flugvalla víðs vegar um land, til uppbyggingar flugbrauta og til að kaupa öryggistæki á þessa flugvelli. Það er ljóst að ef þessi tekjustofn yrði af tekinn yrði alger stöðvun í flugvallaframkvæmdum víðs vegar um land, nema ríkissjóður legði fram jafnháa upphæð í staðinn. Það er því ljóst að þessi hluti rekstrargjaldanna er einfaldlega tekinn úr ríkissjóði. Báðir þessir þættir eru teknir úr ríkissjóði.

Í rekstraráætluninni kemur fram, að ef þessir tekjuliðir eru frá dregnir ásamt þriðja tekjuliðnum, sem ég hafði ekki nefnt, þ. e. nettótekjum Fríhafnarinnar, verður ágóðinn af rekstri þessarar stöðvar orðinn harla miklu minni en ella væri eða 216 þús. Bandaríkjadollarar í staðinn fyrir 2 millj. 777 þús. Bandaríkjadollara ef hinar upphæðirnar væru meðtaldar.

Þriðji tekjuliðurinn, sem ég nefndi nú seinast, þarfnast kannske nánari skýringar einnig nettótekjur Fríhafnarinnar. Hvert renna þær sem stendur? Jú, nettótekjur Fríhafnarinnar renna nokkurn veginn allar til Ferðamálaráðs og þessar tekjur námu allverulegum upphæðum á seinasta ári. Því miður hef ég ekki fjárlögin hérna fyrir framan mig, en ég mundi giska á að á seinustu tveimur árum hafi þessi upphæð numið 150–200 millj. kr. á ári eða upphæð sem er einhvers staðar þar ekki allfjarri. Það er því alveg nákvæmlega eins með þennan væntanlega tekjustofn flugstöðvarinnar, að ef hann er tekinn af þeim aðila, sem hann hefur haft, mundi meiri parturinn af starfsemi Ferðamálaráðs falla niður ellegar ríkissjóður yrði að fjármagna þann þáttinn með öðrum hætti.

En þá á ég ótalinn þann þáttinn í þessari rekstraráætlun sem skekkir hana meira en nokkuð annað, en það er fjármagnskostnaðurinn. Það vill nefnilega svo merkilega til, að í þeim tölum, sem birtar hafa verið opinberlega um þessa rekstraráætlun flugstöðvar, er alls ekki reiknað með einni einustu krónu í fjármagnskostnað, ekki einni einustu krónu, og fara menn þá að skilja hvernig í ósköpunum á því getur staðið að þessi flugstöð er talin skila hagnaði eins og það hefur verið reiknað út. Það er sem sagt einfaldlega sleppt algerlega þeim útgjaldapóstinum sem langstærstur er. (LJ: Ráðh. hlýtur að vita að þetta er alltaf gert varðandi opinberar byggingar.) Ég viðurkenni að þegar byggðir eru skólar og ýmsar framkvæmdir eru gerðar er út af fyrir sig ekki reiknað með að um sé að ræða vaxtakostnað vegna þess að ríkið greiðir upphæðina á því ári sem framkvæmdin á sér stað, hún er afskrifuð í einu lagi, hún er greidd af fjárlögum í einu lagi. En það dettur víst ekki einum einasta þm. hér í hug að þessi framkvæmd verði greidd með beinu framlagi úr ríkissjóði. Ég spyr þá bara: Hvar á að taka það fé, 15–20 milljarða gkr. eða álíka fjárhæð og rennur til allra vegaframkvæmda í landinu á einu ári?

Nei, auðvitað er ljóst að þessi framkvæmd mun ekki eiga sér stað nema tekið verði erlent lán í því skyni. Raunar er þegar ljóst af byrjuninni að hér er ekki lagt til framlag úr ríkissjóði, heldur lántaka í þessu skyni upp á 20 millj. nýkr. eða 2 milljarða gkr. Ég vek á því athygli að þegar fjárlaga- og hagsýslustofnun sendi frá sér þessa skýrslu til utanrrn. mun hafa verið vakin sérstök athygli á því, að fjármagnskostnaður væri ekki með talinn, og gert var ráð fyrir því, að við nánari athugun þessa máls yrði það reiknað út, þegar upplýsingar lægju fyrir um hvað þetta mannvirki ætti að kosta, hver fjármagnskostnaður hugsanlega gæti orðið, en það hefur ekki verið gert í þeim tölum sem sendar hafa verið út. Þess vegna eru þær jafnstórlega villandi og raun ber vitni. Ég vil í þessu sambandi benda á að ef Íslendingar eiga að taka lán upp á 15 milljarða kr. í þessu skyni, sem er sennilega lágmarksupphæð, líklegt að um yrði að ræða miklu hærri fjárhæð, og eiga að greiða síðan vexti, sem við skulum hafa eins lága og við hugsanlega getum nefnt, þ. e. 13% vexti af erlendu láni, — vextir af erlendum lánum sem við höfum tekið hafa oft verið talsvert hærri en þetta, — þá eru vextir á hverju ári, bara vextirnir á hverju ári af þessari upphæð, til að byrja með 2 milljarðar ísl. gkr. Og ef við gerum ráð fyrir að rekstrarafgangurinn sé, eins og fram kom í fréttum hér seinast, 140 millj. og þegar þessi kostnaðarliður hefur verið tekinn með í reikninginn er sem sagt beinn halli á rekstri þessarar byggingar um 1860 millj. gkr. á hverju ári. Þetta eru staðreyndir málsins.

Ég held að ekki fari á milli mála að hér er um svo gífurlega stórar fjárhæðir að ræða að menn hljóta að hugsa sig um tvisvar áður en þeir ákveða að fara í svo mikla framkvæmd. Þeir verða að vera sannfærðir um að byggingin verði að vera svo stór sem lagt er til, þeir verða að vera sannfærðir um að ekki verði stórbreytingar á flugi yfir Atlantshaf á næstu árum og þeir verða helst að vita hvernig þeir ætla að fjármagna bygginguna, a. m. k. þann hluta sem þeir leggja sjálfir til að Íslendingar greiði.

Við Alþb.-menn teljum það lítt sæmandi að framkvæmd, sem í raun á að vera fyrst og fremst í þágu Íslendinga sjálfra, sé hrært saman við hernaðarframkvæmdir erlendrar þjóðar, en það er mál út af fyrir sig. Ég tel að hin rökin, sem ég hef hér fært fram, ættu að vera nægilega sannfærandi fyrir menn, hvort sem þeir eru andstæðingar hersetunnar eða ekki, svo að þeir sjái að hér er um að ræða framkvæmd sem ekki er tímabær.