08.04.1981
Efri deild: 74. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3541 í B-deild Alþingistíðinda. (3566)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Frsm. 2. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Það hafa orðið lengri og að sumu leyti sögulegri umr. um þessa till. en mér bauð í grun þegar við fluttum hana. Það er út af fyrir sig gott eitt um það að segja, að hæstv. ráðherrar hafa tjáð sig um þetta mál í nokkuð löngu máli. Þó bregður nokkuð nýrra við. Í gær var mjög nauðsynlegt að lánsfjárlögin gengju út úr þessari hv. deild þá þegar og með miklum hraða og óvenjulegum, en nú er tími til langra umr. um þessa till. sem er í raun ekkert annað en almenn heimild til hæstv. fjmrh. og ríkisstj. um að hann, ef honum býður svo við að horfa, taki lán til að greiða byrjunarkostnað við þetta mannvirki sem búið er að vera jafnlengi í undirbúningi og hæstv. utanrrh. sagði.

Ég vil fagna því, hve hæstv. utanrrh. hefur tekið jákvætt undir þessa till. og lýst fylgi sínu við hana. Hann taldi að hér væri um óþarflega háa upphæð að ræða. Í því sambandi má að sjálfsögðu benda á að þarna er eingöngu um heimild að ræða um allt að 20 millj. kr. lántöku. En ég vil lýsa því yfir, að ég er reiðubúinn að kanna möguleika á því, hvort það getur orðið samstaða um að lækka þessa fjárhæð. Þá dettur mér í hug að hún gæti allt eins vel verið t. d. innan við 10 millj., jafnvel enn lægri en það, því að hér er fyrst og fremst um að ræða, eins og hæstv. utanrrh. sagði, að við sýnum lít á því og sýnum áhuga okkar á því að þetta mál nái fram að ganga, ekki síst vegna þess að þegar er tryggt í þessa framkvæmd fé af fjárlögum Bandaríkjaþings, eins og fram hefur komið. Ég er sem sagt reiðubúinn að draga þessa till. til baka og flytja aðra till. um lægri fjárhæð, ef það getur orðið samkomulagsatriði í þessu máli, og vænti ég þess að meðan á þingflokksfundum stendur geti menn haft samráð um hvort sá samkomulagsgrundvöllur geti orðið í þessu máli.

Ég vil fara um málið nokkrum orðum þó að ég vilji ekki lengja þessa umr. allt of mikið, en hæstv. ráðherrar hafa talað hér klukkustundum saman þannig að það er ekki óeðlilegt að ég sem flm. að þessari till., sem svona miklar umr. hafa spunnist út af milli hæstv. ráðh., segi nokkur orð.

Þá vil ég gera hér nokkrar aths. við það sem kom hér fram hjá hæstv. fjmrh. Hann fór að minni hyggju marga hringi í kringum sjálfan sig í þessu máli. Hann mælti í fyrsta lagi gegn því, að hann fengi þessa heimild, sem hann veit allra manna best að ætti að vita að er algerlega í hans höndum hvort hann nýtir eða ekki. Í öðru lagi sagði hann það og viðurkenndi, að þessi framkvæmd þyrfti einhvern tíma að koma, en á hinn bóginn ættum við að reisa þetta mannvirki sjálfir og að mér skildist ætti það að draga úr þörf okkar á því að taka lán og það ætti jafnvel að gera mannvirkið arðbærara að við ættum að öllu leyti að borga það sjálfir. Hæstv. ráðh. lagði áherslu á tvennt í raun og veru í sínu máli: Í fyrsta lagi að við ættum að borga þetta sjálfir, þessi flugstöð hlyti að rísa, við ættum að borga hana sjálfir, en hún væri svo óarðbær og hún væri svo dýr og svo stór að við gætum ekki risið undir því að byggja hana að hálfu leyti. Ég verð að játa að ég fékk engan botn í þessar fjármálalegu röksemdir hæstv. ráðh. á einn eða annan hátt. Það getur ekki farið saman að við eigum að kosta þessa byggingu að öllu leyti og að hún hljóti að koma, eins og hæstv. ráðh. sagði, og að það dragi úr þörf okkar á lánum að við stöndum að öllu leyti undir þessu mannvirki.

Ég vil út af þessu segja það, að ég tel ekki óeðlilegt, þar sem þarna er um að ræða framkvæmd sem er í þágu bæði varnarliðsins og okkar, að um sé að ræða skiptingu á kostnaði í þessu skyni, en þetta er að sjálfsögðu mannvirki sem við höfum fullt forræði yfir og byggjum sjálfir.

Hæstv. ráðh. talaði hér um að við værum, á sama tíma og við flyttum till. sem þessa, að gagnrýna hvað væri tekið mikið af erlendum lánum og erlendar skuldir þjóðarinnar ykjust ört. Hæstv. ráðh. hefði átt að gefa sér tíma að vera hér við 2. umr., en þá fór ég mjög ítarlega í þetta mál og sýndi fram á það með ljósum rökum, að erlendar lántökur hafa ekki síst aukist á síðustu árum vegna þess að þrátt fyrir stóraukna skattheimtu á síðustu árum, á hvaða mælikvarða sem það er mælt, hefur á sama tíma verið þannig unnið að ýmsum framkvæmdum að framlögð af samtímaskatttekjum hafa verið skorin niður til framkvæmda, en lána aflað í staðinn. Ég rakti mörg dæmi um þetta. Ég rakti t. d. dæmi um þann þátt sem hæstv. ráðh. ætti sjálfur að þekkja allra manna best, þ. e. vegamál, en á því ári, sem hann var ráðh. þess málaflokks, urðu minnstar vegaframkvæmdir í landinu, en til þess að halda í horfinu á næsta ári voru tekin aukin lán. Það er eingöngu vegna aukinnar lántöku sem örlítið var hægt að auka vegaframkvæmdir. En þegar ríkið hagar þannig fjármálum sínum að taka í vaxandi mæli lán til ýmiss konar framkvæmda þrengir það að sjálfsögðu fyrir öðrum á innlenda lánsfjármarkaðinum og eykur erlendar lántökur verulega.

Ég ætla ekki að fara frekar út í þessa fjármálaspeki hæstv. ráðh. út af þessu máli. Eins og ég sagði áðan fékk ég hvorki botn í það, sem hann sagði, né heila brú í það. En hitt vil ég benda á, að allt mál hæstv. ráðh. var til þess fallið að storka mjög samherjum hans í ríkisstj. og þá alveg sérstaklega framsóknarmönnum, miðað við þá stefnu sem þeir hafa í þessu máli. Hann gerði það, að ég hygg, kannske ekki alveg af ásettu ráði, en hann margendurtók ýmsar fullyrðingar sem hafa áreiðanlega ekki hljómað vel í eyrum þessara samstarfsmanna hans.

Ég vil vekja athygli á því sem hæstv. utanrrh. sagði og var kjarni þessa máls frá hans hálfu. Hann sagði: Það er ekki ófróðlegt fyrir mig að sjá framan í þá þm. sem ætla að greiða atkv. gegn þessari till. eða greiða atkv. gegn þessari till., og það er ekki ófróðlegt fyrir þjóðina alla, fyrir allan landslýð. Ég skildi það svo, að hann hefði lýst afstöðu sinni með þessari till. En þá sá hæstv. fjmrh. ástæðu til þess að koma hingað í ræðustól og skýra frá þeirri skoðun sinni, að það væri skýlaust brot á stjórnarsáttmálanum ef einn ráðh. gengi í lið með stjórnarandstöðunni um milljarðaútgjöld. Ég sé ekki betur en hér sé um að ræða yfirlýsingar mjög alvarlegs eðlis af hálfu hæstv. ráðh., og ég sé ekki betur en þetta verði til þess, að ef t. d. framsóknarmenn ganga gegn þessari till., sem flogið hefur fyrir, séu þeir að bregðast utanrrh. sínum í þessu máli. Ég ætla ekki að taka dýpra í árinni þó ástæða væri kannske til.

Ég vil að lokum ítreka það, að ég er reiðubúinn að ræða um breytingu á þessari till. í þá veru, sem hæstv. utanrrh. stakk hér upp á, til þess að freista samkomulags í málinu og koma þessu nauðsynjamáli fram. Það er að sjálfsögðu ekkert aðalatriði um hvaða upphæð er að tefla á þessu ári, þar sem hér er fyrst og fremst um það að ræða, eins og hann gat réttilega um, að hafa svigrúm til að greiða ákveðin byrjunarútgjöld út af þessari framkvæmd og eins að Alþingi sýni vissan áhuga á því, að þetta mál nái fram að ganga. Ég er reiðubúinn að draga þessa till. til baka og flytja aðra till. með öðrum upphæðum ef samkomulag getur orðið um það.