08.04.1981
Efri deild: 74. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3543 í B-deild Alþingistíðinda. (3567)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns lýsa stuðningi við þá brtt. sem hér liggur fyrir, en jafnframt fagna þeim ummælum síðasta ræðumanns, hv. 3. þm. Norðurl. e. að hann sé reiðubúinn að taka til endurskoðunar þá heimildarupphæð sem tilnefnd er í þessari till. ef það mætti verða til samkomulags um málið. Ég sé ekki betur en að ef þar verður gerð breyting á hljóti að teljast veruleg líkindi á að þessi till. fái aukinn stuðning í þessari hv, deild. Ég held að í ljósi þess, sem gerst hefur undanfarna daga, hljóti slíkt að vera afar líklegt.

Það er auðvitað öllum ljóst, sem á Keflavíkurflugvöll koma og um Keflavíkurflugvöll fara, að aðstaða í flugstöðinni þar er engan veginn með þeim hætti að viðunandi geti talist. Þegar hafa því verið gerð nokkru skil hér og það komið ítarlega og rækilega fram í máli manna. Hitt er svo auðvitað rétt, að það er visst íhugunarefni hversu stórt skal þarna byggja, vegna þess hve mikilli óvissu ýmsir þættir flugrekstrarins héðan eru nú háðir. Við skulum gæta okkar að það fari ekki fyrir okkur eins og þeim Nýfundnalandsmönnum, sem byggðu rétt í upphafi þotualdar stóra og glæsilega flugstöð sem síðan hefur staðið mikið til auð og ónotuð. En það breytir ekki því, að nýja flugstöð þarf að byggja á Keflavíkurflugvelli og það hið allra fyrsta.

Það er furðulegt að Alþb.-menn sem í öðru orðinu tala um aðskilnað þess sem þeir kalla herlíf og þjóðlíf, sem tala um að þarna beri brýna nauðsyn til að skilja að sem mest þannig að umgangur og samskipti við svæði varnarliðsins af hálfu Íslendinga verði sem allra minnst, skuli manna harðast leggjast gegn því, að þarna skuli skilið á milli. Ég þykist vita að velflestum, ef ekki öllum Íslendingum sé það nokkur þyrnir í augum að þurfa að fara þarna í gegn þegar ferðast er til og frá landinu. Ég hygg að svo muni vera um flesta og þess vegna er auðvitað brýnt að þessu verði breytt. Ég hygg að þegar þessu verður búið að breyta muni menn velta vöngum yfir því, hvers vegna í ósköpunum þetta skuli ekki hafa verið gert löngu fyrr. Auðvitað er það mála sannast, að fyrir langalöngu hefði átt að vera búið að skilja algerlega þarna á milli þannig að herstöðin og varnarliðssvæðið væru eins mikið sér og við þyrftum eins lítið þangað að sækja og eins lítil samskipti við það að hafa og ætlunin var auðvitað í upphafi. Þetta er svæði sem um gilda sérstök lög og sérstakar tollreglur, og það er auðvitað æskilegt og nauðsynlegt að þetta sé aðskilið og að því miðar sú till. sem hér er til umr. En Alþb. er haldið einhverri undarlegri blindu í öllum þessum málum, og þegar málflutningur þess er athugaður skilur maður það auðvitað mætavel, að í málgagni Sovétstjórnarinnar, Sovietskaja Rossya held ég að það heiti, skuli þessum mönnum vera hrósað, hælt á hvert reipi og borið á þá lof í hvívetna. Auðvitað verður það allt saman auðskilið þegar ummæli þeirra eru skoðuð og lesin.

Ég hélt að það væri Alþb. kappsmál að koma í veg fyrir að við þyrftum að fara í gegnum hlið inn á sérstakt varnarsvæði til að komast að og frá landinu, og ég held að þeir hljóti að geta fallist á að einhver upphæð verði hér sett til að byrja þessa framkvæmd, eins og þessi till. gerir ráð fyrir og sú breyting sem með henni hefur verið boðuð. En hins vegar er náttúrlega allur málflutningur þeirra Alþb.-manna í þessum málum, varnarmálum og öllum þeim málum er snerta Keflavíkurflugvöll, með þeim endemum að einstakt er. Það er svo eftirtektarvert í þessu máli út af fyrir sig, að þegar búið var að gera um það samkomulag að afgreiða þetta mál héðan í gær og gera um það samkomulag, að mér skildist, að um það yrðu næsta litlar umr. hér í dag skuli fjmrh., sem maður skyldi ætla að ætti manna mest undir því, að þessi lánsfjáráætlunarlög yrðu afgreidd sem allra fyrst, vekja þetta mál upp með þeim hætti, sem hann gerði í þessum ræðustól, og snúa því þannig og til þeirra vega að um það hljóta að verða verulegar umr. Honum virðist ekki vera neitt sérstakt kappsmál að lánsfjáráætlunarlögin fari greiðlega hér í gegn, eins og búið var að semja um að gerðist, og síðan gerist það að beiðni Alþb. að umr. er frestað.

Þáttur framsóknarmanna í þessu máli er auðvitað kapítuli út af fyrir sig. Í Tímanum í gær var birt ályktun aðalfundar miðstjórnar Framsfl. sem haldinn var um helgina, og þar segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Aðskilnaður hers og þjóðar meðan erlendur her er í landinu er grundvallaratriði í stefnu framsóknarmanna, og bygging nýrrar flugstöðvar er forsenda þeirrar stefnu. Ný flugstöð er auk þess skilyrði bættrar ferðarnannaþjónustu og núverandi aðstaða er ósamboðin þjóðlegum metnaði. Aðalfundur miðstjórnar 1981 lýsir því eindregnum stuðningi við byggingu nýrrar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli.“

Undir þetta skal ég taka, hvert einasta orð sem í þessari samþykkt stendur. — Satt best að segja sé ég ekki hvernig hv. þm. Framsfl. í þessari hv. deild geta annað en greitt atkv. með þeirri till. sem hér er til umr. Við tölum stundum um það alþm., og raunar tala fleiri um það, að hjá þjóðinni sé álitið á stjórnmálamönnum í lágmarki, og ég veit að þetta veldur ýmsum áhyggjum, enda áhyggjuefni. En hvað halda menn um álit á stjórnmálamönnum almennt ef hv. þm. Framsfl. taka þátt í miðstjórnarfundi flokksins á sunnudegi og greiða þar atkv. með þeirri tillögu sem ég hef nú rakið, en á miðvikudegi greiða þeir á hinu háa Alþingi atkv. gegn því sem þeir samþykktu s. l. sunnudag? Ég segi það eitt: Geri þeir það, sem ég trúi ekki fyrr en ég tek á því, eru þeir ekki öfundsverðir.