08.04.1981
Efri deild: 74. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3544 í B-deild Alþingistíðinda. (3568)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Það hefur verið fundið að því í þessum umr. um lánsfjáráætlun og lánsfjárlög, hve seint þessi mál koma fram. Á fyrra ári þóttu gildar ástæður fyrir því. Þingrof, nýjar kosningar og stjórnarkreppa ollu því, að þessi mál komu ekki fram fyrr en undir vor. Nú hef ég ekki heyrt af hálfu hæstv. ríkisstj. nokkra skýringu á þessum seinagangi nú og væri fróðlegt að fá þær fram.

Hér eru til umr. lánsfjárlög og í því sambandi brtt. um heimild til að hefja byggingu flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli. Ég lýsi mig samþykka þessari till. og tel eðlilegt að komið verði til móts við óskir hæstv. utanrrh. um að upphæðin, sem farið er fram á, verði lækkuð eitthvað. En mér fannst fróðlegt að hlýða á mál þeirra tveggja hæstv. ráðh. sem töluðu langt mál um þetta. Það verður ekki séð af yfirlýsingum þeirra annað en alvarlegur brestur sé nú sjáanlegur í stjórnarsamstarfi. Verður fróðlegt að fylgjast með framvindu þess máls, hvort sá brestur verður bræddur saman aftur eða hvort um frekari gliðnun í stjórnarsamstarfinu er að ræða.

Í máli hæstv. fjmrh. komu fram ýmsar röksemdir fyrir því, að horfið yrði í bili frá öllum undirbúningsframkvæmdum að byggingu flugstöðvar. Sumt af því fannst mér marktækt sem rök. Ég skil vel og veit að hæstv. fjmrh. hefur áhyggjur af slæmu ástandi flugvalla úti um land. Það er vissulega þannig mál að ástæða er til að hafa áhyggjur af. Þess ber þó að geta í því sambandi, eins og komið hefur fram í þessum umr., að varla sést að undir hans forustu um þessi mál, fyrst sem samgrh. og nú sem fjmrh., sé nokkur lítur sýndur á að bæta hér úr. Það er og vitað mál og hefur verið margbent á það, að endurbætur á flugaðstöðu í Keflavík eru mál landsins alls og öryggisbúnaður þar, á okkar eina millilandaflugvelli, háskalega lélegur. Mér fundust það líka nokkur rök af hálfu hæstv. ráðh., að þessa stundina er óvissa í millilandaflugi okkar. Ýmislegt fleira, sem hann tíndi til, mátti hlusta á sem rök. En ég hafði þó á tilfinningunni að þarna væru notuð orð til þess að breiða yfir hina raunverulegu ástæðu hinnar miklu andstöðu hæstv. fjmrh. við þetta mál. Það flugu raunar um hug minn orð hins fræga einræðispostula Machiavellis, sem sagði einhvern tíma: „Stundum þarf að beita orðum til að breiða yfir staðreyndir.“ Það er þetta sem mér finnst að skíni út úr máli hæstv. ráðh. Það, sem fyrir honum vakir fyrst og fremst þarna, er rótgróin andúð á vestrænu varnarsamstarfi sem flugstöðin í Keflavík er hluti af.

Ég ber góðar vonir í brjósti um að þessi brtt., sem fram er komin nú, nái fram að ganga. Við heyrðum að hæstv. utanrrh. hét á flokksmenn sína að styðja hana. Það er vandséð hvernig þeir geta daufheyrst við því ákalli ráðh. Við höfum líka í höndum glænýja stjórnmálaályktun frá miðstjórnarfundi Framsfl. þar sem segir, með leyfi forseta, í sérstökum kafla um flugstöð:

„Aðskilnaður hers og þjóðar, meðan erlendur her er í landinu, er grundvallaratriði í stefnu framsóknarmanna, og bygging nýrrar flugstöðvar er forsenda þeirrar stefnu. Ný flugstöð er auk þess skilyrði bættrar ferðamannaþjónustu, og núverandi aðstaða er ósamboðin þjóðlegum metnaði. Aðalfundur miðstjórnar 1981 lýsir því eindregnum stuðningi við byggingu nýrrar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli.“

Afdráttarlausara getur þetta ekki verið. Spurningin er nú hvort framsóknarmenn hlýða kalli ráðh. síns eða láta undan þrýstingi samstarfsmanna sinna í ríkisstj., Alþb. manna.

Í stjórnarsáttmála núv. ríkisstj., í kaflanum um utanríkismál, sem er með ólíkindum rýr að vöxtum og innihaldi, er talað um að ekki komi til greina stækkun flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli nema til komi samþykki allrar ríkisstj. Það er því greinilegt að þarna er mikill árekstur við afstöðu hæstv. utanrrh. nú, sem telur sig eiga áskilinn rétt til að fylgja brtt. í þá átt á Alþingi, en staðhæfir jafnframt, og þá hætti ég eiginlega að skilja, að að sjálfsögðu verði staðið við yfirlýsingar í stjórnarsáttmála um samþykki allrar ríkisstj. til þess að framkvæmd verði bygging flugstöðvar. Þarna er greinilega mjög óhægt um vik hjá hæstv. utanrrh. og raunar hjá ríkisstj. allri sem burðast með í lestinni menn sem frá upphafi vega hafa verið andsnúnir vestrænu samstarfi og aðild okkar að NATO, enda ekki minnst á það einu orði í stjórnarsáttmálanum.

Ég veit að það er mikið hagsmunamál Reyknesinga að fá atvinnu við framkvæmdir þarna, og kannske er það ein af þeim hættum, sem dvöl varnarliðsins hér hjá okkur hefur í för með sér, að hlutaðeigandi byggðarlög verði hættulega háð framkvæmdum þarna. Hitt er svo annað mál, að hér er ekki um hernaðarframkvæmdir að ræða, eins og verið er að láta liggja að, heldur flugstöð til farþegaflugs sem byggð er fyrst og fremst í þeim tilgangi að tryggja aðskilnað hernaðarframkvæmda og farþegaflugs í landinu. Þetta markmið ætti að vera ljóst, og það er óskiljanlegt að Alþb.-menn skuli leggjast svo mjög gegn því um leið og þeir telja sig vilja forðast að hernaðarframkvæmdum og innanlandsmálum okkar sé hrært saman eða þeim vafið saman, eins og hæstv. fjmrh. komst að orði.

Í stjórnarsáttmálanum er sérstakt ákvæði undir kaflanum um utanríkismálum að stuðlað skuli að öflugri atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum. Nokkuð kemur það einkennilega fyrir þó, að slíkt ákvæði skuli vera í kafla um utanríkismál. En mér verður að spyrja: Hvað hefur hæstv. ríkisstj. gert eða hvað hefur hún í undirbúningi til þessa átaks í atvinnuuppbyggingu Suðurnesja? Sé það eitthvað að marki, sem byggja má á, hefur það farið fram hjá mér.

Ég skal ekki orðlengja þetta frekar hér. Ég styð þessa tillögu eins og hún er lögð fram hér og geri raunar ráð fyrir af máli manna áðan að henni muni verða breytt í þá veru að upphæðin verði lækkuð nokkuð.