08.04.1981
Efri deild: 75. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3549 í B-deild Alþingistíðinda. (3590)

209. mál, tollskrá

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Þetta atriði, eins og það fyrra sem var til umr., kom á dagskrá í umr. í Nd. Það er hárrétt sem hv. þm. segir: Svona hefur framkvæmdin verið og það er ekki gott. Ég tel sjálfsagt að þessu verði breytt. Raunar hafði þetta verið rætt í rn. fyrir nokkrum vikum þegar bent hafði verið á þetta, og menn voru sammála um að stuðla að því, að þessu yrði breytt. Ég get lýst því yfir, að fjmrn. mun gera það sem í þess valdi stendur til að tryggja að þessi framkvæmd á álagningu, sem auðvitað getur ekki gengið og hefði aldrei átt að líðast, verði afnumin og að álagning verði einungis lögð á það raunverulega verð sem bifreiðin stendur í þegar hún kemur til kaupandans.