08.04.1981
Neðri deild: 74. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3553 í B-deild Alþingistíðinda. (3598)

Umræður utan dagskrár

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það vakti athygli í sambandi við ummæli hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar áðan um hversu miklar atvinnutekjurnar hefðu orðið á s. l. ári, að hann batt sig við töluna 51, enda þótt fyrir liggi að hækkanir á kauptaxta hjá þeim atvinnustéttum, sem eru innan Alþýðusambands Íslands, liggja yfirleitt allar rétt um 52 og upp í 52.5% og jafnvel enn hærra. Þeir menn, sem fyrir hönd Alþýðusambands Íslands og þeirra launþega, sem eru innan þeirra samtaka, sömdu við ríkisstj. varðandi þær skattalagabreytingar, sem frv. um tekjuskattinn gerir ráð fyrir, hafa því ekki staðið sig, þeir hafa brugðist og sætt sig við lægri tölu en jafnvel hækkun kauptaxtanna hlaut að gera að algerri lágmarkstölu.