08.04.1981
Neðri deild: 74. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3555 í B-deild Alþingistíðinda. (3608)

158. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég tek heils hugar undir það sem síðasti ræðumaður, hv. 1. þm. Vestf., sagði í ræðu sinni áðan þegar hann gerði grein fyrir áliti minni hl. fjh.- og viðskn. En ég vil bæta nokkrum orðum við og gera sérstaklega grein fyrir því hér, hvað þessi skattur er mikill þyrnir í augum sveitarfélaganna í landinu.

Ástæðan fyrir því er sú, að þegar grundvallarbreyting var gerð á skattkerfinu fyrir allmörgum árum var reynt að móta heildarstefnu um hverjir skyldu vera skattstofnar ríkis og hverjir skyldu vera skattstofnar sveitarfélaga. Þá var sú stefna mörkuð í grófum dráttum, að fasteignirnar í hverju sveitarfélagi fyrir sig skyldu vera skattstofn sem sveitarfélögin tækju skatta af. Þess vegna var fasteignasköttum nokkuð breytt og þeir hækkaðir og það jafnvel svo að sumum hefur þótt nóg um. Síðan hefur það hins vegar gerst, að ríkið hefur æ ofan í æ höggvið í þennan knérunn, bæði með því að hækka eignarskatta, en grundvöllur eignarskatta er að sjálfsögðu í mjög ríkum mæli fasteignir, og svo með því að leggja þennan sérstaka skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, sem leggst á sama skattstofn og fasteignagjöld sveitarfélaganna og eignarskatturinn, þ. e. miðað er við fasteignamatsverð í árslok 1980, eins og er um að ræða í þessu tilviki. Þessi sérstaki eignarskattur er 1.4% af skattstofninum, þ. e. 1.4% af fasteignamatsverði viðkomandi eignar, og er þar með orðinn allnokkru hærri en fasteignaskatturinn sem sveitarfélögin innheimta af sömu eignum. Fasteignaskattur sveitarfélaga er 1% af fasteignamatsverði atvinnuhúsnæðis og getur hæst farið upp í 1.25%, en þessi sérstaki skattur er 1.4% af skattstofninum.

Þessi sérstaki skattur er því hærri en fasteignaskatturinn sem lagður er á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, og hann er orðinn allstór hluti af þeim heildarsköttum sem innheimtir eru af fasteignum. Ég hef ekki tölu um hverju þessi skattur nam á árinu 1980, en á árinu 1979 nam þessi skattur hér í Reykjavík 22% af öllum fasteignasköttum sem innheimtir voru í Reykjavík, bæði af verslunar- og skrifstofuhúsnæði og íbúðarhúsnæði. Af þessum tölum má sjá hvað þessi skattur er orðinn mikill hluti af þeim skatttekjum sem sveitarfélögunum raunverulega voru ætlaðar þegar lögin um tekjustofna sveitarfélaga voru sett.

Þessi skattur var upphaflega hugsaður sem bráðabirgðaskattur, en hann birtist hér í sama líki ár eftir ár og er framlengdur nú enn einu sinni. Borgarstjórn Reykjavíkur hefur fjallað um þennan skatt. Ég vil sérstaklega gera grein fyrir því hér, að borgarstjórn Reykjavíkur hefur samhljóða skorað á Alþingi að framlengja ekki þennan skatt og fella frv. sem um þennan skatt koma hér á þing. Um þetta voru allir flokkar sammála. Það sýnir glöggt hversu alvarlegum augum sveitarstjórnarmenn líta á þann skatt sem hér um ræðir.

Það er eitt atriði enn, sem sérstaklega snertir Reykjavík, sem ég vildi gera grein fyrir í þessu sambandi, en það er að fasteignamatið hefur hækkað mjög mikið hér í Reykjavík og það sérstaklega á ákveðnum svæðum, t. d. í miðborg Reykjavíkur. Fasteignamatið hefur hækkað svo mikið að skattheimta af eignum hér, bæði í formi fasteignaskatta, í formi eignarskatta og í formi þessa sérstaka skatts á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, er verulega farin að hamla gegn notkun húsnæðis í miðborg Reykjavíkur. Það eru ekki nema ákveðnar tegundir atvinnurekstrar sem raunverulega standa orðið undir því að greiða þennan háa skatt hér í miðborginni. Það dregur úr því sem borgaryfirvöld stefna að, þ. e. að gera notkun húsnæðis hér fjölbreyttara, koma upp fjölbreyttara atvinnulífi og fjölbreyttara mannlífi í miðborginni. Með hinni gegndarlausu skattheimtu á þessar eignir er nú svo komið, að það er ekki nema ákveðin tegund rekstrar sem stendur raunverulega undir því að greiða slíka skatta, og þess vegna hamlar þetta gegn þeirri stefnu, sem borgarstjórn Reykjavíkur hefur haft, að reyna að auka fjölbreytnina í miðborg Reykjavíkur.

Ég efast ekkert um að hið sama eigi við t. d. í miðbæ Akureyrar og annars staðar þar sem slíkir þéttbýliskjarnar hafa myndast. Þess vegna er ég eindregið andvígur því, að þetta frv. um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði verði samþykkt, og mun greiða atkvæði gegn frv. hér.