08.04.1981
Neðri deild: 74. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3557 í B-deild Alþingistíðinda. (3609)

158. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. 6. þm. Reykv. hefur nú tekið af mér ómakið að benda á afstöðu borgarstjórnar Reykjavíkur til þessa máls, enda erum við báðir borgarfulltrúar og tókum þátt í að móta þá afstöðu sem þar var einróma samþykkt.

Ég vil þó, úr því að ég var búinn að kveðja mér hljóðs, mótmæla þessu frv. og þessari skattheimtu og tel að eigendur verslunar- og skrifstofuhúsnæðis verði að fylgjast vel með afstöðu stjórnmálaflokkanna til skattlagningar sem þessarar. Það má bæta því við, að ég tel að fólkið í landinu verði að fylgjast með málflutningi og afstöðu flokkanna og einstakra þm. til skattlagningar almennt og þá sérstaklega sköttum sem þessum, því að mínu mati og margra annarra — það hefur komið hér fram í umr. — eru skattar af þessu tagi á eignir manna eignaupptaka í stærri og stærri áföngum. Það hefur greinilega komið fram í málflutningi um þennan skatt, að fólkið í landinu á ekki talsmenn gegn þessari skattlagningu í neinum öðrum stjórnmálaflokki en Sjálfstfl. Sjálfstfl. er eini flokkurinn sem virðist hafa nokkurn áhuga á því að gæta hagsmuna fólksins gagnvart skattlagningu. Það þýðir að hinir flokkarnir gæta hagsmuna og buddu ríkissjóðs og fjmrh. Ég held að það væri ástæða til að draga athygli að þessari staðreynd.

Við sjálfstæðismenn erum ekki nógu margir á Alþingi til að geta breytt hér nokkru um að þessu sinni. Það verður fólk líka að hafa í huga. Því verður fólk líka að átta sig á. Hópurinn er því miður of lítill til þess.

Ég skal nú ljúka máli mínu. Ég sé að forseti vill ekki málalengingar. En ég vil ítreka það, að fólkið, sem þegar er að sligast undan skattpíningu á sem flestum sviðum, átti sig á því, hvar talsmenn þess á Alþingi eru og að það virðist ekki eiga vini í neinum öðrum stjórnmálaflokki en Sjálfstfl.