08.04.1981
Neðri deild: 74. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3557 í B-deild Alþingistíðinda. (3610)

158. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vek athygli á því, að þegar þetta mál var til umr. í sambandi við stefnuræðu forsrh. hinn 23. okt. kom það fram í máli hæstv. sjútvrh., formanns Framsfl., að innan ríkisstj. væru uppi umræður um það, hvort ekki væri rétt að leggja niður skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Hann komst svo að orði, með leyfi herra forseta:

„Staða ríkissjóðs skapar einnig möguleika til endurskoðunar á skattalögum. Í því sambandi leggjum við framsóknarmenn mikla áherslu á niðurfellingu nýbyggingagjalds, eins og ráð er fyrir gert og fullt samkomulag um. Við teljum einnig skatta á skrifstofu- og verslunarhúsnæði vafasamari nú þar sem dregið hefur úr þenslu á því sviði og upphaflegum markmiðum með honum því náð. Við teljum nauðsynlegt að endurskoða álagningu eignarskatts, einkum einstaklinga.“

Síðar segir hann um þær breytingar sem hann telur almennt nauðsynlegt að gera á skattalögum: „Um þetta allt hefur verið rætt í ríkisstj. og menn þar sammála um slíka endurskoðun, enda er hún komin í gang, og vænti ég þess, að árangur sjáist fljótlega.“

Við sjáum á því frv., sem hér liggur fyrir, að Framsfl. hefur lent í minni hl. í ríkisstj. í þessu máli. Eins og endranær hefur Alþb. snúist öndvert gegn öllum þeim málum sem snerta verslun í landinu, enda er Alþb. í eðli sínu fjandsamlegt verslun. Á þeim tíma sem hæstv. félmrh. var ritstjóri Þjóðviljans, var algengt að lesa þar alls konar upphrópanir um að þeir menn, sem ynnu við verslunar- og skrifstofustörf, væru verri en aðrir menn, og þar var einnig um það talað að verslunar- og skrifstofufólk væri annars flokks launþegar. Þannig andaði frá hæstv. félmrh. til þessa fólks meðan hann var ritstjóri Þjóðviljans, og það kemur einnig fram í því frv. sem hér liggur fyrir, að hann er jafnandsnúinn þessum atvinnuvegi og áður.

Ég þarf ekki að rifja það upp, að við fasteignamatið í ár hækkaði atvinnuhúsnæði minna en venjulegt íbúðarhúsnæði. Ég hygg að atvinnuhúsnæði hafi hækkað um 45%, en venjulegt íbúðarhúsnæði um 50% eða svo hér í Reykjavík. Það sýnir okkur að verð á fasteignum til atvinnurekstrar hefur dregist aftur úr öðru fasteignaverði. Á þessu getur ekki verið nema sú eina skýring, að menn sjái sér ekki sama hag og áður í því að eiga atvinnuhúsnæði.

Það hefur raunar ekki aðeins komið fram í máli formanns Framsfl., heldur einnig í ummælum hæstv. viðskrh. Tómasar Árnasonar, að þessi skattur, sem hér um ræðir, sé ranglátur, hafi hann einhvern tíma hafa einhvern tilgang sé sá tími liðinn og nú sé þess vegna kominn tími til að leggja hann niður.

Það yrðu mér mikil vonbrigði ef samflokksmenn mínir í ríkisstj. ætla að standa að því með Alþb.-mönnum að knýja á um að þessi skattur haldi áfram. Í lengstu lög geri ég mér vonir um að sjálfstæðismennirnir í ríkisstj. reyni heldur að rétta framsóknarmönnum hjálparhönd með því að afnema þennan óskapnað sem í grundvallaratriðum stangast á við skoðanir og hugsjónir Sjálfstfl. eins og sú mikla hækkun eignarskattsins sem oft hefur verið rædd.

Ég vil skjóta því inn í og vil gjarnan spyrja frsm. meiri hl. í því sambandi: Ég geri mér ekki alveg ljóst, hvort þessi skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði leggst á pylsuvagna, og væri fróðlegt að fá um það upplýsingar. En mér hefur virst að það geti verið góður „Bisness“ að eiga pylsuvagn og kannske rétt að skattleggja þvílíka vagna líka fyrst á annað borð er verið að fara út í þetta.

Svo vil ég að síðustu aðeins láta í ljós undrun mína yfir því, að hæstv. ríkisstj. skuli ekki hafa skilning á því að einkaframtakið þurfi líka á skrifstofuhúsnæði að halda eins og ríkisbáknið hefur verið þanið út, eins og fjölgað hefur í stjórnarráðinu, eins og margar skrifstofur einkaaðila hafa verið teknar í þjónustu hins opinbera til þess að gefa út álitsgerðir um eitt og annað.