08.04.1981
Neðri deild: 74. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3566 í B-deild Alþingistíðinda. (3619)

158. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Það er auðvitað rétt sem fram kom hjá hv. þm. Friðrik Sophussyni, að m. a. ein ástæðan fyrir því, að þessi skattur, sem hér er til umræðu, var lagður á haustið 1978, var sú, að þá hafði hlaðist upp húsnæði í skjóli verðbólgugróða. Það er líka staðreynd að síðan þá hefur margt færst til betri vegar í vaxtamálum þó ekki sé það ástand orðið algott að vísu, en þær forsendur hafa allverulega breyst til batnaðar. En það verður samt að rifja upp að þetta var ekki nema ein af ástæðunum sem færðar voru sem rök fyrir þessum skatti. Önnur ástæða var sú, að það hefði verið fjárfest um of í verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Þessi skattur var á þeim tíma hugsaður sem hemill eða sem hagstjórnartæki. (FrS: Það er sama ástandið.) Ónei, það er alrangt. Það er hægt að fjárfesta og það er hægt að meta það stjórnmálalega að fjárfest sé of mikið þó að það sé ekki gert í skjóli neikvæðra vaxta. Þetta er kjarni málsins.

Ég segi það fyrir mig, að ég stóð að því að setja þennan skatt á á sínum tíma og tel ekki enn tímabært að leggja hann af. En ég sé hins vegar ekkert því til fyrirstöðu og tel það engum manni til vansæmdar að skipta um skoðun í máli sem þessu í ljósi breyttra aðstæðna. Það kann vel svo að fara að á næsta ári séu slíkar aðstæður komnar upp. En það er einfaldlega svo, og ég segi það fyrir mig og hygg að það sé skoðun flestra í þingflokki Alþfl., að við áttum þátt í því að setja þennan skatt á á sínum tíma. Fyrir því voru færð mjög veigamikil rök. Ég tel að forsendur hafi ekki breyst nógsamlega til þess að til baka sé horfið. Það þýðir á hinn bóginn á engan hátt að þessi skattur eigi að mínu mati að standa um alla eilífð.

Hér hefur hins vegar verið vikið að „prinsipmálum í sambandi við þetta. Hv. þm. Albert Guðmundsson hefur lýst því, að Sjálfstfl. sé eini flokkurinn sem sé treystandi í efnum sem þessum, að menn séu ekki skattpíndir. Það kemur auðvitað illilega heim og saman við þá afstöðu þeirra hæstv. ráðh. sem í ríkisstj. sitja og greiða þessu atkvæði, en telja sig sjálfstæðismenn. Og manni er spurn: Ef svo færi að Sjálfstfl. lenti í ríkisstj., jafnvel innan tíðar, mundi ekki allur flokkurinn hegða sér eins og þeir hæstv. ráðh. Friðjón og Pálmi? Er það ekki saga undanfarinna ára að Sjálfstfl. hafi ekki haft forustu um að afnema skatta? Þeir munu ganga í skattasveitina allir sem einn. Það var það sem gerðist 1974 eftir mikil kosningaloforð um skattalækkanir. Þá sagði þáv. hæstv. fjmrh. og barmaði sér yfir því, að þetta væri allt meira og minna bundið og ekki væri hægt að lækka skatta sem neinu næmi. Og mín hugmynd er sú, að kæmist Sjálfstfl. hér til áhrifa mundi þessi 17 manna minni hl. fylgja Friðjóni og Pálma og ekki öfugt, það yrði niðurstaðan.

Um enn eitt til viðbótar var hér spurt, hvernig á því stæði að borgarstjórn Reykjavíkur hefði einróma samþykkt andstöðu við þennan skatt. Þar situr hv. þm. Guðrún Helgadóttir. Hún hlýtur þá að vera einn af þessum 15. Og ég spyr: Ætlar hv. þm. að hafa aðra afstöðu hér en hann hefur haft í borgarstjórn Reykjavíkur?