08.04.1981
Neðri deild: 74. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3566 í B-deild Alþingistíðinda. (3620)

158. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Ég hef hlýtt á þessar umr. og skal ekki fara út í þær mörgum orðum. Ég vil þó aðeins geta þess út af þessu lagafrv., að það hefur komið til umr., eins og hæstv. dómsmrh. hefur hér getið um, við undirbúning fjárlaga að fella niður nokkra sérskatta og breyta skattalögum eftir því sem tekjuþörf fjárlaga gæti miðast við. Það var fellt niður nýbyggingagjald frá síðustu áramótum. Ég kom hingað í þennan ræðustól til þess að segja frá því, að ég held að það hafi ekki verið fyrir neina sérstaka baráttu eins stjórnarflokksins, eins og heyra mátti á máli hv. þm. Friðriks Sophussonar. Ég vil minna á að ég gaf mjög sterka yfirlýsingu í þá átt á fundi Stéttarsambands bænda áður en Alþingi kom saman, og það varð niðurstaðan að þessi skattur var felldur niður.

Það var einnig rætt um að breyta fleiri atriðum skattalaga. Nú hefur verið flutt frv. þar sem breytingar eru lagðar til. En eins og nú standa sakir höfum við fallist á að framlengja það gjald, sem hér er til meðferðar, til eins árs, enda þótt það sé rétt að hér sé um sérstakan skatt að ræða sem leggur nokkra mismunun á herðar gjaldþegna og getur ekki orðið til frambúðar.

Um almenn skattamál ætla ég ekki að ræða hér, enda þótt það hafi verið gert t. a. m. af hv. 1. þm. Vestf. En ég vil geta þess í sambandi við það frv. sem hér var til 1. umr. í gær, að nokkrar greinar þess frv. eru með fyrirvara af hálfu ríkisstj. þann veg að þær geti orðið athugaðar í þingnefnd og könnuð betur þau gögn sem unnt er að afla á þeim tíma sem til stefnu er til að kynna sér hvernig þær breytingar verka. Það er þess vegna hugsanlegt að frv. kunni að breytast eitthvað í meðförum þingsins. Ríkisstj. hefur engu slegið föstu um að það sé lagt fram þannig að það komi ekki til greina að endanleg gerð þess verði eitthvað önnur. — Ég heyrði ekki nákvæmlega hvað hv. þm. sagði um eignarskattinn, en þar geta verið atriði sem að mínum dómi komi til álita að taka til athugunar.

Ég vil ekki vera að tefja þessa umr. að öðru leyti en því, að þó að fjárlög séu áætlun um tekjur og gjöld ríkisins er það skylda ríkisstj. hverju sinni að halda svo á málum að a. m. k. séu líkur til þess að jöfnuður geti verið á ríkisfjármálum. Ég vil auðvitað segja það, að eðlilegt er að þm. sem aðrir í landinu vilji gjarnan lækka skatta. En hafi menn uppi tillögur um skattalækkanir hlýtur að verða að krefjast þess, að þeim tillögum sé fylgt eftir með öðrum tillögum um sparnað í útgjöldum ríkisins.

Vegna þess að hér hafa flokksbræður mínir talað nokkuð til okkar hæstv. dómsmrh. minnist ég þess til að mynda, að við afgreiðslu fjárlaga nú fyrir jólin fluttu þessir sömu flokksbræður okkar tillögur um aukin útgjöld ríkisins sem námu 5.5 milljörðum kr. Þeir fluttu að vísu tillögur um lækkun ríkisútgjalda, en þær till. námu aðeins 0.3 milljörðum kr. eða milli 0.3 og 0.4 milljarða kr. Þarna var ærinn munur á og var auðvitað lítið samræmi í og litla ábyrgð að finna í þeim tillöguflutningi öllum. Þannig er það stundum þegar þm. úr stjórnarandstöðu flytja till. um lækkun á tekjuöflun ríkisins, en þá verður auðvitað að krefjast þess, að þeim till. fylgi jafnharðan till. um sparnað í ríkisútgjöldum.