08.04.1981
Neðri deild: 74. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3567 í B-deild Alþingistíðinda. (3621)

158. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Sagt er að fálkinn gráti þegar að því kemur að hann éti hjartað í þeirri rjúpu sem hann er nýbúinn að veiða. Mér finnst að eins fari fyrir Sjálfstfl. þegar rætt er um skattlagningu á verslunarhús eða á verslunina í landinu yfirleitt. Þá er komið við hjartað í rjúpunni og þá grætur Sjálfstfl.

Þegar þessi skattur, sem hér er til umr., var lagður á haustið 1978 var m. a. haft í huga að draga úr miklum verðbólgugróða í þessum efnum, eins og hv. þm. Friðrik Sophusson kom inn á. Einnig var haft í huga að draga úr þenslu í þjóðfélaginu, og átti það þó einkum við um nýbyggingagjaldið. Því til viðbótar má svo geta þess, að það virðist vera nægilega mikið til af verslunar- og skrifstofuhúsnæði í landinu. Það var nægilega mikið til og það er enn þá nægilega mikið til. Að öðrum þræði var þessi skattlagning auðvitað, eins og öll önnur skattlagning, hugsuð sem tekjuöflun ríkissjóðs. Ef létta á af einum skatti hlýtur það að koma niður einhvers staðar annars staðar. Þá verður að hækka skatta einhvers staðar annars staðar, nema samtímis sé dregið á einhvern ákveðinn hátt úr útgjöldum ríkissjóðs með einhverjum áþreifanlegum hætti, en það hefur ekki verið lagt til í þessu tilefni.

Að mínu mati er réttara— ég a. m. k. vil það heldur að leggja skatt á verslun í landinu en launþega og því styð ég þetta frv.