09.04.1981
Sameinað þing: 72. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3573 í B-deild Alþingistíðinda. (3627)

385. mál, störf verkaskiptingarnefndar

Fyrirspyrjandi (Jóhann Einvarðsson):

Herra forseti. Á þskj. 485 hef ég leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. félmrh. varðandi störf verkefnaskiptingarnefndar:

„Hvað líður störfum nefndar þeirrar sem félmrh. skipaði á árinu 1976 til þess að endurskoða verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og hvaða áætlanir eru um framhald málsins er nefndin lýkur störfum?“

Um það leyti sem ég var að ganga frá þessari fsp. komst ég að því, að nefndin hafði lokið störfum í des. s. l. og verið var að ganga frá nál. Að höfðu samráði við hæstv. ráðh. var ákveðið að ég legði þessa fsp. hér fram engu að síður og honum gæfist þá kostur á að leggja fram skýrslu nefndarinnar — sem hann hefur þegar gert — hér á þinginu og vil ég þakka fyrir það. Í raun er því fyrri hluta fsp. minnar svarað.

Síðari hlutinn, um hvað fram undan sé eftir að nefndin hefur lokið störfum sínum, er raunverulega sá liður fsp. sem eftir stendur og þarf ég ekki að fara mörgum orðum um hann. Ég óska sem sagt svars við þeirri spurningu um leið og ég legg auðvitað áherslu á að hraðað verði að taka afstöðu til þessarar skýrslu nefndarinnar sem í rauninni er mikil og gagnleg. Og um leið og framhaldið verður ákveðið legg ég áherslu á að haft verði fullt samráð við Samband ísl. sveitarfélaga um framhald málsins til þess að bæta úr því ástandi sem nú er í samskiptum ríkis og sveitarfélaga sem er í raun og veru allt of flókið.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa lengri framsögu um þessa einföldu spurningu.