09.04.1981
Sameinað þing: 72. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3574 í B-deild Alþingistíðinda. (3629)

248. mál, aðstoð ríkisins við Siglósíld

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja fsp. til hæstv. fjmrh. um aðstoð ríkissjóðs við Lagmetisverksmiðjuna Siglósíld. Fsp. er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„1. Hve miklu nema bein framlög ríkissjóðs til Lagmetisverksmiðjunnar Siglósíldar samkv. ríkisreikningi og fjárlögum frá 1973–1981, að báðum árum meðtöldum?

2. Hve miklu nema ábyrgðir ríkissjóðs að auki vegna lána sem tekin hafa verið af fyrirtækinu eða ríkissjóði?

3. Hver er lagaheimild fyrir „aukafjárveitingar“ úr ríkissjóði til fyrirtækisins á s. l. ári að upphæð 150 millj. gkr?

4. Hvaða fordæmi eru fyrir slíkum beinum „aukafjárveitingum“ til B-hluta fyrirtækja ríkissjóðs?“

Eins og kunnugt er, þá er Lagmetisiðjan Siglósíld í eigu ríkissjóðs. Á undanförnum árum hefur reksturinn gengið þunglega og ríkissjóður hefur oft hlaupið undir bagga með þessari verksmiðju í einu eða öðru formi. Er fyrsti hluti fsp. til þess að freista þess að fá upplýst hversu mikil þessi aðstoð hefur verið — raunar fyrsti og annar liðurinn. Í fyrrahaust, þegar unnið var að undirbúningi fjárlagagerðar fyrir árið í ár, fengu fjvn.-menn upplýsingar um það, að hæstv. fjmrh., sem jafnframt er þm. Norðurlandskjördæmis vestra eins og kunnugt er, hefði veitt fyrirtækinu að auki — fyrir utan margvíslega aðstoð sem fyrirtækið hafði fengið samkv. fjárlögum og lánsfjárlögum og öðrum heimildum — aukafjárveitingu að upphæð 150 millj. gkr. sem — að því að okkur var tjáð eða skilja mátti — væri endanlegur styrkur til fyrirtækisins í ríkissjóði, af almannafé.

Mér vitanlega hafa ekki tíðkast fyrr slíkar aukafjárveitingar til B-hluta fyrirtækja eða ríkisfyrirtækja án lagaheimilda, a. m. k. ekki eftir að ég fór að fylgjast með fjármálum ríkisins. Þess vegna spyr ég hvort fordæmi séu fyrir slíkum aukafjárveitingum. Þær kunna að hafa farið fram hjá mér. Mér er kunnugt um að ýmis B-hluta fyrirtæki hafa fengið lán úr ríkissjóði eða með aðstoð ríkissjóðs, en ekki að B-hluta fyrirtæki hafi fengið beinar óafturkræfar aukafjárveitingar eins og mér skilst að hér sé um að tefla. Það er auðvitað mikið alvörumál ef svo á að vinna að málefnum ríkisfyrirtækja að þau geti fengið bæði beina og óbeina aðstoð úr ríkissjóði, hvað þá ef um er að ræða heimildarlausa aðstoð, á sama tíma og fyrirtæki, sem eru rekin í öðru formi, félagaformi eða samvinnufélagaformi eða formi hlutafélaga eða í eigu einstaklinga, fá enga viðlíka fyrirgreiðslu. Þetta hlýtur að enda með því, að þau fyrirtæki sem eru þá í opinberri eign — ef þau eru rekin á skaplegan hátt — ættu þá að sjálfsögðu að setja önnur fyrirtæki við hliðina á sér á hausinn.