09.04.1981
Sameinað þing: 72. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3577 í B-deild Alþingistíðinda. (3632)

248. mál, aðstoð ríkisins við Siglósíld

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. svörin, að svo miklu leyti sem þau voru fullnægjandi, við þeim spurningum sem ég lagði fyrir hann. Það kom m. a. fram í svörum hæstv. ráðh., að þetta fyrirtæki, Siglósíld, hefur fengið úr ríkissjóði nokkur hundruð milljónir gkr. í óafturkræf framlög, ríkisábyrgðir fram yfir það. Það munu vera einhvers staðar á milli fjögur og fimm hundruð millj. gkr. eða fast að hálfum milljarði, þó ekki sé reiknað á verðlagi í dag, heldur bara lagt saman það fjármagn sem þetta fyrirtæki hefur fengið og mest síðustu árin.

Ég vek athygli á því, að á sama tíma sem þetta gerist hefur fyrirtæki, sem framleiðir sömu vöru á sama útflutningsmarkað fyrir sama verð, lent í erfiðleikum og það hefur ekki fengið úrlausn hjá opinberum sjóðum og hefur þurft að greiða dráttarvexti í stórum stíl vegna sinna erfiðleika. Ég vek athygli á því, að það er algerlega útilokað að verja almannafé með þessum hætti og mismuna þannig fyrirtækjum eftir rekstrarformi. Og það er náttúrlega lágmarkskrafa að fyrirtæki, sem eru í opinberri eigu, séu rekin í einhverju því formi að það sé a. m. k. alveg ljóst og það komi fyrir Alþingi hverju sinni ef eigi að veita þeim sérstakan stuðning sem þennan sem Siglósíld hefur fengið. Ég er ekki að vanþakka eða gagnrýna í sjálfu sér að fyrirtækið fái stuðning, en að fyrirtækjum sé þannig mismunað eftir rekstrarformi, það náttúrlega gengur ekki.

Það fyrirtæki, sem ég er hér að tala um, er að sjálfsögðu K. Jónsson á Akureyri. Það framleiðir sömu vörur, það sætir sama verði og það flytur þessa vöru út á sama markað. Og það getur auðvitað ekki staðist samkeppni frá ríkisfyrirtæki með þessum hætti. Það liggur alveg ljóst fyrir.

Það vafðist fyrir hæstv. ráðh. að finna heimild fyrir því að veita þessa svonefndu „aukafjárveitingu“ sem er aðalkveikjan að þessari fsp. Hann vitnaði í 42. gr. stjórnarskrárinnar. Mér er fullkunnugt um hana og þau ákvæði sem gilda um fjáraukalög. En í 4. lið fsp. átti ég við það, hvort hæstv. ráðh. gæti fundið hliðstæð dæmi um hliðstæð fyrirtæki eins og Siglósíld. Hér er um að ræða atvinnufyrirtæki í eigu ríkissjóðs sem fær greiddar úr ríkissjóði 150 millj. kr. án nokkurra heimilda, og síðan er vísað til þess, að samkv. 42. gr. stjórnarskrárinnar geti Alþingi samþykkt eða fallist á þetta eftir dúk og disk þegar kemur að afgreiðslu fjáraukalaga. Það er auðvitað allt annað mál, hvort t. d. fyrirtæki eins og Skipaútgerð ríkisins fær eitthvað greitt meira en fjárlög segja til um hverju sinni. Ég er að gagnrýna þá aðferð sem hér er höfð. Hér er Alþingi stillt upp við vegg á þann hátt sem ég held að sé ekki fordæmi fyrir. Og ég verð að segja varðandi það fordæmi sem hæstv. ráðh. rekur hér frá árinu 1976, að upplýsingar um það höfum við ekki í fjvn. frá fjárlaga- og hagsýslustofnun.

Ég hef hér fyrir framan mig vegna fsp. í fjvn, upplýsingar frá fjárlaga- og hagsýslustofnun. Þar kemur fram að samkv. ríkisreikningi hafi Siglósíld ekki fengið eina einustu krónu í fjárveitingu 1976, hvorki aukafjárveitingu né annað. Það kann að vera að við nánari athugun hafi þetta reynst rangt hjá fjárlaga- og hagsýslustofnun, en aðspurðir um þetta svöruðu þeir okkur í fjvn. þannig.

Ég held að þetta atriði, sem ég hef vakið hér máls á, gefi tilefni til þess, að upp verði tekin ný og betri vinnubrögð í þessu efni og að það verði sérstaklega skoðað, ef hið opinbera á að eiga svona fyrirtæki eins og Siglósíld og reka, að þau verði þá rekin í einhverju öðru formi en þessu, að það sé bara farið í ríkissjóð og þeim afhentir peningar eftir því hvað tapreksturinn verður mikill.