09.04.1981
Sameinað þing: 72. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3581 í B-deild Alþingistíðinda. (3635)

248. mál, aðstoð ríkisins við Siglósíld

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þm. Sighvati Björgvinssyni um það, að auðvitað er einkennilegt að þurfa hér á hv. Alþingi að vera að ræða um fyrirtæki eins og Siglósíld. En það kemur einfaldlega til af því, að ekki hefur verið meirihlutafylgi fyrir því á hv. Alþingi að losa sig við ýmis opinber framleiðslufyrirtæki. Og ég fagna því, að hv. þm. gerist nú stuðningsmaður þeirrar hugmyndar. Ég tek jafnframt undir það með honum og hv. þm. Lárusi Jónssyni, að heimild ráðh. er mjög vafasöm. Breytir þá engu hvort vísað er til fyrri ríkisstj. hvað þetta snertir.

Það var ekki eðlilegt að hæstv. ráðh. gæti svarað þeim spurningum sem ég beindi til hans, vegna þess að það féll ekki innan ramma fsp. beinlínis, en er þó af sömu rót runnið. Það hefur komið fram, að gífurlegur hallarekstur er á fyrirtækinu, og það er þess vegna sem þetta mál er í brennidepli og til umr. En það, sem rak mig í ræðustólinn hér aftur, voru þau ummæli hæstv. ráðh. að Siglósíld hefði orðið fyrir stórtjóni vegna viðskipta við Dósagerðina. Ég veit að um var að ræða ákveðinn galla sem kom fram á framleiðslu vöru Dósagerðarinnar. En Dósagerðinni var aldrei gefið færi á því að laga sína framleiðslu og það voru aldrei möguleikar — að því er forráðamenn Dósagerðarinnar segja — að ná sambandi við stjórn Siglósíldar og þó einkum Hannes Baldvinsson, svo að ég nafngreini ákveðinn mann í því sambandi, vegna þess — að því er talið er — að ráðh. dró upp tékkheftið og tryggði fyrirtækinu Siglósíld aðgang að annarri vél utanlands frá.

Hér kemur fram gífurleg mismunun. Hjá fyrirtæki, sem hefur ekki alltaf framleitt gallalausa vöru — og þá á ég við Siglósíld, þar gengur ríkisvaldið í bakábyrgð, hvernig sem á bjátar, og borgar allan mun. Hins vegar mega einkafyrirtækin, bæði í sömu grein og eins í viðskiptagreinunum, búast við því að fara á hausinn eða tapa stórkostlega. Þarna getur það skipt sköpum að fjmrh., sá sem er með tékkheftið á hverjum tíma, er ef til vill frá sama bæjarfélagi og viðkomandi fyrirtæki er í. Og ég beini þessum ummælum ekki sérstaklega til núv. hæstv. ráðh. Rótin er auðvitað sú, sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson gat um áðan, að ríkið er að vasast í rekstri sem það á ekki að koma nálægt.