09.04.1981
Sameinað þing: 72. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3581 í B-deild Alþingistíðinda. (3636)

248. mál, aðstoð ríkisins við Siglósíld

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Vegna einkennilegra ádeilna hv. þm. Sighvats Björgvinssonar í minn garð fyrir það, að ég skuli vera að ræða hér um rekstur fyrirtækis, vil ég bara minna hann á að ég er hér að gegna skyldum mínum. Ég er hér að svara fsp. Ég var spurður um rekstur þessa fyrirtækis, m. a. um kaup fyrirtækisins á dósalokunarvélum. Mér finnst það mjög einkennilegt að ég skuli hljóta ákúrur hér fyrir að svara fsp. sem fyrir mig eru lagðar. Það væri þá frekar að átelja fyrirspyrjendur.

Í sambandi við ummæli hv. þm. Sighvats Björgvinssonar um þá venjuhelguðu aðferð að veita aukafjárveitingar verð ég að segja það, að þau ummæli, sem hann viðhafði áðan, að aukafjárveitingar væru lögbrot, held ég að verði að flokkast undir makalaust rugl af manni sem gegnt hefur embætti fjmrh.