09.04.1981
Sameinað þing: 72. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3583 í B-deild Alþingistíðinda. (3641)

386. mál, símamál í Kjósarhreppi

Fyrirspyrjandi (Salome Þorkelsdóttir):

Herra forseti. Ég verð nú að þakka hæstv. samgrh. fyrir upplýsingar hans þó að þær valdi sannarlega vonbrigðum. Í þeim yfirlýsingum, sem hann gaf í ræðu sinni fyrir ári þegar við ræddum þessi mál, sagði hann orðrétt, með leyfi forseta:

„Á næsta ári verða svo allir handvirkir sveitasímar í Kjósarhreppi tengdir við sjálfvirku símstöðina að Varmá, svo framarlega sem ekkert óvænt hindrar þau áform sem hér hefur verið greint frá.“

Ég get ekki séð að það hefðu nein óvænt áform þurft að hindra þetta mál og þess vegna veldur það sannarlega vonbrigðum að þetta skuli eiga að dragast í a. m. k. eitt ár enn. En eins og fram kom í ræðu hæstv. ráðh. áðan hefur verið lagt fram frv. í Ed. varðandi sjálfvirkan síma. Sú fimm ára áætlun, sem í því felst, tekur ekki gildi fyrr en 1. jan. 1982, ef hún verður samþykkt, og það þýðir að það verði þá ekki fyrr en í fyrsta lagi á árinu 1982 að farið verði að undirbúa þetta verk fyrir Kjósarhrepp eða Eyrarkotsstöðina.

Ég verð að lýsa vonbrigðum mínum með þessi svör. En það er þá a. m. k. hægt að segja að Kjósverjar og aðrir hafi þetta á hreinu eins og málin standa nú.