09.04.1981
Sameinað þing: 72. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3584 í B-deild Alþingistíðinda. (3642)

353. mál, álagning opinberra gjalda

Fyrirspyrjandi (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Það er nú liðið svo langt síðan ég lagði þessa fsp. fram að mig brestur minni hvenær hún fyrst var fram lögð á þinginu. En hún er á þskj. 64 og það eru margir mánuðir liðnir síðan öllum öðrum fsp. á þessu þskj. var svarað. Eitthvað hefur því tafið hæstv. fjmrh., hvort sem það hefur verið viljandi eða óviljandi.

Tilefni fsp. minnar var að í haust leið fóru að berast mjög harkaleg mótmæli, sérstaklega frá bændum, vegna tekjuskattslagningar á þá samkvæmt nýjum skattalögum og beitingu 59. gr, í því sambandi. Ég hafði því áhuga á að fá samanburð á því, hverjar hefðu verið skattgreiðslur þessara manna nokkur ár aftur í tímann og hverjar hefðu verið skattgreiðslur hinna svonefndu viðmiðunarstétta á sama tíma, þ. e. þeirra atvinnustétta sem bændur lögum samkvæmt eiga að miða kaup sitt við og í öðru lagi, hverjar hefðu verið fjárfestingar í landbúnaði á þessum tíma, til þess að bera saman fjárfestingarnar eins og þær hafa verið og fjárfestingargetuna eins og hún virðist hafa átt að vera samkvæmt skattlagningu. Þessar upplýsingar ætlaði ég síðan að nota til þess að bera saman við niðurstöðu álagningar 1980 til þess að sjá hvort hún hefði breyst mjög verulega.

Spurningarnar eru fjórar og orðast svo, með leyfi hæstv. forseta:

„1. Hversu margir framteljendur voru til tekjuskatts úr bændastétt árin 1975–1980?

2. Hversu margir voru gjaldendur tekjuskatts úr bændastétt þau hin sömu ár?

3. Hvaða fjárhæð nam sá álagði tekjuskattur á hverju þeirra ára?

4. Hver var meðaltekjuskattsgreiðsla bænda á hverju þessara ára um sig, og til samanburðar, hver var þá meðaltekjuskattsgreiðsla sjómanna, verkamanna og iðnaðarmanna (þ. e. hinna svonefndu viðmiðunarstétta) sömu ár?“

Og fimmta spurningin laut svo að því, eins og ég sagði áðan, hver fjárfestingin var í landbúnaði á hverju þessara ára, 1975 til 1980. Er fróðlegt að bera fjárfestinguna samkv. opinberum tölum saman við fjárfestingargetuna samkv. skattframtali.