09.04.1981
Sameinað þing: 72. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3584 í B-deild Alþingistíðinda. (3643)

353. mál, álagning opinberra gjalda

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefur beint til mín nokkrum fsp. um álagningu opinberra gjalda. Eins og hv. þm. er kunnugt er fyrirspyrjandi siðavandur maður og siðprúður og sérlega umvöndunarsamur og stendur sjaldan hér upp í ræðustól án þess að hafa einhverja umvöndun fram að færa til þeirra ráðh. sem hann á orðastað við. Venjulegast eru það ekki mjög þungbærar umvandanir sem af hans munni ganga, en oft smávaxnar nokkuð.

Í þessu tilviki kvartar hann yfir því, að langt sé um liðið síðan fsp. sé fram komin, og er það rétt. Hitt mun hann sjálfur vita, að lengi vel stóð á svari frá þeim embættismönnum sem áttu að framkvæma þessa útreikninga. Svarið var hins vegar tilbúið fyrir alllöngu og hefur síðan ýmist staðið svo á að ég hef ekki verið viðlátinn að svara spurningunni eða fyrirspyrjandi ekki viðlátinn, ýmist hefur það verið. Því hefur þetta nú dregist úr hófi fram. En vafalaust hefði verið hægt að skjóta þessari fsp. eða svari við henni til fyrirspyrjanda á vélrituðu blaði ef honum lá mikið á að fá þessar upplýsingar í hendur.

Fyrsta fsp var þessi: „Hversu margir framteljendur voru til tekjuskatts úr bændastétt árin 1975–1980?“ Skattárið 1975 voru þeir 4737, 1976 voru þeir 4477, 1977 voru þeir 4447, 1978 voru þeir 4719 og 1979 voru þeir 4164.

Önnur spurning: „Hversu margir voru gjaldendur tekjuskatts úr bændastétt þau hin sömu ár?“

Svar: Árið 1975 2370, árið 1976 2016, árið 1977 2769, árið 1978 3740 og árið 1979 2926.

Þriðja spurning: „Hvaða fjárhæð nam sá álagði tekjuskattur á hverju þeirra ára?“

Svar: Árið 1975 — og þá á ég enn við skattaár, ég á við það í öllum tilvikum-1975 261 954 126 kr., árið 1976 260 525 448 kr., árið 1977 615 165 980 kr., árið 1978 2166 983 541 kr. og árið 1979 1665 014 000 kr.

Fjórða spurning: „Hver var meðaltekjuskattsgreiðsla bænda á hverju þessara ára um sig, og til samanburðar, hver var þá meðaltekjuskattsgreiðsla sjómanna, verkamanna og iðnaðarmanna sömu ár?“

Svar: Árið 1975 var meðalskattur á bændur 55 300 kr., sjómenn 119 162 kr., verkamenn 46 577 kr., iðnaðarmenn 147 887 kr. Árið 1976 var meðaltekjuskattur á bændur 58 192 kr., sjómenn 168 325 kr., verkamenn 52 787 kr. og iðnaðarmenn 161 441 kr. Árið 1977 — nú tel ég einungis þúsundin ef enginn hefur neitt við það að athuga — 138 þús. á bændur, 329 þús. á sjómenn, 97 þús. á verkamenn og 257 þús. á iðnaðarmenn. Árið 1978 var meðaltekjuskattur á bændur 459 þús., á sjómenn 529 þús., á verkamenn 177 þús. og á iðnaðarmenn 395 þús.

Eins og áður segir — það var nú kannske ekki komið hér fram því að ég sleppti innganginum — en eins og áður segir hér í svarinu eru upplýsingar frá skattárunum 1975–1978 byggðar á starfsstéttaflokkun eftir svonefndri atvinnumerkingu Hagstofu Íslands og Þjóðhagsstofnunar.

Hliðstæðar upplýsingar fyrir skattárið 1979 eru ekki fyrir hendi, en þær upplýsingar, sem sýndar eru um bændur vegna skattársins 1979, eru úr yfirlitum sem gerð hafa verið á vegum sérstakrar nefndar vegna athugunar á skattlagningu bænda árið 1980. Meðaltekjuskattur á bændur á árinu 1979 nam 399 þús. kr.

Upplýsingar, sem settar eru fram vegna gjaldársins 1980, eru ekki byggðar á sömu forsendum og upplýsingar fyrri ára. T. d. fækkar bændum óeðlilega mikið miðað við fyrri ár — sem er að flestu leyti öfugt við það sem ætla mætti miðað við fyrri upplýsingagögn. Telja verður því að allar skýringar á mismun, er fram kemur milli eldri og nýrri upplýsingayfirlita, séu svo ófullkomnar að réttara sé að sleppa öllum tilraunum til skýringar.

Að lokum skal þess getið, að upplýsingar um meðaltekjuskattsgreiðslur sjómanna, verkamanna og iðnaðarmanna skattárið 1979 eru ekki fyrir hendi, en þessar upplýsingar ásamt upplýsingum um bændur gjaldárið 1980, sem einnig vantar, eru unnar á vegum Hagstofu Íslands og Þjóðhagsstofnunar.

Þjóðhagsstofnun hefur tekið saman yfirlit um fjármunamyndun í landbúnaði árin 1975–1980. Er ég þá kominn að fimmta lið fsp. sem var um hver væri fjárfesting í landbúnaði á hverju þessara ára 1975–1980. Ég mun láta fyrirspyrjanda í té sundurliðaða skrá um fjárfestingu í ræktun, útihúsum, vélum og landgræðslu á verðlagi þessara ára. En sé heildarfjármunamyndunin gerð upp á verðlagi ársins 1969 virðist hún vera sem hér segir eftir árum:

Árið 1975 1000 millj. gkr., árið 1976 980 millj. gkr., árið 1977 1117 millj. gkr., árið 1978 1088 millj. gkr., árið 1979 956 millj. gkr. og árið 1980 áætlað 800 millj. gkr.

Þetta er, eins og fram var tekið, á föstu verðlagi og má af þessu sjá að fjárfesting í landbúnaði hefur heldur farið minnkandi.

Herra forseti. Eins og ég hef þegar tekið fram ætla ég ekki að lesa þær mörgu tölur sem til viðbótar fylgja þessu svari, en mun afhenda fyrirspyrjanda ljósrit af þeirri töflu.