09.04.1981
Sameinað þing: 73. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3586 í B-deild Alþingistíðinda. (3645)

272. mál, flugrekstur ríkisins

Flm. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. þm. Árna Gunnarssyni og hv. þm. Vilmundi Gylfasyni leyft mér að bera fram svofellda till. til þál., með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að sameina allan flugrekstur ríkisins undir yfirstjórn Landhelgisgæslunnar með það að markmiði að auka hagræðingu og sparnað í rekstri.“

Tilgangur þáltill. er:

1. Að auka mjög hagræðingu í flugrekstri ríkisins.

2. Að nýta mun betur en nú er gert þann flugvélakost sem fyrir er í eigu ríkisins. Sama er að segja um flugmenn, flugvirkja og aðra sem við reksturinn starfa.

3. Að auka verulega möguleika Landhelgisgæslunnar á hvers konar flugi, þar með talið gæsluflugi.

4. Að spara fé ríkissjóðs og þar með skattborgaranna, bæði í nútíð og framtíð.

Á undanförnum árum hefur flugrekstur ríkisins og ríkisstofnana vaxið verulega og er sá rekstur af ýmsu tagi. Landhelgisgæslan er langstærsti aðilinn í þessum rekstri og hefur á hendi gæsluflug, leitarflug, björgunarflug, sjúkraflug, ískönnunarflug o. fl. Flugmálastjórn annast flugprófanir, leitarflug, sjúkraflug o. fl. Landgræðslan annast sáningu og áburðardreifingu úr lofti. Landmælingar annast landmælingaflug með leiguflugvélum. Á vegum Landsvirkjunar er ýmiss konar eftirlitsflug. Þannig mætti lengi telja. Þar við bætist svo að ríkið kaupir ýmiss konar almenna þjónustu af einkaaðilum í flugrekstri. Hér er um umfangsmikinn flugrekstur að ræða og sjálfsagt að setja hann undir eina stjórn til að ná fram aukinni hagræðingu og sparnaði í rekstri.

Ýmis fyrirtæki hafa stofnað til flugrekstrar með miklum tilkostnaði, fjárfest í dýrum flugvélum, stundum óhagkvæmum og án tillits til heildarhagsmuna eða samnýtingar með öðrum ríkisfyrirtækjum.

Nýting flugvéla í eigu ríkisins er mjög lítil. T. d. var heildarflugtími flugvélar Flugmálastjórnar á s. l. ári 350 klst. eða innan við 1 klst. á dag að jafnaði. Fokkervélar Landhelgisgæslunnar flugu á sama tíma samtals 1399 klst., sem er innan við 2 klst. á flugvél á dag að jafnaði. Á því ári var meðalflugtími Fokkervéla Flugleiða 4.71 klst. á dag. Meðan nýting flugvéla ríkisins er svona lítil eru Landmælingar með fastan samning við einkaaðila um a. m. k. 70 klst. flug á ári og greiða fyrir það 72 þús. dollara.

Það liggur í augum uppi að mikil hagræðing er í því fólgin að sameina flugreksturinn, sameina viðhald og allt annað sem að rekstrinum lýtur. Með því móti er unnt að nýta þann flugvélakost, sem til er, miklu betur en nú er gert. Það er t. d. auðvelt að nota flugvél Flugmálastjórnar, sem nú er sáralítið notuð, til mælingaflugs á vegum Landmælinga ríkisins. Það er einnig unnt að nýta þá flugvél í flest verkefni Landhelgisgæslunnar. Til þeirra hluta er hún mjög hentug. Vísa ég þar um í „Áfangaskýrslu nefndar um flugrekstur Landhelgisgæslunnar“, útg. af fjmrn. í júlí 1975.

Rekstrarkostnaður flugvélar Flugmálastjórnar er um eða innan við þriðjung af rekstrarkostnaði Fokker F-27 vélar Landhelgisgæslunnar. Er því augljóst að mikill sparnaður og hagræðing er í því fólgin að nota flugvél Flugmálastjórnar í margs konar flug fyrir Landhelgisgæsluna. Það að hafa aðgang að og ráða yfir fleiri flugvélum og væntanlega fleiri flugmönnum en nú eykur möguleika Landhelgisgæslunnar verulega á hvers konar flugi og það með minnkandi tilkostnaði.

Mál Landhelgisgæslunnar hafa verið til umr. á hinu háa Alþingi nú síðustu dagana og margt hefur komið fram sem sýnir erfiða stöðu Gæslunnar. M. a. hefur verið bent á mikla erfiðleika varðandi allt flug meðan Fokkervél Gæslunnar er í skoðun, sem oft er. Úr þeim erfiðleikum mun sameining flugrekstrar ríkisins undir yfirstjórn Landhelgisgæslunnar bæta að mestu leyti.

Það er mikil og margs konar þjónusta sem ríkið og ríkisstofnanir kaupa af einkaaðilum í flugrekstri, þjónusta sem sameinaður flugrekstur ríkisins gæti annast og þar með sparað umtalsverða fjármuni. Þar eð Landhelgisgæslan er langstærsti aðilinn á vegum ríkisins og til að undirstrika það að sameiningin eigi fyrst og fremst að koma henni að gagni er lagt til að sameinaður flugrekstur ríkisins verði undir stjórn Landhelgisgæslunnar.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til að þáltill. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. allshn.