09.04.1981
Sameinað þing: 73. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3588 í B-deild Alþingistíðinda. (3647)

279. mál, starfsskilyrði myndlistarmanna

Flm. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég flyt hér ásamt níu þm. öðrum á þskj. 571 till. til þál. um skipun nefndar til að kanna starfsskilyrði myndlistarmanna. Efni málsins er að fela ríkisstj. að skipa nefnd er kanni starfsskilyrði myndlistarmanna hér á landi og geri till. um hversu hið opinbera geti best örvað sjálfstæða listsköpun með því að myndlistarmönnum sé skapaður viðunandi starfsgrundvöllur. Nefndin skal hafa samráð við félög myndlistarmanna og þær stofnanir sem starfa að myndlistarmálum.

Ég held að engum blandist hugur um það, að á undanförnum árum hefur orðið mikil gróska í okkar listsköpun. ekki síst í myndlist. Vel menntuðum listamönnum fer mjög fjölgandi og á ýmsum sviðum atvinnulífsins sér þess stað, að við höfum færari hönnuði en áður sem hafa unnið iðnaðarvörum okkar markaði í erlendum löndum. Það er enginn vafi á því, að það er mjög sérstakt fyrir okkur Íslendinga hversu algengt það er að almenningur kaupi listaverk. Má vera að það standi í sambandi við það, hversu nálægt við erum náttúrunni, land okkar í sköpun og hið virka líf.

Ef við hverfum aftur til viðreisnarinnar var algengt á uppboðum að eitt málverk kostaði svo sem andvirði Volkswagen-bifreiðar — eitt gott Kjarvalsmálverk. Á þeim tíma, sem síðan hefur liðið, hefur svo dregið úr fjárráðum fólks, lífskjör hafa versnað svo upp á síðkastið að menn mega þakka fyrir nú að fá andvirði einnar Trabant-bifreiðar. Samt sem áður er það mjög einkennandi hversu mikil gróska er í listsýningum og hversu margir menn vilja prýða heimili sín með listaverkum. En einnig hefur það færst í vöxt að ríki og sveitarfélög, bankar og sjálfseignarstofnanir hafi veitt myndlistarmönnum stuðning.

Það, sem vakir fyrir flm., er að koma framlögum hins opinbera í fastara form. Við bendum ekki á mótaðar till. í þeim efnum, en bendum á eftirfarandi:

Listaverk í opinberum byggingum styrkja tilfinningu fólks fyrir þjóðerni sínu og uppruna. Það er menningar- og þjóðernismál að opinberar byggingar séu skreyttar listaverkum og nauðsynlegt að þau séu talin til byggingarkostnaðar. Ekki þarf að tíunda hér uppeldislegt gildi slíks umhverfis. Og ég minni á að í Nd. höfum við þrír þm. lagt fram frv. þessa efnis sem nú er til umfjöllunar í menntmn. þeirrar deildar. Þessi till. hefur fengið góðan stuðning frá myndlistarmönnum, en á hinn bóginn orðið stjórn Arkitektafélags Íslands tilefni til undarlegrar orðaleikfimi sem ég skal ekki gera að umræðuefni hér.

Það þykir sjálfsagt að tónskáld fái umbun sé verk þess flutt í útvarpi eða rithöfundur sé bók lánuð af bókasafni. Fyrirkomulagsatriði er hversu samsvarandi greiðslum skuli háttað til myndlistarmanna vegna verka sem eru til sýnis í söfnum eða á vegum opinberra aðila. Þessi málverk eða höggmyndir eru á sinn hátt lífeyrissjóður aldraðra myndlistarmanna. Ekki er vandalaust að þess skuli finnast dæmi að fremstu listamenn okkar búi við framfærsluvandamál í elli sinni eftir að heilsan hefur gefið sig. Þessu máli hef ég áður hreyft hér á Alþingi, hversu hægt sé að koma því við að gefa listamönnum kost á því að komast í lífeyrissjóð. Fyrir Sþ. liggur þáltill. um endurskoðun Launasjóðs og ég álit að þetta mál komist þar inn. Ég álit einnig að nauðsynlegt sé að íhuga hversu hægt sé að koma til móts við aldraða myndlistarmenn þannig að þeir þurfi ekki að kvíða ellinni, framfærslumálum sínum þá.

Það var í rauninni ótrúlegt afrek sem unnið var af Ragnari í Smára á sínum tíma þegar hann gaf út myndskreyttar útgáfur af Grettissögu og Brennu-Njálssögu og er gott til þess að vita að þessar útgáfur ásamt einum tveim öðrum, sem hann hefur staðið fyrir, skuli nú hafa verið gefnar út ljósprentaðar. En fyrir utan þetta framtak hans hefur ekkert sambærilegt gerst síðan varðandi myndskreytingar á Íslendingasögum af okkar listamönnum. Þarf að vinna áfram á þeirri braut og góð hugmynd er einnig að gefa myndlistarmönnum kost á því að spreyta sig á ýmsum sögulegum atburðum. Listaverk úr sögu er ekki síður gott yrkisefni en umhverfið, og má benda á mörg dýr yrkisefni, mörg dýr listaverk í víðri merkingu þess orðs, sem gleðja augu okkar og hug þegar við sjáum þau.

Ef við förum um sendiráð okkar erlendis sjáum við að vísu að þeir, sem annast skreytingar þar, eru sérfræðingar í vondum eftirprentunum íslenskum. Á hinn bóginn væri menningarauki að því og mundi gefa aðra mynd af okkur ef við legðum áherslu á að prýða sendiráð okkar með okkar bestu listaverkum og verðum þeim opinberu styrkjum, sem nú hafa um hríð verið veittir án tilgangs, einmitt til þess að víkka sjóndeildarhringinn og verka á jákvæðan hátt til þess að breiða út listina.

Ég vil svo að síðustu aðeins minnast á það, að á undanförnum árum hafa myndlistarmenn unnið brautryðjandaverk með því að færa list sína inn í atvinnulífið. Það er náttúrlega gömul saga um silfur- og gullsmíði. Síðan kom keramikframleiðsla til sögunnar og nú loks á síðustu árum hönnuðir í vefnaði, en í kjölfar þess hafa opnast nýir markaðir erlendis fyrir okkar vörur og fengist hærra verð. Ég held þess vegna að það sé mjög mikilsvert ef því yrði gaumur gefinn hvernig hægt sé að auka í náinni framtíð þetta starf myndlistarmannanna. Væri kannske rétt að leita samstarfs og samráðs við iðnrekendur og verksmiðjur SÍS í þeim efnum.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, herra forseti, en legg til að þessu máli verði vísað til 2. umr. og allshn.