09.04.1981
Neðri deild: 75. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3590 í B-deild Alþingistíðinda. (3650)

298. mál, úrskurðaraðili í deilu um starfsaldurslista flugmanna

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga á þskj. 632 um úrskurðaraðila í starfsaldurslistadeilu flugmanna Flugleiða hf. Betra væri að segja: í deilu flugmanna Flugleiða hf, um starfsaldurslista, og getur verið að nefndin, sem fær þetta mál, lagi það.

Þessi deila á sér nokkuð langan aðdraganda og skal ég ekki eyða löngu máli í að rekja þá sögu, en vil þó nefna örfá meginatriði.

Þegar við sameiningu flugfélaganna 1974 var gert ráð fyrir því að þar yrði einn starfsaldurslisti flugmanna. Flugmenn eru með þá sérstöðu innan starfsliðs Flugleiða og víðar að vera með svokallaðan starfsaldurslista. Hins vegar var ýmsum atriðum í sameiningu flugfélaganna frestað, m. a. þessu. Undanfarin þrjú ár má hins vegar segja að unnið hafi verið nokkuð sleitulaust að því að ná saman starfsaldurslista og sameina þannig þá lista sem gilda fyrir Félag ísl. atvinnuflugmanna og Félag Loftleiðaflugmanna. Árið 1978 skipuðu félögin bæði nefnd í þessu skyni sem kom sér út af fyrir sig saman um ýmis atriði, t. d. var hún sammála um að sameiginlegan starfsaldurslista þyrfti að gera. En án þess að ég reki það í smáatriðum strönduðu tilraunir þessara,r nefndar því miður og varð ekki lengra haldið áfram á þeirri braut.

Árið 1979 reis kjaradeila flugmanna. Þá varð samkomulag um að skipa gerðardóm í kjaradeiluna. Sá gerðardómur gekk þann 5. sept. 1979. Er í grg. með þessu frv. vitnað nokkuð til þess sem fram kom frá gerðardómi þessum um starfsaldurslista sem dómurinn taldi vera verulegan fjötur um fót við allar ákvarðanir í launa- og kjaramálum.

Mál þetta var síðan tekið upp á vegum sáttasemjara á s. l. ári. Skipaði ríkissáttasemjari í málið aðstoðarmann, dr. Gunnar G. Schram, sem segja má að hafi starfað sleitulaust s. l. ár að því að ná saman starfsaldurslista. Að vísu gaf sáttasemjari málið frá sér í haustmánuðum, en eftir nokkra fundi með deiluaðilum varð hann við beiðni um að taka málið upp að nýju.

Sáttasemjari lét fara fram atkvæðagreiðslu um sáttatillögu. Sú sáttatillaga var felld af einum deiluaðila. Sömuleiðis var leitað eftir samkomulagi um gerðardóm, en það tókst ekki heldur. Málið kom því frá sáttasemjara aftur skömmu fyrir síðustu áramót.

Í þessu sambandi hefur nú komið fram, m. a. frá Félagi ísl. atvinnuflugmanna, að rétt hefði verið að skipa sáttanefnd, og má það vel vera. Ég vil að það komi fram að þeir nefndu það við mig í septembermánuði. Hins vegar var það mat þeirra manna, sem gerst þekkja til þessa máls, að æskilegt væri að sáttasemjari, dr. Gunnar G. Schram, reyndi áfram, enda málinu þaulkunnugur.

Eftir að sáttasemjari gaf það frá sér að nýju í lok ársins var töluvert um þetta mál rætt, en þó ákveðið að láta það bíða nokkuð að grípa til frekari tilrauna, m. a. í þeirri von að ýmsir möguleikar, ýmsar stöður sem leitað var eftir fyrir flugmenn erlendis, verkefni sem Flugleiðir voru þá að afla sér eða hafa þegar aflað sér, kynnu að greiða fyrir lausn þessa máls. Sömuleiðis töldu menn æskilegt að sjá nokkru betur hver framtíð Atlantshafsflugsins yrði, því að sjálfsögðu er innst inni deilan vegna þess að með starfsaldurslista kunna ýmsir flugmenn að missa starf sitt ef samdráttur verður. Þar ræður starfsaldurslistinn og því er þetta eðlilega mikið tilfinninga- og hitamál.

Nú hefur Flugleiðum hf. að vísu tekist að festa verkefni erlendis, m. a. nýlega í Nígeríu og í Lýbíu. Eru nú reyndar stöður erlendis á vegum Flugleiða orðnar fyrir 39 flugmenn, miðað við 74 sem áætlað er í störf hér heima. Þarna hefur því verulegur fjöldi stöðugilda bæst við. Því miður fer hins vegar svo, þegar þjálfa á í þessar stöður, að starfsaldurslistinn veldur deilum að nýju, svo að öfugt við þær vonir, sem menn bundu við þessar viðbótarstöður kynnu að leysa málið, hefur svo ekki orðið og hefur Félag ísl. atvinnuflugmanna boðað verkfall frá og með miðnætti í nótt af þessum ástæðum.

Við alla þessa aðila ræddi ég áður en til þessarar verkfallsboðunar kom. Á fund minn gengu fulltrúar Félags ísl. atvinnuflugmanna fyrir um það bil 10 dögum og lýstu þá á ný áhuga sínum á því að skipuð yrði sáttanefnd. Jafnframt létu þeir í veðri vaka að þeir mundu sætta sig við úrskurð ef slík sáttatilraun yrði árangurslaus.

Ég gerði þá að tillögu minni jafnframt að niðurstaða slíkrar sáttatilraunar eða úrskurðaraðila yrði látin ná aftur fyrir sig til 15. mars og þannig leiðrétt sú starfsþjálfun, sem nú fer fram, ef niðurstaðan yrði önnur en félagið byggir á. Þetta samþykkti stjórn Flugleiða og sömuleiðis Félag Loftleiðaflugmanna. Hins vegar hafnaði Félag ísl. atvinnuflugmanna því, að þetta yrði látið ná þannig aftur fyrir sig, og taldi sig með engu móti geta fallist á þá tilfærslu í stöðum sem fylgir þeirri starfsþjálfun sem Flugleiðir verða að ráðast í m. a. vegna þeirra stöðugilda sem aflað hefur verið erlendis.

Ríkissáttasemjari hefur síðan sjálfur rætt við deiluaðila og gert ítarlega tilraun til þess að ná samkomulagi sem gæti leitt til þess, að frá þessu verkfalli verði horfið, og m. a. lagt áherslu á svipaða tillögu og ég lagði fram, en því miður hefur það reynst árangurslaust.

Eins og ég sagði í upphafi míns máls vil ég ekki tefja tímann með því að rekja þetta ítarlega. Ég vil aðeins segja það, að allir þeir aðilar, sem að þessu máli hafa komið, virðast sammála um að lausn á þessari deilu um starfsaldurslista sé forsenda fyrir því, að ganga megi til samninga um kaup og kjör. Sömuleiðis hygg ég að allir geti verið sammála um að lausn á þessu deilumáli sé forsenda fyrir því, að þetta flugfélag, sem hefur átt í verulegum erfiðleikum, geti risið upp úr þeim. Ég held að það sé óumdeilanlegt. Ég vil taka fram að með þessum orðum er ég ekki að halla á einn eða neinn. Venjulega er það svo að allir eiga nokkra sök þegar menn deila.

Ég hef því lagt til við ríkisstj., að frv. eins og það, sem hér er nú flutt, verði lagt fram, og hef jafnframt rætt við stjórnarandstöðu um þetta mál og leitað eftir samstarfi við hana. Í þessu frv. er farin nokkuð óvenjuleg leið. Ekki er ætlast til þess að úrskurðaraðili taki til starfa fyrr en fjórum vikum eftir gildistöku þessara laga og verði tíminn þangað til notaður til þess að gera enn eina tilraun til samkomulags með skipun sáttanefndar. Þessi leið er hér valin þar sem komið hefur fram í þeim viðræðum, sem fram hafa farið, að hún virðist eiga ríkan hljómgrunn hjá deiluaðilum, sérstaklega Félagi ísl. atvinnuflugmanna. Þeir hafa sjálfir lagt áherslu á að slík sáttatilraun yrði gerð.

Í þessu frv. er jafnframt kveðið svo á í 3. gr., að vinnustöðvun sú, sem boðuð er frá og með 10. apríl vegna þessarar deilu, verði óheimil og aðrar vinnustöðvanir í því skyni að knýja fram aðra skipan mála en lög þessi gera ráð fyrir. Í frv. er gert ráð fyrir að Hæstiréttur tilnefni úrskurðaraðila.

Ég vil að lokum geta þess, að eftir samþykkt ríkisstj. í morgun kallaði ég á fulltrúa Félags ísl. atvinnuflugmanna og fór þess mjög eindregið á leit við þá, að þeir féllu frá þessari verkfallsboðun og samþykktu að sáttanefnd yrði skipuð á þennan máta, enda næði niðurstaða hennar eða úrskurðaraðila yfir þá deilu sem nú stendur um þjálfun í hinar nýju stöður. Ég hef nú fengið þær fréttir frá fundi flugmanna, sem má segja að hafi staðið í dag, að þeir hafa hafnað þessu og eru ákveðnir í því að standa við sína verkfallsboðun ef ekkert verður gert til að stöðva það.

Ég vil svo segja að lokum, að því miður er ekki svo, þótt þetta frv. verði samþykkt og þótt úrskurður gangi, sem gera verður að sjálfsögðu ráð fyrir og hlýtur að gerast og þannig verði einn starfsaldurslisti, að deilumál innan félagsins við flugmenn verði leyst — langt frá því. Kjarasamningar eru opnir og nauðsynlegt vitanlega að ljúka þeim. Hins vegar er það mat þeirra aðila, sem að þessu máli hafa fyrst og fremst komið, að nauðsynlegt sé að fá einn starfsaldurslista áður en unnt er að takast á við það mál.

Ég vil að lokum fara þess á leit við hv. deild, að máli þessu verði hraðað eins og frekast er kostur og það komist til Ed. nú fyrir eða um kvöldmatarleytið, skulum við segja, og verði afgreitt þaðan í kvöld. Ég held að sú röskun, sem fylgir því ef flug stöðvast á morgun, sé mjög alvarleg og því nauðsynlegt að stíga skrefið áður en til þess kemur. Ég vil leyfa mér að vona, að sú nefnd, sem fær þetta mál, geti afgreitt það fljótt, og legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. samgn.