09.04.1981
Neðri deild: 75. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3593 í B-deild Alþingistíðinda. (3653)

298. mál, úrskurðaraðili í deilu um starfsaldurslista flugmanna

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að þessi umr. hér yrði notuð til að skattyrðast við hv. 1. þm. Reykv. og ekki heldur við hv. 3. þm. Vestf. Það gefst nægur tími til þess við umr. um önnur mál hér á Alþingi. Ég vil þó aðeins segja það út af ummælum þeirra, að í fyrsta lagi er því ekki að treysta að greiðara sé um götur hjá Alþb. í svona málum, eins og hv. 3. þm. Vestf. orðaði það, og í öðru lagi held ég að það séu aðrir en Alþb. sem eigi skilið einkunnina yfirdrepsskapur í sambandi við þetta mál. Hvað er það annað en yfirdrepsskapur þegar flokkur ákveður að sitja hjá við afgreiðslu máls, en flytur engu að síður till. um breytingu á heiti þess hins sama máls. Það er sérkennileg afstaða.

Hér er um að ræða frv. til l. um þrjú meginatriði:

Í fyrsta lagi, að sett verði sáttanefnd til þess að reyna enn til þrautar að ná samkomulagi í þeirri deilu sem staðið hefur í mörg ár um það, hvernig ráða á flugmenn til verka hjá Flugleiðum hf. þar sem um er að ræða tvö stéttarfélög á sama starfsvettvangi sama fyrirtækis.

Í öðru lagi gerir frv. ráð fyrir því, að úrskurðaraðili verði skipaður að loknu starfi sáttanefndar ef samningar takast ekki innan fjögurra vikna. Á það ber að leggja höfuðáherslu, að reynt verði til þrautar á þessum fjórum vikum að ná samkomulagi. Takist það ekki ber að úrskurða um starfsaldurslista. Í þeim efnum verður að taka ýtrasta tillit til fram kominna sjónarmiða, ekki síst félagslegrar aðstöðu flugmanna, ekki aðeins miðað við núverandi rekstur fyrirtækisins, sem hér um ræðir, heldur einnig að taka tillit til þess möguleika, sem óneitanlega er yfirvofandi, að enn frekari samdráttur geti orðið í rekstri fyrirtækisins.

Í þriðja lagi gerir frv. ráð fyrir að það verkfall, sem nú er að skella á vegna starfsaldurslistans, sé óheimilt. Hér er komið að mikilvægu grundvallaratriði. Það er mat þingflokks Alþb., að hér sé um að ræða óhjákvæmilega neyðarráðstöfun þar sem sýnt er að engin lausn finnist á þessum mjög svo sérstæðu deilumálum eftir hefðbundnum samkomulagsleiðum. Hér er ekki um kaupdeilu að ræða, heldur er hér á ferðinni átakamál innan starfshóps um sérstök vinnuréttindi. Á þessum forsendum, herra forseti, hefur þingflokkur Alþb. ákveðið að standa að því frv. sem hér er á dagskrá.