10.04.1981
Efri deild: 80. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3601 í B-deild Alþingistíðinda. (3677)

291. mál, almannatryggingar

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Heilbr.- og trn. hefur fjallað um frv. til l. um breyt. á lögum um almannatryggingar nr. 67/1971, með síðari breytingum. Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt. Undir nál. rita allir nm. heilbr.- og trn.

Eins og kunnugt er er frv. þetta flutt í samræmi við yfirlýsingu ríkisstj. við afgreiðslu kjarasamninga í okt. á liðnu hausti. Ég held að það sé rétt að ég lesi 1. gr. þessa frv., með leyfi forseta. Hún skýrir sig best þannig:

„Hver sem stundað hefur sjómennsku í 25 ár eða lengur skal eiga rétt til töku ellilífeyris frá og með 60 ára aldri, enda sé að öðru leyti fullnægt skilyrðum þessarar greinar. Starfsár sjómanna skal í þessu sambandi miðast við að sjómaður hafi verið lögskráður á íslenskt skip eigi færri en 180 daga að meðaltali í 25 ár.“

Þessi grein frv. er sem sé ný mgr. sem bætist við 11. gr. almannatryggingalaganna. Það skal tekið fram, að það er ekki skilyrði að aðili sé starfandi sjómaður þegar hann hefur náð umræddum aldri, 60 ára aldri.

2. gr. frv. fjallar um það að örorkustyrkþegi, sem náð hefur 62 ára aldri, skuli njóta örorkustyrks sem jafnan svarar til fulls örorkulífeyris.

Ég sé ekki ástæðu til að skýra þetta nánar. Þetta liggur mjög ljóst fyrir. Nefndin leggur einróma til að frv, verði samþykkt.