10.04.1981
Efri deild: 80. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3602 í B-deild Alþingistíðinda. (3679)

291. mál, almannatryggingar

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram, þá ánægju sem menn hafa sýnt yfir því, að þetta frv. skuli nú vera komið úr nefnd. Rétt er að geta þess, að það ákvæði, sem hér hefur verið tekið upp, er þáttur í kjarasamningum sem Sjómannasamband Íslands þurfti að knýja á um, en eftir stendur það, að Lífeyrissjóður sjómanna er afskaplega illa staddur og lífeyrir sem sjómenn fá, er afar nöturlegur, ég tala nú ekki um aðstandenda þeirra. Nokkur bót varð á við síðustu samninga, en betur þarf að gera til þess að réttlæti verði náð.

Það var mikils virði að sérstaða sjómanna var viðurkennd. Hjá öðrum þjóðum tíðkast það með þá sem í herþjónustu eru, að þeir komast á eftirlaun fyrr en aðrir. Ýmsar aðrar starfsstéttir gera það einnig, — starfsstéttir sem eru metnar á þann hátt að þær skipti feikilega miklu máli fyrir viðkomandi þjóð. Ég tel að það sé ástæða fyrir okkur að líta á sjómannastéttina sem okkar hermenn, okkar starfsmenn við að halda uppi lífskjörum þjóðarinnar, og við þurfum að meta það svo sem unnt verður.

Hv. síðasti ræðumaður ræddi um lögskráningu, sem hefur verið afar ófullkomin, en sjómannasamtökin hafa einmitt tekið þetta upp einnig og mig minnir að á fjárlögum sé varið 11 millj. gkr, sem munu renna til sjómannasamtakanna einmitt í því skyni að þau geti sjálf fylgst með lögskráningu. Það hafa komið upp alls konar tilvik, mjög alvarleg tilvik hvað snertir tryggingar sjómanna. Á þessu þarf að ráða bót. Að vísu er það mín skoðun, að það ætti að vera alfarið ríkisins að fylgjast með þessu. En það hefur því miður ekki tekist til þessa. Við skulum vona að það takist betur þegar Sjómannasambandið hefur hönd í bagga.

Ég endurtek það, að ég er mjög ánægður með framgang þessa máls og vænti þess, að áfram verði haldið í þá veru að bæta lífeyrisréttindi sjómanna.