10.04.1981
Efri deild: 80. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3603 í B-deild Alþingistíðinda. (3682)

183. mál, kirkjubyggingasjóður

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að fylgja úr hlaði frv. til l. um kirkjubyggingasjóð. Kirkjuþing 1978 samdi frv. til l. um kirkjubyggingasjóð og var frv., sem flutt var á síðasta þingi, í megindráttum í samræmi við það. Nú hefur kirkjulaganefnd, sem skipuð er af dóms- og kirkjumrh., farið yfir frv. og er frv. það, sem nú er flutt, í samræmi við ábendingar nefndarinnar í þeirri mynd sem nefndin gekk frá því.

Ég vil geta þess, að í kirkjulaganefnd eiga sæti dr. Sigurbjörn Einarsson biskup, formaður, dr. Ármann Snævarr hæstaréttardómari og Baldur Möller ráðuneytisstjóri.

Kirkjubyggingasjóður var upphaflega stofnaður með lögum nr. 43 frá 1954, en þau lög hafa tvívegis sætt breytingum, árin 1955 og 1962. Hlutverk kirkjubyggingasjóðs er að veita þjóðkirkjusöfnuðum lán til kirkjubygginga í sóknum landsins og til varanlegra endurbóta á eldri kirkjum, sbr. og 6. gr. þessa frv.

Samkv. upphaflegu lögunum frá 1954 skyldi lágmarksfjárhæð úr ríkissjóði vera 50 þús. kr., en sú fjárhæð var hækkuð í 1 millj. kr. árið 1962. Fyrir þessum sjóði hefur farið eins og fleiri sjóðum að fé hans hefur rýrnað og minni stoð og styrkur orðið að honum en vera skyldi. Á það skal bent að sums staðar í löndum, þar sem þjóðkirkja er, stendur hið opinbera straum af byggingarkostnaði kirkna að öllu leyti.

Þess ber að geta með þökkum, að almenningur hér á landi hefur lagt mikið af mörkum til kirkjubygginga, og sýnir það ótvírætt góðan hug almennings til kirkjunnar. Þetta mikilvæga liðsinni ber ríkisvaldinu að virða og leggja af sinni hálfu úr ríkissjóði fram veigamikinn skerf til kirkjubygginga. Vissulega kæmi til greina að framlög væru í formi styrkja, sbr. lög þau sem gilda um félagsheimili. Með þessu frv. er þó eigi brotið upp á slíkri stefnubreytingu heldur horfir frv. fyrst og fremst að því að kveða á að lágmarksframlög ríkissjóðs til kirkjubyggingasjóðs, sem lánar féð, skuli vera að verðgildi svipuð og verða skyldi samkv. lögunum frá 1954 og 1962 og svo verði einnig til frambúðar. Þess er að vænta að slíkt verði auðsótt.

Frv. þetta var lagt fyrir hv. Nd. og var fjallað um það af menntmn. Nefndin mælti með samþykkt frv. óbreytts að öðru leyti en því sem leiddi af ákvæðum um gjaldmiðilsbreytingu og gildistímanum var einnig breytt. Ég þarf því ekki að hafa fleiri orð um þetta frv., en legg til að því verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. menntmn.